Rökrétt leyfi til hvalveiða
Ráðherra í starfsstjórn hefur fulla heimild til að afgreiða umsókn um leyfi til hvalveiða. Að því er pólitíkina varðar má segja að umboðið til leyfisveitingarinnar hafi styrkst með falli VG og Pírata.
Skýr efnisleg rök eru fyrir ákvörðun Bjarna Benediktssonar matvælaráðherra um að gefa fimmtudaginn 5. desember út veiðileyfi til fimm ára á langreyðum (201 dýr á ári) til Hvals hf. auk leyfis til veiða á hrefnu (217 dýr á ári) til tog- og hrefnuveiðibátsins Halldórs Sigurðssonar ÍS 14 sem er í eigu Tjaldtanga ehf. Leyfin eru gefin út í samræmi við ákvæði laga nr. 26/1949 um hvalveiðar, að fengnum umsögnum Fiskistofu og Hafrannsóknastofnunar.
Hér skal leyfilegur heildarafli á langreyði og hrefnu fylgja veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sem byggir á sjálfbærri nýtingu og varúðarnálgun. Besta mat fyrir allt talningasvæði Íslands og Færeyja árið 2015 var 40.788 langreyðar, þar af 33.497 á Austur-Grænlands-Íslands stofnsvæðinu. Engar langreyðar hafa verið veiddar á árinu 2024, árið 2022 voru 148 dýr veidd eftir þriggja ára veiðihlé og 24 dýr voru veidd árið 2023.
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra skipaði í júlí 2023 starfshóp til „að rýna framkomnar tillögur að úrbótum á búnaði og aðferðum við veiðar á langreyðum“. Hópurinn taldi „framkomnar tillögur og þær úrbætur sem þeim [væri] ætlað að hafa til þess fallnar að hafa áhrif á árangur við veiðarnar“. Veiðar með „breyttum aðferðum“ væru „betur til þess fallnar en eldri aðferðir að fækka frávikum“ við veiðarnar, það er gera þær skilvirkari.
Í frétt Morgunblaðsins 7. nóvember 2023 sagði að Hvalur hf. hefði þróað veiðiaðferðir og veiðibúnað á milli vertíðanna 2022 og 2023. Það skilaði marktækum breytingum til batnaðar og tafarlaus dauðatíðni langreyða hefði aukist upp í tæp 80% á stuttri hvalveiðivertíð í september 2023.
Hvalur níu kemur til hafnar í Hvalfirði (mbl.is/Þorgeir).
Það blasti við síðsumars 2023 að matvælaráðherra VG ætlaði að beita stjórnsýslulegri aðferð til að hindra hvalveiðar en það mistókst. Matvælaráðherra VG tókst hins vegar að beita slíkum aðferðum vorið 2024 til að hindra hvalveiðar í ár. Eftir að sótt var um leyfi til hvalveiða að nýju bar matvælaráðherra að bregðast við umsóknum og var það gert 5. desember 2024 og þannig skapað eðlilegt svigrúm til að undirbúa vertíð 2025.
Tveir flokkar, VG og Píratar, voru áköfustu andstæðingar hvalveiða á alþingi fram að kosningum 30. nóvember 2024. Kjósendur höfnuðu flokkunum á kjördag og eiga þeir ekki lengur fulltrúa á þingi.
Í aðdraganda kosninganna upplýstist að hvalavinir höfðu ráðið alþjóðlegt fyrirtæki sem sérhæfir sig í blekkingarstarfsemi til að fiska upplýsingar sem nýtast málstað viðskiptavina þess. Er líklegt að varið hafi verið tugum milljóna í leynilega efnisöflun til að styrkja málstað hvalavina og vinna honum fylgi. Afraksturinn birtist í frásögn af leynilegri upptöku á samtali útsendara hvalavina í gervi svissnesks fjárfestis og íslensks fasteignasala sem rakti ástæður þess að Jón Gunnarsson fyrrv. ráðherra tók 5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi. Hafi birting þessara upplýsinga átt að gagnast VG og Pírötum í kosningabaráttunni misheppnaðist það gjörsamlega.
Ráðherra í starfsstjórn hefur fulla heimild til að afgreiða umsókn um leyfi til hvalveiða. Að því er pólitíkina varðar má segja að umboðið til leyfisveitingarinnar hafi styrkst með falli VG og Pírata.