3.12.2017 11:00

Ritstjóri Kjarnans mótmælir vinstri slagsíðu

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Þórður Snær snýst til varnar vegna ummæla um að Kjarninn halli sér til vinstri.

Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, sagði á Facebook-síðu sinni í gær (2. des.):

„Eftirfarandi texti er í forsíðuviðtali mest lesna dagblaðs landsins í dag [Fréttablaðsins]. Þar segir Björt Ólafsdóttir að þingflokkur Bjartrar framtíðar hafi eiginlega verið borinn út strax eftir að þau hafi farið í stjórnarsamstarf í byrjun árs. „Kannski ekki af okkar kjósendum, heldur af þeim kjósendum sem nú studdu til að mynda Samfylkingu og Vinstri græn. Og þar spilaði margt inn í, eins og þeir miðlar sem hafa þessa vinstri-slagsíðu, miðlar á borð við Stundina og Kjarnann – þeir tóku hart á okkur.“

Kjarninn er ekki með vinstri slagsíðu. Hann tekur ekki þátt í neinskonar flokkapólitík heldur hefur það markmið að upplýsa lesendur og setja í samhengi. [...] Kjarninn mun alltaf veita ráðandi stjórnvöldum viðeigandi aðhald, algjörlega óháð því hverjir sitja í ríkisstjórn. Það er hlutverk fjölmiðla, ekki að kóa með.

Ég verð því að kalla eftir skýrum dæmum sem rökstyðja þessa ávirðingu formanns stjórnmálaflokks, sem í felst að við siglum undir fölsku flaggi og séum þátttakendur í pólitískum flokkaleik, eða að hún verði dregin til baka.“

Björt Ólafsdóttir verður ekki við hofmóðsfullri kröfunni um að hún dragi ávirðinguna til baka heldur svarar:

„Varðandi upplifun mína á því að þessi blöð/miðlar hafi vinstri slagsíðu, þá er hún bara einfaldlega þannig, mín upplifun eftir efnistökum, sjónarhól og umfjöllunum að bæði Stundin og Kjarninn séu þar. Ég get ekki röflað við þig um hana, veit ekki alveg hvort að einhver geti haft rétt eða rangt fyrir sér varðandi upplifun sína.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Þórður Snær snýst til varnar vegna ummæla um að Kjarninn halli sér til vinstri. Fullyrðing hans um að Kjarninn taki „ekki þátt í neinskonar flokkapólitík“ segir ekkert um þann anda sem ríkir þar í skrifum og efnistökum. Þótt ég gagnrýni hvernig Björt Ólafsdóttur tekur á málum (um það get ég nefnt mörg dæmi) er ég sammála henni um það sem hún kallar „upplifun eftir efnistökum, sjónarhól og umfjöllunum“ á Stundinni og Kjarnanum: á báðum miðlunum er vinstri slagsíða. Hún er verri á Stundinni sem gagnrýnir til dæmis VG frá vinstri.

Raunar er illskiljanlegt hvers vegna Þórður Snær bregst illa við að vera sagður ritstjóri á fjölmiðli sem hallar sér til vinstri. Fjölmiðlar í frjálsum, opnum þjóðfélögum gera það almennt og skýra það með þeim orðum að þeir séu að „veita ráðandi stjórnvöldum viðeigandi aðhald“.

Öflugustu fjölmiðlarnir eru víða þeir sem skipa sér til hægri við miðjuna. Þeir njóta mestrar útbreiðslu sem áskriftarmiðlar og í sjónvarpi. Þeir hafa kjark til að slíta sig frá miðjumoðinu með vinstri slagsíðuna og nálgast viðfangsefnið frá  sjónarhóli sem kallar á áhuga frá stórum hópum lesenda og áhorfenda sem hafa fengið sig fullsadda af mötun í anda pólitísks rétttrúnaðar.

Nokkur uppstokkun á sér nú stað á sviði íslenskrar fjölmiðlunar. Hringbraut hefur keypt þrotabú ÍNN til að útiloka samkeppni. Vodafone hefur lokið kaupum á sjónvarps- og útvarpsrekstri 365-miðla og auglýsir nú eftir fréttastjóra. Vilji stjórnendur fyrirtækisins skapa því sterka, sjálfstæða stöðu ættu þeir að ráða borgaralegan fjölmiðlamann með bein í nefinu. Mann sem hefur burði til að losa stöðvarnar, einkum sjónvarpið, við vinstri slagsíðuna. Rísa gegn ráðandi stétt í fjölmiðlaheiminum.

Nýr aðalritstjóri hefur verið ráðinn á DV. Undir hann fellur meðal annars vefsíðan Pressan og þar með Eyjan sem hefur versnað undanfarið vegna skorts á markvissri ritstjórn. Þar gætti stundum viðleitni til að marka sér aðra stöðu en þá sem er gegnsýrð af vinstri fjölmiðlasjónarmiðum.

Nýir menn hafa verið ráðnir í stöður framkvæmdastjóra hjá ríkisútvarpinu. Hvort þeir taki á efnislegum gæðamálum er óljóst. Veitir þó ekki af slíku hjá ríkisfjölmiðlinum sem hefur mest fé allra íslenskra fjölmiðla á milli handanna (6 milljarða á ári) en verður slappari og hlutdrægari ár frá ári án þess að vilja viðurkenna það.

Svo að aftur sé vikið að orðum Bjartar Ólafsdóttur kom mér í raun mest á óvart að hún skyldi kvarta undan vinstri slagsíðu á Kjarnanum. Fram til þessa hef ég haldið að flokkur hennar, Björt framtíð, kynni best við slíka pólitíska slagsíðu. Formaður flokksins telur hann greinilega ekki eiga heima vinstra megin við miðjuna.