22.11.2023 10:23

Rússar reyna á þolrif Finna

Rússnesk stjórnvöld hafa nú gripið til fjölþátta aðgerðar (e. hybrid operation) gegn Finnum með því að senda hælisleitendur yfir finnsku landamærin. 

Rússnesk stjórnvöld hafa nú gripið til fjölþátta aðgerðar (e. hybrid operation) gegn Finnum með því að senda hælisleitendur yfir finnsku landamærin. Eftir að Finnar lokuðu föstudaginn 17. nóvember fjórum landamærastöðvum gagnvart Rússlandi í suðausturhluta lands síns sá rússneska öryggislögreglan, FSB, um að flytja hópa fólks frá Mið-Austurlöndum norður undir Kólaskaga, fyrir norðan heimskautsbaug. Þar fá hælisleitendurnir reiðhjól til að komast yfir finnsku landamærin við bæinn Salla í Lapplandi. Komu 35 hjólreiðamenn þangað mánudaginn 20. nóvember í 22 stiga frosti.

Enginn dregur í efa að rússnesk stjórnvöld standi þarna að baki þótt Dmitríj Peskov, talsmaður Kremlverja, segi það af og frá.

Screenshot_2023-11-21_at_14.39.58Hælisleitendur frá Mið-Austurlöndum í 22 stiga frosti á norðurhjara á reiðhjólum í boði rússnesku öryggislögreglunnar, FSB.

Finnska ríkisútvarpið Yle leitaði álits tveggja sérfræðinga í fjölþátta ógnum. Þau eru Hanna Smith og Jukka Savolainen og starfa bæði við European Centre of Excellence for Countering Hybrid Threats, eða Hybrid CoE, það er Evrópska öndvegissetrið gegn fjölþátta ógnum. Setrið er í Helsinki og á Ísland aðild að því og þar starfar íslenskur sérfræðingur.

Hanna Smith (HS) segir að í stóru myndinni tengist aðgerðir Rússa stríði þeirra í Úkraínu sem sé að þeirra mati háð gegn Vesturlöndum almennt og auk þess hafi Finnar gengið í NATO. Rússar hafi varað Finna við afleiðingum þess og ástandið við austurlandamærin sé til marks um það.

Jukka Savolainen (JS) segir að Rússar geti reynt fyrir sér gegn Finnum til að sjá hvaða áhrif þessi fjölþátta aðferð hefur. Í henni felist ógn og þar megi sjá hver séu áhrif „innflytjendavopnsins“.

HS segir að það þjóni hagsmunum rússneskra ráðamanna að draga upp mynd af óvinveittum öflum í vestri. Finnar hafi ekki talist hluti óvinahópsins til þessa. Nú sé reynt að skapa þeim þá ímynd. Það séu að verða umskipti í sambandi Rússlands og Finnlands. Rússar átti sig á að þeir hafi í raun enga þekkingu á Finnlandi. Þeir vilji sjá við hverja Finnar eigi samstarf og einnig ýta undir sundrung í finnsku samfélagi.

JS segir að ýta megi undir „virkishugun“ meðal Rússa með því að ala á ímyndaðri „ógn“ að vestan. Vandræði við landamæri Finnlands og fréttir af þeim þjóni hagsmunum Kremlverja, með síendurteknum fréttum breytist hugarfar fólks í garð Finna og það vilji að gegn þeim sé varist.

HS segir að mikilvægt sé fyrir Finna að átta sig á eðli málsins. Sumir líti á þetta sem öryggismál aðrir sem flóttamannamál. Ágreiningur af þessu tagi geti skapað hættu, það verði að sporna gegn öfgum innan beggja þessara hópa.

Þegar Dmitríj Peskov segi að „rússagrýlan“ stjórni finnsku ríkisstjórninni geti það rekið fleyg á milli Finna og Rússa sem búa í Finnlandi. Til þessa hafi mótmæli vegna lokunar landamæranna þó verið friðsamleg.

JS segir að versni ástandið kunni deilur innan Finnlands að magnast. Finnar geti dregist inn í almennar evrópskar deilur um innflytjendamál þar sem tekist sé á um strangt eftirlit eða frjálsa för. Finnar eigi að forðast að verða peð í þeim deilum. Það þurfi að sýna þolinmæði en ekki láta stundarhagsmuni ráða.