27.8.2022 10:42

Saga viðurkenningarinnar

Réttum fjórum mánuðum síðar 26. desember 1991 hrundu Sovétríkin. Tilvist þeirra notaði Jón Baldvin sem rök gegn tillögu sjálfstæðismanna í nóvember 1990.

Þess var minnst á hátíðlegan hátt í vikunni að 26. ágúst 1991 komst að nýju á stjórnmálasamband Eystrasaltsríkjanna. Ísland varð fyrst ríkja til að viðurkenna á ný sjálfstæði Eistlands, Lettlands og Litháens á upplausnartíma Sovétríkjanna.

Af þessu tilefni rifjaði Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstæðisflokksins árið 1990, upp að hann og flokkssystkini hans fluttu tvær tillögur á þingi á árinu 1990 um upptöku stjórnmálasambands við Eystrasaltsríkin. Þær náðu ekki fram að ganga vegna andstöðu vinstri stjórnarinnar sem þá sat hér á landi undir forsæti framsóknarmannsins Steingríms Hermannssonar og Alþýðuflokksmannsins Jóns Baldvins Hannibalssonar sem utanríkisráðherra.

52312402125_98f379aa0d_kForsetar og utanríkisráðherrar Litháens, Lettlands, Eistlands og Íslands í Höfða 26. ágúst 2022 (mynd: UTN/Sigurjón Ragnar).

Litháen lýsti yfir sjálfstæði 11. mars 1990. Jón Baldvin taldi ekki þörf á að viðurkenna sjálfstæði Litáens formlega þar sem viðurkenning Dana á sjálfstæði ríkisins frá 1921 þegar þeir fóru með utanríkismál Íslands væri enn í gildi. Sjálfstæðismenn töldu þetta ekki duga sog sögðu í tillögu 28. mars 1990 öll rök hníga að því að árétta formlega viðurkenningu Íslands á sjálfstæði Litháens með formlegu stjórnmálasambandi.

Þar sem ríkisstjórnin féllst ekki á þetta var síðari tillagan flutt 15. október 1990. Þar var lagt til að ríkisstjórnin áréttaði formlega viðurkenningu Íslands á fullveldi Eistlands, Lettlands og Litháens og tæki tafarlaust upp stjórnmálasamband við ríkin með því að tilnefna íslenska sendiherra í þeim og veita viðtöku sambærilegum sendimönnum þeirra.

Jón Baldvin Hannibalsson sá annmarka á þessu og sagði þingræðu 5. nóvember 1990 meðal annars:

„Þrátt fyrir umbætur og breytingar, sem trúlega eru á byrjunarstigi innan Sovétríkjanna og innan svokallaðra sjálfstjórnarlýðvelda innan Sovétríkjasambandsins á undanförnum árum, er það enn svo að Eystrasaltsríkin eiga við ramman reip að draga í viðleitni sinni til að koma fram sem jafningjar annarra ríkja á alþjóðavettvangi.“

Páll Pétursson, fulltrúi Framsóknarflokksins í utanríkismálanefnd alþingis, sagði 5. nóvember 1990:

„Í besta falli er samþykkt till[ögunnar] þýðingarlaus. Í versta falli kynni hún að magna þær deilur sem til staðar eru. Þess vegna væri þessi till[aga] að mínum dómi betur óflutt.“

Stjórnarskipti urðu 30. apríl 1991. Davíð Oddsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, varð forsætisráðherra. Jón Baldvin hélt áfram sem utanríkisráðherra. Stefna Sjálfstæðisflokksins um upptöku á stjórnmálasambandi við Eystrasaltsríkin kom til framkvæmda 26. ágúst 1991 eins og nú hefur verið minnst. Réttum fjórum mánuðum síðar 26. desember 1991 hrundu Sovétríkin. Tilvist þeirra notaði Jón Baldvin sem rök gegn tillögu sjálfstæðismanna í nóvember 1990.

Allt er þetta skráð og mikils metið af þjóðunum þremur og stjórnvöldum þeirra sem líta á 26. ágúst 1991 sem lykildag í sögu sinni vegna stjórnmálasambandsins við Ísland þrátt fyrir að Sovétríkin væru enn á lífi.

Í sameiginlegri yfirlýsingu utanríkisráðherra ríkjanna fjögurra sem ritað var undir í Höfða föstudaginn 26. ágúst 2022 segir meðal annars:

„Yfirlýsingin [frá 26. ágúst 1991] var fyrsta viðurkenning annars ríkis á endurreistu sjálfstæði Eistlands, Lettlands og Litháen sem síðar var viðurkennt af alþjóðasamfélaginu.“

Saga þessa máls snertir ekki aðeins stöðu Eystrasaltsþjóðanna heldur varpar jafnframt ljósi þróun á stjórnmála hér. Ástæðulaust er af afskræma hana með kveinstöfum um nöfn á boðslista eða útsendingartíma hans.