1.5.2023 10:23

Sættir um ASÍ-forystu

Er fagnaðarefni að ASÍ-forystan sé einhuga í dag 1. maí þegar farið er hér í kröfugöngu í 100. skipti.

Finnbjörn A. Hermannsson var kjörinn forseti Alþýðusambands Íslands á seinni hluta 45. þings sambandsins 27. til 28. apríl. Finnbjörn var sjálfkjörinn í embættið og engin mótframboð bárust. Hann hefur áratuga reynslu af störfum í verkalýðshreyfingunni en lét nýlega af störfum sem formaður Byggiðnar, áður Trésmíðafélags Reykjavíkur þar sem hann hafði verið í forsvari í 26 ár.

Með kjöri Finnbjörns kemur aftur til sögunnar forseti ASÍ með fullt umboð hreyfingarinnar sem komst í uppnám í ágúst 2022 þegar Drífa Snædal hrökklaðist úr forsetastólnum vegna átaka við þríeykið sem þá var: Sólveigu Önnu Jónsdóttur í Eflingu, Ragnar Þór Ingólfsson í VR og Vilhjálm Birgisson á Akranesi.

Fyrir fyrri hluta 45. þingsins í byrjun október 2022 taldi Vilhjálmur víst að þríeykið hefði undirtökin á þinginu og var Ragnar Þór forsetaframbjóðandi þess. Hann sprakk hins vegar á limminu og þríeykið splundraðist á þinginu.

Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, var þá fyrsti varaforseti og hafði tekið keflinu við þegar Drífa hvarf á braut. Hann sat áfram eftir fyrri hluta 45. þingsins og gegndi forsetastörfum í gegnum kjarasamningalotuna frá nóvember og fram yfir áramótin. Kristján Þórður gaf ekki kost á sér til kjörs í forsetaembættið.

Vilhjálmur Birgisson var orðinn formaður Starfsgreinasambandsins (SGS) fyrir ASÍ-þingdagana í október og 3. desember 2022 braut hann ísinn í kjaraviðræðunum með samningi til eins árs við Samtök atvinnulífsins (SA). Urðu samningar SGS forsenda samflots ASÍ og SA og þar með vinnufriðar nema hjá Sólveigu Önnu og Eflingu sem valdi sérleið illinda að sömu niðurstöðu að lokum eins og rakið hefur verið hér á síðunni.

Vegna forystu Vilhjálms var sú ályktun dregin hér á síðunni að hann yrði næsti forseti ASÍ en það varð ekki, hann situr hins vegar í miðstjórn sambandsins en ekki Sólveig Anna.

770657eb84591e9a79baf0fd68c14d395ad02edfNý forystusveit ASÍ, frá vinstri: Ragnar Þór Ingólfsson, Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, Finnbjörn A. Hernannsson forseti ÁSÍ og Kristján Þórður Snæbjarnarson (mynd: vefsíða ASÍ).

Í embætti fyrsta varaforseta var kjörinn Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. Í embætti annars varaforseta var kjörin Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs starfsgreinafélags og í embætti þriðja varaforseta var kjörinn Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands. Engin mótframboð bárust. Allt er þetta til marks um hve mikil áhersla var nú lögð á samstöðu um forystuna innan ASÍ.

Er fagnaðarefni að ASÍ forystan sé einhuga í dag 1. maí þegar farið er hér í kröfugöngu í 100. skipti.

Það er einkennileg árátta margra á þessum degi að tala eins og allt sem áunnist hefur launþegum til hagsbóta sé verkalýðshreyfingunni að þakka. Látið er eins og samningar sem nást séu ekki niðurstaða viðræðna þar sem ólík sjónarmið leiða til málamiðlunar að lokum. Raunveruleikinn er auðvitað sá.

Innan dyra í ASÍ er nú viðurkennt að Sólveig Anna Jónsdóttir og sósíalistarnir hennar verði að sigla sinn sjó. Áhrifa þeirra sjást ekki merki enda hefði þá engin málamiðlun leitt til þess að sjálfkjörið var að lokum í allar trúnaðarstöður sambandsins