10.2.2022 10:57

Rússar ekki til München – æfa með Hvítrússum

Árið 2007 flutti Vladimir Pútin ræðu á ráðstefnunni. Til hennar er síðan vitnað sem München-ræðunnar. Hún er talin marka vatnaskil.

Öryggisráðstefnan sem kennd er við München verður haldin í 58. skipti dagana 18. til 20. febrúar. Litið er á ráðstefnuna sem einn mikilvægasta óformlega vettvang stjórnmálamanna og áhrifamanna á sviði öryggismál til að ræða stöðu alþjóðleg öryggismál. Nú fer ekki á milli mála hvað ber hæst á þeim vettvangi: umsátur Rússa um Úkraínu.

Í ljósi ummæla Rússa undanfarna sólarhringa, eftir fund Pútins og Emmanuels Macrons Frakklansforseta, um að diplómatísk leið sé ef til vill fær til lausnar ágreiningi um stöðu Úkraínu er ekki heillavænlegt að tilkynnt var í Moskvu miðvikudaginn 9. febrúar að engin rússnesk sendinefnd yrði núna á ráðstefnunni í München.

Rússar hafa sent fulltrúa á ráðstefnuna síðan 1999. Nú segir Maria Zakharova, upplýsingafulltrúi rússneska utanríkisráðuneytisins, að ráðstefnan hafi breyst undanfarin ár og orðið sífellt meiri vettvangur samstarfsþjóðanna beggja vegna Atlantshafs án tillits til annarra og óhlutdrægni. Áhugi rússneskra ráðamanna á viðburðinum hafi greinilega minnkað. Í rússneska blaðinu Kommersant segir á hinn bóginn að Rússar sætti sig ekki við að þurfa að vera sex daga í einangrun í München af því að þeir séu ekki bólusettir með efni sem ESB viðurkennir. Þar fyrir utan hafi skipuleggjendur ráðstefnunnar nýlega farið gagnrýnum orðum um Rússa.

60721500_1006Rússneskir vígdrekar.

Árið 2007 flutti Vladimir Pútin ræðu á ráðstefnunni. Til hennar er síðan vitnað sem München-ræðunnar. Hún er talin marka vatnaskil í samskiptum Rússa við Vesturveldin, þau hafi versnað jafnt og þétt frá árinu 2007. Pútin gagnrýndi þá einhliða áhrif Bandaríkjamanna og NATO.

Sergeij Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, hefur verið í forystu rússnesku sendinefndarinnar frá árinu 2010, þó ekki árið 2016 þegar Dmitríj Medvedev, þáv. forsætisráðherra, sótti ráðstefnuna. Hún var ekki haldin í fyrra vegna COVID-19-faraldursins.

Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, leiðir bandarísku sendinefndina að þessu sinni. Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, flytur setningarræðu ráðstefnunnar. Olaf Scholz Þýskalandskanslari fer fyrir Þjóðverjum. Volodymyr Zelenskíj, forseti Úkraínu, verður í München einnig Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, og Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB.

Í dag (10. febrúar) hófst mikilvæg 10 daga heræfing Rússa og Hvítrússa við norður landamæri Úkraínu, stærsta sameiginlega æfing herja ríkjanna síðan á Sovéttímanum. Rússar fluttu 30.000 manna lið frá Asíu í austri til þátttöku í æfingunnni Uppgangur rússneska hersins í Hvíta-Rússlandi undanfarna mánuði er til marks um að Vladimir Pútin Rússlandsforseta hefur í skjóli umsátursins um Úkraínu og vandræða Alexanders Lúkasjenkós, einræðisherra Hvíta-Rússlands, tekist ná undirtökunum í Hvíta-Rússlandi.

Sérstaka athygli sérfræðinga vekur að nú er æft í Hvíta-Rússlkandi rétt við landamæri Úkraínu á svæðum sem ekki hafa áður verið notuð til heræfinga. Af því megi ef til vill ráða að ekki sé aðeins um æfingu að ræða.