29.6.2020 11:09

Safn til heiðurs Charcot

Í Þekkingarsetrinu í Sandgerði er fróðleg sýning um franska landkönnuðinn og heimskautafarann Jean-Baptiste Charcot sem fórst hér 16. september 1936.

Í Þekkingarsetrinu í Sandgerði er fróðleg sýning um franska landkönnuðinn og heimskautafarann Jean-Baptiste Charcot sem fórst hér 16. september 1936 þegar skip hans Pourquoi Pas? lenti „í miklu og óvæntu óveðri út af Reykjanesi, hraktist upp í Borgarfjörð og fórst á Hnokka út af Álftanesi á Mýrum. Alls létust 40 manns, 23 fundust látnir, 17 var saknað og fundust aldrei og einn skipverji komst lífs af,“ eins og segir á vefsíðunni Charcot.is. Þar segir einnig:

„Charcot og menn hans komu oft við hér á landi í leiðöngrum sínum á norðurslóðir, bæði í Reykjavík, Akureyri og Patreksfirði. Hann eignaðist fjölmarga vini hér á landi og hélt góðu sambandi við þá allt þar til yfir lauk. Strand Pourquoi Pas? var mikil sorgarfrétt á Íslandi á sínum tíma og til marks um það má nefna að þegar minningarsamkoma um hina látnu var haldin var öllum verslunum í Reykjavík lokað, og mun það vera einsdæmi að erlendum manni sé sýndur viðlíka sómi.“

Friðrik Rafnsson þýðandi hefur átt mikinn þátt í að koma upp þessari sýningu og fróðlegri vefsíðunni. Hann kynnti Charcot og safnið sunnudaginn 28. júní og þá voru þessar myndir teknar.

IMG_1644Charcot-safnið er hannað eins og skipsskrokkur, sé stigið út á „brúna“ má sjá tignarlegan Snæfellsjökul handan Faxaflóa.

IMG_1647Friðrik Rafnsson lýsir Charcot-safninu fyrir gestum.. Að baki honum hangir treyja eins og þær sem skipverjar á Pourquoi Pas? klæddust.

IMG_1645Hér er minnt á ferð Charcots til Suðurheimskautsins sem þótti frábært afrek á sínum tíma.

IMG_1653Ekkja Frakkans sem gerði þetta einstaka líkan af Pourquoi Pas? afhenti það árið 2012 til varðveislu í safninu í Sandgerði.

IMG_1650Grænlendingar heiðruðu Charcot með því að gefa honum þetta heimaunna listaverk.

IMG_1648Hér er boðsmiði í sérstaka lest frá St. Malo á Bretagneskaga til Parísar til þátttöku í opinberri útför þeirra sem fórust með Pourquoi Pas?. Hún fór fram 11. október 1936, tæpum mánuði eftir sjóslysið út af Álftanesi á Mýrum.