7.1.2018 10:33

Sádískir prinsar mótmæla jöfnuði

MBS stendur nú fyrir þjóðfélagsbyltingu að ofan í Sádí-Arabíu. Hann lét fyrir skömmu handtaka fjölda auðmanna og prinsa og loka þá inni í gullslegnu Ritz-hótelinu í Riyadh.

Velferðarráðuneytið sendi frá sér fréttatilkynningu 2. nóvember 2017 undir fyrirsögninni: Jafnrétti kynjanna í heiminum: Ísland í fyrsta sæti 9. árið í röð. Í tilkynningunni sagði meðal annars:

„Hvergi í heiminum mælist meiri jöfnuður milli kynjanna en á Íslandi samkvæmt mælingum Alþjóðaefnahagsráðsins árið 2017 og trónir Ísland í efsta sæti 9. árið í röð. Í kynningu á niðurstöðunum er sérstaklega fjallað  um hvað ræður góðri frammistöðu Íslendinga á þessu sviði.“

Alþjóðaefnahagsráðið eða World Economic Forum, WEF, efnir í byrjun hvers árs til funda í Davos í Sviss sem sóttir eru að þúsundum gesta úr heimi stjórnmála, fjármála og vísinda. Hefur ráðið áunnið sér traust og trúverðugleika. Það hefur meðal annars hannað kvarða til að meta stöðu kynjajafnréttis í heiminum (e. Global Gender Gap Report ) og beitt honum frá árinu 2006.

Kvarðinn felur í sér mælingar á fjórum sviðum sem taka til stöðu kynjajafnréttis á sviði heilbrigðis, menntunar, efnahagslífs og stjórnmála. Á efnahagssviðinu er m.a. horft til launamunar kynjanna, atvinnuþátttöku og kynjahlutfalla í hópi stjórnenda. Menntunarþátturinn er metinn út frá menntunarstigi karla og kvenna, heilbrigðisþátturinn tekur m.a. mið af lífslíkum og jafnfrétti á sviði stjórnmála er metið út frá stjórnmálaþátttöku kynjanna en staða Íslands árið 2017 miðar við hlutfall kvenna á Alþingi fyrir kosningarnar 28. október 2017.

Á árinu 2017 birtust einnig alþjóðlegar samanburðartölur sem sýndu að jöfnuður er hér með því allra mesta sem gerist meðal þróaðra ríkja. Á þetta bæði við þegar litið er til tekna og eigna.

Í ofangreindri frétt velferðarráðuneytisins segir ekki hvar Sádí-Arabía lendir á þessum kvarða en þar náðist sá mikilvægi áfangi í jafnréttisbaráttu kynjanna í fyrra að konur fengu heimild til að setjast undir stýri og aka bifreið.

 

Salarkynni í Ritz-hótelinu í Riyadh sem breytt var í fangelsi.

Nú í byrjun nýs árs bárust fréttir frá Sádí-Arabíu um að 11 prinsar hafi verið handteknir í höfuðborg landsins, Riyadh, eftir að hafa látið í ljós reiði sína með setuverkfalls í konungshöllinni. Prinsarnir gripu til þessa örþrifaráðs til að mótmæla nýrri stjórnvaldsákvörðun um að innheimta skuli gjald fyrir notkun á rafmagni og vatni af konungbornu fólki í landinu.

Sádískir fjölmiðlar skýrðu frá þessu laugardaginn 6. janúar. Í fréttum af málinu eru prinsarnir ekki nafngreindir. Þeir eru hins vegar ákærðir fyrir að raska almannafriði og dveljast nú í al-Hayer-fangelsinu. Þá kemur fram að menn úr um það bil 5.000 manna einkaher Mohammeds bin Salmans (MBS) krónprins tóku prinsana fasta. MBS stendur nú fyrir þjóðfélagsbyltingu að ofan í Sádí-Arabíu. Hann lét fyrir skömmu handtaka fjölda auðmanna og prinsa og loka þá inni í gullslegnu Ritz-hótelinu í Riyadh.

Liður í umbótum MBS í átt að jöfnuði er að afnema mörg fríðindi konungsfjölskyldunnar auk annarra hópa og innleiða virðisaukaskatt. Sádar hafa orðið að grípa til aðhalds vegna lækkunar olíuverðs. Yfirvöld stefna að því að styrkja fjárhagslega stöðu sína með því að bjóða hluti í ríkisolíufyrirtækinu til sölu.