11.5.2019 11:16

Sæstrengur í brennipunkt

Við meðferð þriðja orkupakkans hefur spurningin um sæstreng orðið að meira umræðuefni á stjórnmálavettvangi en áður og á betur skilgreindum forsendum.

Í grein minni sem birtist í Morgunblaðinu föstudaginn 18. apríl sagði meðal annars:

„Þörf er á meiri umræðum á stjórnmálavettvangi um [sæ]strenginn, eignarhald á orkulindum og alþjóðaþróun. Þessi spurning er áleitin: Á að spyrja þjóðina hvort hún vilji rafstreng til annarra landa? Þá yrði sá þáttur málsins ræddur til hlítar. Þriðji orkupakkinn er hins vegar tilbúinn til afgreiðslu núna, enda þaulræddur.“

Í Morgunblaðinu í dag (11. maí) er Sturla Böðvarsson, flokksbróðir minn og fyrrv. samstarfsmaður á þingi og ríkisstjórn, á svipuðum slóðum þegar hann fjallar um þriðja orkupakkann þótt hann gangi lengra en ég þar sem hann túlkar efni á vefsíðu Landsvirkjunar á þann veg að sæstrengur verði lagður. Að mínu áliti er mjög stórt skref eftir áður en að því kemur. Landsvirkjun tekur ekki ákvörðun um sæstreng heldur alþingi samkvæmt nýju frv. Þórdísar Kolbrúnar iðnaðarráðherra.

Normandie3_startSæstrengur lagður frá Normandie í Frakklandi.

Á hugmyndina um sæstreng og sölu á raforku um hann hefur löngum verið litið sem verkfræðilegt úrlausnarefni þar sem tæknileg og fjárhagsleg sjónarmið séu skoðuð. Málið hefur raunar einnig verið á borði stjórnmálamanna sem rannsóknarefni eins og á fundi forsætisráðherranna Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Davids Camerons í lok október 2015. Sæstrengur hefur ekki verið á borði stjórnvalda síðan árið 2016.

Við meðferð þriðja orkupakkans hefur spurningin um sæstreng orðið að meira umræðuefni á stjórnmálavettvangi en áður og á betur skilgreindum forsendum. Var ekki seinna vænna. Í þingskjölum er talað um „grunnvirki“ en ekki sæstreng þótt um sama hlut sé í raun að ræða.

Einar Þorsteinsson fréttamaður ræddi við Stefán Má Stefánsson, fyrrv. lagaprófessor, í Kastljósi mánudaginn 6. maí. Þeir komu inn á spurninguna um sæstreng og sagði Stefán Már meðal annars:

„Hún [ESB-tilskipun] fær ekki gildi fyrr en það er búið að, fyrr en að sko grunnvirki verða þá byggð af því að það er talið þýðingarlaust að vera að láta einhverja tilskipun fá gildi ef að grunnvirkin eru ekki til staðar. En ef að þau verða planlögð, ef að þau verða sem sagt áætluð eða byggð þá fer þetta í stjórnarskrárferli aftur. Og lög sem taka ekki gildi brjóta ekki í bága við stjórnarskrá.“

Með öðrum orðum O3 brýtur ekki í bága við stjórnarskrá og ekki verður lagður sæstrengur án þess að skoða áhrif hans á stjórnarskrána. Spurningin um sæstreng eða ekki sæstreng er einföld og hana mætti auðveldlega leggja undir mat þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu um leið og hugað yrði að stjórnlagaþættinum.

Hér er um að ræða mál sem kynni að verða á döfinni eftir einn eða tvo áratugi. Þá kunna ákvæði stjórnarskrárinnar að hafa breyst, til dæmis með nýju ákvæði um ráð yfir auðlindum en í gær ákváðu forystumenn stjórnmálaflokkanna að kynna tillögu um auðlindaákvæði í stjórnarskrána í svonefndri samráðsgátt stjórnvalda.