14.4.2022 14:58

Rússar hóta Svíum og Finnum

Allar ríkisstjórnir Norðurlandanna nema sú íslenska hafa boðað og kynnt aðgerðir í öryggismálum vegna stríðsins í Úkraínu.

Umræðurnar um aðild Finnlands og Svíþjóðar að NATO tóku nýja stefnu í gær (13 apríl) þegar forsætisráðherrar Svíþjóðar og Finnlands hittust í Stokkhólmi og sögðu jafnaðarmannaflokka sína og ríkisstjórnir ætla að gefa sér nokkrar vikur til að ljúka umræðum um málið. Birt var tímalína sem sýndi að yrði gengið frá umsókn í fyrir ríkisoddvitafund NATO í Madrid 29. júní mætti búast við að til aðildar ríkjanna kæmi fyrir lok þessa árs.

Dmitríj Medvedev, fyrrv. forseti og forsætisráðherra Rússlands, núverandi varaformaður öryggisráðs landsins, tók strax að hóta stjórnum Finna og Svía því að ákvörðun þeirra um NATO-aðild leiddi til kjarnorkuvæðingar Eystrasaltsins. Þessari hótun var strax svarað af Litháum sem sögðu hana innantóm orð þegar litið væri til þess að um árabil hefðu Rússar haft kjarnorkuvopn í hólmlendu sinni, Kaliningrad, við botn Eystrasalts við landamæri Póllands og Litháens. Þar væru til dæmis Iskander-skotflaugar sem gætu sent kjarnaodda í nokkur hundruð km fjarlægð.

Sænskir sérfræðingar í öryggismálum telja líklegt að Rússar herði á ögrunum sínum með ferðum flugvéla við og inn fyrir sænska loftvarnasvæðið. Fyrir nokkrum árum bárust raunar fréttir um að rússneskar hervélar hefðu æft loftárásir á Stokkhólm.

Þá er talið að Rússar herði enn á net- opg tölvuárásum sem þeir hafa stundað gegn Finnum og Svíum um árabil. Eru netvarnir þjóðanna öflugar og þar eru menn vel þjálfaðir og búa yfir langri reynslu af átökum við Rússa í netheimum.

Loks er öruggt að Rússar stofna til hvers kyns upplýsingaóreiðu í von um að hafa á þann hátt áhrif á almenning í Svíþjóð og Finnlandi. Einmitt þess vegna vilja sænskir jafnaðarmenn að NATO-aðildin sé rædd innan Jafnaðarmannaflokksins núna og fram í lok maí þegar stefnt verði að flokkslegri ákvörðun. Það minnki lýkur á að málið setji ráðandi svip á kosningabaráttuna fyrir þingkosningarnar í Svíþjóð 11. september 2022.

14719567Forsætisráðherrarnir Magdalena Andersson og Sanna Marin boða leið Svía og Finna til ákvörðunar um NATO-aðild á blaðamannafundi í Stokkhólmi 13. apríl 2022.

Eftir að Svíþjóðardemókratarnir ákváðu mánudaginn 11. apríl að veita formanni sínum umboð til að styðja NATO-aðild er meirihluti fyrir aðildinni á þingi. Jafnaðarmenn sem nú leiða minnihlutastjórn í Svíþjóð segja NATO-aðildina hins vegar svo stórt mál að 75% þingmanna verði að styðja hana.

„Munu hörð viðbrögð Rússlands við væntanlegri inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í NATO beinast að Íslandi?“ spyr Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við HÍ, á FB-síðu sinni í dag, 14. apríl. Hann hvetur réttilega til þess að íslensk stjórnvöld hefji tafarlaust að búa sig undir að bregðast við áreitni í einni mynd eða annarri af hálfu Rússa. Baldur segir:

„Sérstaklega er mikilvægt að huga að netöryggi, öryggi sæstrengja og helstu stofnana þjóðfélagsins nú í aðdraganda ákvörðunar Svía og Finna. Mikilvægt er að Ísland taki þessi mál þegar í stað upp við bandalagsríki sín til að styrkja varnir landsins.“

Allar ríkisstjórnir Norðurlandanna nema sú íslenska hafa boðað og kynnt aðgerðir í öryggismálum vegna stríðsins í Úkraínu. Komi til aðildarumsóknar Svía og Finna að NATO er um jafnvel meiri vatnaskil að ræða en urðu 27. febrúar 2022 þegar Olaf Scholz Þýskalandskanslari boðaði nýja stefnu í öryggis- og orkumálum.

Ríkisstjórn Íslands verður að skýra frá ákvörðunum sínum og öryggisráðstöfunum eins og aðrar norrænar ríkisstjórnir, samstarf norrænna ríkja í varnar- og öryggismálum er þriðja stoðin undir vörnum þjóðarinnar við hlið NATO-aðildar og varnarsamningsins við Bandaríkin.