3.7.2019 10:17

Sæstrengur var talinn EES-aðild til framdráttar

Jákvæða afstaðan til sæstrengs birtist meðal annars í greinargerð með lagafrumvarpinu um EES-samninginn sem gekk í gildi fyrir 25 árum.

Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands, fór í opinbera heimsókn til Bretlands í febrúar 1982. Í frétt um fund hennar og Margaret Thatcher, forsætisráðherra Breta, í Downing stræti 10 segir að þær hafi rætt orkumál og menntamál. Hvers vegna orkumál? kann einhver að spyrja. Svarið er einfalt, ríkisstjórn Íslands hafði þá þegar áhuga á að kanna hvort flytja mætti raforku frá Íslandi til Bretlands. Þetta var í tíð Gunnars Thoroddsens sem forsætisráðherra en hann hafði hreyft hugmyndum um útflutning á raforku.

WEB_Submarine-Cable_Edited_15.10.2017Gauragangurinn núna gegn EES-samstarfinu í nafni andstöðu við þriðja orkupakkann og hræðsluáróður um að með sæstreng steli ESB allri orku úr landinu og fái ráð yfir orkulindunum er í hróplegri andstöðu við afstöðuna til sæstrengs á níunda áratugnum. Jákvæða afstaðan til sæstrengs birtist meðal annars í greinargerð með lagafrumvarpinu um EES-samninginn sem gekk í gildi fyrir 25 árum.

Í 24. grein lagafrumvarpsins var vísað til IV. viðauka við EES-samninginn þar sem fjallað er um orku. Í athugasemdum um 24. gr. sem fylgdu frumvarpinu sagði meðal annars:

„Innan EB hefur ekki þróast nema í mjög takmörkuðum mæli sameiginleg stefna í orkumálum. Enn fremur kom fljótt í ljós í samningaviðræðum um EES að erfitt yrði að sameinast um reglugerðir um birgðahald vegna þess að sameiginlegar stofnanir skorti til eftirlits. Því varð ofan á að samstarf á þessu sviði er nokkru takmarkaðra en stefnt var að í fyrstu. Sameiginlegar reglur verða þó um gagnkvæma tilkynningarskyldu um fjárfestingar á sviði jarðolíu, jarðgass og raforku, blöndun annars eldsneytis í olíu og aðgang að orkuflutninganeti. Hið síðasta gæti komið að gagni ef og þegar af útflutningi orku frá Íslandi til Evrópu með sæstreng verður.“

Í lokaorðum athugasemdarinnar er vikið að því að Íslendingar gætu haft gagn af aðgangi að orkuflutninganeti á EES-svæðinu „ef og þegar af útflutningi orku frá Íslandi til Evrópu með sæstreng verður“.

Að láta nú eins og íslensk stjórnvöld eða ístöðulitlir ráðherrar undir harðstjórn embættismanna hafi látið draga sig inn í EES-orkusamstarf í trássi við það sem forgöngumenn EES-samningsins vildu er einfaldlega blekking. Ríkisstjórnin sem flutti alþingi frumvarpið um EES-samninginn á sínum tíma taldi það meðmæli með samningnum að hann gerði Íslendingum kleift að tengja sæstreng orkuflutninganeti í Evrópu.

Umskiptin sem hafa orðið í afstöðu þeirra sem að EES-frumvarpinu stóðu er sérstakt rannsóknarefni. Einnig að úr þeirri átt sé nú ráðist að ráðherrum sem vilja setja skorður við lagningu sæstrengs, skorður sem eru reistar á sérstöðu sem íslenskum stjórnvöldum bauðst eftir að hafa innleitt orkustefnu ESB í íslensk lög árið 2003 í samræmi við ákvæði EES-samningsins. Þá vildu stjórnvöld einfaldega ekki nýta sér fyrirvarana.

Hvatt er til þess að almenningur og þingmenn nýti tímann til lokaafgreiðslu þriðja orkuppakkans í lok ágúst til að fara enn frekar í saumana á málinu. Afstöðuna til orkumála við samþykkt EES-samningsins og skýringarnar á því sem felst í viðauka IV. við samninginn má skoða á netinu: https://www.althingi.is/altext/116/s/0001.html