9.7.2022 10:34

RÚV á heima á fjárlögum

Listinn sem yfir kostaða dagskrárliði í ársskýrslu RÚV fyrir árið 2021 sýnir svart á hvítu hve fjarri þröngri túlkun á orðinu „íbúðarmikill“ RÚV aflar sér fjár með kostun.

Engum blöðum er um það að fletta að Ríkisútvarpinu (RÚV) eru búin sérstök skilyrði á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Nefskattur skilar RÚV um fimm milljörðum króna á ári og þar fyrir utan aflaði RÚV sér tveggja milljarða með sölu auglýsinga og kostunar á árinu 2021. Þá voru þessir dagskrárliðir kostaðir:

Bikarkeppni í handbolta, Bikarkeppni í körfubolta, Bikarkeppni í blaki, Verbúð, Eurovision og Söngvakeppnin, Hestaíþróttir, HM í handbolta, HM félagsliða, HM og heimsbikarmót í skíðaíþróttum, HM í íshokkí, Íslandsmótið í fimleikum, Íslandsmótið í golfi, Landsleikir í fótbolta, Landsleikir í handbolta, Landsleikir í körfubolta, Ófærð, Ólympíuleikar, Ólympíumót fatlaðra, Reykjavíkurleikarnir, Skólahreysti, Tónaflóð.

Samkvæmt reglum um RÚV má það selja kostun vegna dagskrárliða sem teljast „íburðarmiklir“ í skilningi laga um opinbera hlutafélagið. Fjölmiðlanefnd sem starfar á ábyrgð menningarmálaráðherra hefur samþykkt að allir ofangreindir dagskrárliðir séu „íburðarmiklir“ fyrir utan einn: Tónaflóð. Í nýlegum sektar úrskurði nefndarinnar segir að sá dagskrárliður geti ekki talist „íburðarmikill“ eins og stjórnendur RÚV töldu en endurskoðuðu síðan þegar að var fundið í von um að komast undan því að verða sektaðir. Það mistókst og þeir hlutu sekt fyrir lögbrot.

410x272-FEAT-hompage-sponsorshipFjölmiðlanefnd minnir á að ákvæðið um kostun „íburðarmikilla dagskrárliða í lögum um Ríkisútvarpið beri að túlka þröngt og fyrst og fremst að ná til þeirra alþjóðlegu viðburða sem taldir eru upp í skýringum við ákvæðið: Ólympíuleika, Evrópu- og heimsmeistarakeppni í handknattleik eða knattspyrnu og Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva“. Þetta sé auk þess vilji meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar alþingis frá 2013.

Listinn sem yfir kostaða dagskrárliði sem birtur er hér að ofan er úr ársskýrslu RÚV fyrir árið 2021 og sýnir svart á hvítu hve fjarri þröngri túlkun RÚV aflar sér fjár með kostun.

Forvitnilegt verður að sjá hvort þingmenn fylgja úrskurði fjölmiðlanefndar eftir og herða enn á lagaskilyrðum og framkvæmd kostunar hjá RÚV eða hvort áfram verður látið reka á reiðanum í þessu efni eins og ýmsu öðru sem varðar framkvæmd laganna um RÚV.

Er undarlegt hve langlundargeðið er mikið þegar kemur að framkvæmd RÚV ohf. á þeim lögbundnu skyldum sem á félaginu hvíla. Öðru hverju tekur núverandi menningarmálaráðherra rispur og lætur orð falla meðal annars um að taka eigi RÚV af auglýsingamarkaði en síðan gerist ekkert. Hugmyndir ráðherrans um umbætur á innlendum fjölmiðlamarkaði eru því miður allar of losaralegar til að nægilegt mark sé á þeim tekið.

Um þessar mundir er einn besti þátturinn á Rás 1 endurtekið efni um Ítalíu frá árinu 1983. Það var áður en ríkiseinokun á ljósvakamiðlum var afnumin. Leiðin til afnámsins opnaðist vegna verkfallsaðgerða starfsmanna RÚV. Að það skuli enn þurfa að hlú svona mikið að RÚV fjárhagslega með skattfé og sérreglum sýnir best að opinbera hlutafélagavæðingin misheppnaðist og ómaginn er best geymdur á fjárlögum.