12.4.2019 11:08

Rússar vilja íslenska hátækni en ekki fisk

Haldi menn að í gildi sé eitthvert viðskiptabann milli Rússa og Íslendinga er það misskilningur. Pútin og félagar vilja aðeins stjórna því sem Rússar kaupa af öðrum.

Allt frá því Rússar settu innflutningsbann á fisk frá Íslandi fyrir fimm árum hefur verið leitað skýringa á þessari ákvörðun Pútins forseta.

Einfalda skýringin er að hann hafi með þessu viljað ná sér niðri á Íslendingum fyrir að standa að refsiaðgerðum gegn Rússum eftir innlimun þeirra á Krímskaga.

Pólitískari skýring er að Pútín hafi reiðst þegar Gunnar Bragi Sveinsson, þáv. utanríkisráðherra, gerði sér ferð til Kænugarðs fyrir fimm árum til að styðja þá sem mótmæltu Rússum þar á götum úti.

Ass7uGg2s2aKMBPbNxd5z0PjMBc5zMogValdimir Pútin býður Guðna Th. Jóhannesson velkominn til fundarins í St. Pétursborg 10. apríl. Í bakgrunni má sjá Berglindi Ásgeirsdóttur sendiherra og Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra.

Raunverulega skýringin er líklega að Pútin hafi gripið til þessa ráðs í von um að þar með yrði unnt að knýja fram umbætur í rússneskum sjávarútvegi og fiskvinnslu. Haldi menn að í gildi sé eitthvert viðskiptabann milli Rússa og Íslendinga er það misskilningur. Pútin og félagar vilja aðeins stjórna því sem Rússar kaupa af öðrum.

Um þetta má lesa í frétt sem Gunnlaugur Snær Ólafsson blaðamaður skrifar í Morgunblaðið í morgun (12. apríl) um þátttöku fluttrúa 13 íslenskra fyrirtækja í alþjóðlegri sjávarútvegsráðstefnu um fiskveiðar á norðurslóðum í Múrmansk í mars 2018. Gunnlaugur Snær ræðir við Jónas Tryggvason, framkvæmdastjóra Knarr Maritme í Rússlandi. Fyrir utan Knarr-hópinn (Brimrún, Frost, Naust marine, Nautic, Skaginn 3X og Skipatækni) áttu Marel og Sæplast til dæmis fulltrúa í Múrmansk.

Á rúmu ári hefur Knarr í Rússlandi þróast samið um viðskipti fyrir meira en 100 milljónir evra (13,5 milljarða ísl. kr.).

Jónas lýsir aðferðum rússneskra yfirvalda til að efla innlendan sjávarútveg og endurnýja úreltan fiskiskipaflota. Skylt er að smíða ný skip í Rússlandi og í tengslum við það hefur íslenskum fyrirtækjum gengið vel að selja Rússum hugvit: „fiskvinnslukerfi, vinnsludekk á togurum, fiskvinnsluhús og hönnun á skipum“. Verkfræðistofan Nautic hefur opnað starfsstöð í Sankti Pétursborg og ráðið til sín um 45 starfsmenn sem munu hanna skip að sögn Jónasar og hann bætir við:

„Þetta er virkileg bylting miðað við það sem hefur verið í gangi hérna síðustu árin. Ég er búinn að fylgjast með þessum bransa í Rússlandi síðustu 30 árin og þetta er alveg stórkostlegt. Það hafa hingað til verið mjög litlar fjárfestingar, mjög lítið um landvinnslu og mjög lítið um fullvinnslu, en nú er verið að taka mjög stór skref með gríðarlegum fjárfestingum.“

Þegar þung orð eru látin falla í garð íslenskra stjórnvalda vegna innflutningsbanns Rússa á íslenskum fiski ættu menn að hafa ofangreindar staðreyndir í huga.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra og Berglind Ásgeirsdóttir sendiherra sátu fund með Vladimir Pútin Rússlandsforseta í St. Pétursborg miðvikudaginn 10. apríl. Á vefsíðu forsetaembættisins segir:

„Þá var rætt um viðskipti Íslands og Rússlands, framlag íslenskra fyrirtækja á sviði hátækni og hönnunar í vinnslu sjávarafurða og hönnun skipa í Rússlandi og leiðir til að greiða á ný fyrir vaxandi viðskiptum milli landanna.“