23.4.2024 10:54

Rwanda-lausnin lögfest

Breska stjórnin telur að lögfestingin og flugið með hælisleitendur til Rwanda verði til þess að fæla fólk frá að fara í hættulega sjóferð á alls kyns bátskænum frá Frakklandi til Bretlands. 

Niðurstaða fékkst loks á breska þinginu að kvöldi mánudagsins 22. apríl um efni laga sem heimilar ríkisstjórninni að senda hælisleitendur til Rwanda í Afríku á meðan lagt er mat á hælisumsóknir þeirra. Fara lögin nú til staðfestingar konungs og stefnt að því að fyrstu flugvélarnar fari með fólk til Rwanda undir lok júní eða í byrjun júlí.

Í lögunum er Rwanda skilgreint sem „öruggt þriðja ríki“ og því sé ekkert því til fyrirstöðu að senda hælisleitendur til höfuðborgar þess, Kigali.

Þingið afgreiddi málið eftir þriggja vikna reiptog milli meirihluta ríkisstjórnar Íhaldsflokksins í neðri deildinni og lávarðadeildarinnar.

27001128712_2e5d258f06_oÚr lávarðadeild breska þingsins.

Með lögunum bregst breska ríkisstjórnin við dómi hæstaréttar landsins sem féll í nóvember 2023 þar sem sagði að samkvæmt alþjóðalögum væri óheimilt að senda hælisleitendur til Rwanda. Rök dómaranna voru meðal annars að hælisleitendurnir hefðu enga vissu um að umsóknir þeirra um hæli fengju rétta meðferð eða að þeir yrðu ekki fluttir nauðugir frá Rwanda til heimalanda sinna.

Markmið ríkisstjórnarinnar er að með lögum verði dómarar skyldaðir til að líta á Rwanda sem „öruggt þriðja ríki“. Þá er einnig að finna ákvæði í lögunum sem veita þeim sem meta hælisumsóknir vald til að hafa að engu mannréttindaákvæði bæði í alþjóðalögum og breskum lögum og sniðganga þannig skilyrði sem breski hæstirétturinn setti í nóvember.

Andstæðingar laganna í lávarðadeildinni settu meðal annars fyrir sig að ekki væri unnt að líta á Rwanda sem „öruggt þriðja ríki“ fyrr en óhlutdrægur aðili tæki afstöðu til þess. Þá vildu þeir að lögin næðu ekki til einstaklinga sem hefðu áður annaðhvort starfað fyrir Bretland eða staðið með Bretum – til dæmis Afgana sem hefðu barist við hlið breskra hermanna.

Að kvöldi mánudagsins 22. apríl hafnaði meirihluti neðri deildar breska þingsins öllum breytingartillögum lávarðadeildarinnar og sendi frumvarpið aftur til lávarðanna sem létu loks gott heita eftir að deildirnar höfðu kastað málinu á milli sín í því sem Bretar kalla „þinglegt pinpong“.

Breska stjórnin telur að lögfestingin og flugið með hælisleitendur til Rwanda verði til þess að fæla fólk frá að fara í hættulega sjóferð á alls kyns bátskænum frá Frakklandi til Bretlands og sækja þar um hæli.

Rishi Sunak, forsætisráðherra Íhaldsflokksins, sem á mjög undir högg að sækja samkvæmt skoðanakönnunum, hefur barist hart fyrir Rwanda-lausninni og telur að nái hann að hefta straum hælisleitenda bæti hann stöðu sína og flokks síns gagnvart Verkamannaflokknum. Bretar ganga til þingkosninga innan fáeinna mánaða. Talsmenn Verkamannaflokksins saka ríkisstjórnina um „fokdýra sýndarmennsku“ sem ekki breyti neinu gagnvart bátafólkinu sem komi yfir Ermarsund frá Frakklandi í hælisleit. Komist flokkurinn til valda verði þessi meðferð á hælisleitendum að engu gerð.

Þetta er í fyrsta sinn sem ríki grípur til ráðs af þessu tagi gagnvart hælisleitendum. Á vettvangi ESB hefur oft verið rætt um svipaða lausn og nú er þar til meðferðar tillaga frá dönsku ríkisstjórninni um að nýta Rwanda sem geymslustað en lítið hefur miðað við afgreiðslu málsins.