7.12.2021 10:25

Ritgerð Kristrúnar á bók

Nú hefur Ugla bókaútgáfa á hinn bóginn sent frá sér ritgerðina í snotri bók í litlu broti, 94 bls. að lengd með heimildaskrá. Er fagnaðarefni að þetta útgáfuskref skuli stigið.

Í 3. hefti 70. árgangs 2020 af Tímariti lögfræðinga birtist ritgerð Kristrúnar Heimisdóttur lögfræðings: Landfesti lýðræðis – Breytingarregla stjórnarskrárinnar.

Ritgerðin olli vatnaskilum í umræðum um „nýju stjórnarskrána“ því að í henni kemur fram að ógjörningur er að átta sig á hvað stendur að baki þessum orðum. Stjórnarskrárferlið sem hófst með kröfu Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á vorþingi 2009, strax eftir að hún tók við ríkisstjórnarforystu, breyttist fyrir nokkrum misserum í pólitískan gjörning þar sem efni málsins hvarf fyrir veggjakroti og sérkennilegum uppákomum.

Í ritgerð sinni tengdi Kristrún ferlið við raunveruleikann, jarðtengdi það, og í ljós kom að efnislega var allt á tjá og tundri. Þrátt fyrir þetta sögðust tveir stjórnmálaflokkar, Samfylking og Píratar, vilja lögfesta „nýju stjórnarskrána“ í kosningabaráttunni fyrir þingkosningarnar 25. september 2021. Viðreisn settist á girðinguna. Flokkur fólksins með aðeins tvo þingmenn á síðasta kjörtímabili skipti ekki máli frekar en tveggja manna Miðflokkurinn núna. Flokkur fólksins hefur ekki gert „nýju stjórnarskrána“ að baráttumáli sínu.

Stefna ríkisstjórnarinnar er að kalla til sérfræðinga á nýbyrjuðu kjörtímabili til að fjalla um sérgreind ákvæði stjórnarskrárinnar, ákvæðin um alþingi, kosningar og kjördæmaskipan, dómstóla og eftir atvikum önnur ákvæði, svo sem mannréttindaákvæði.

Katrín Jakobsdóttir brenndi sig illilega á því á nýliðnu kjörtímabili að fyrir forsætisráðherra skilar engu að ætla að leita samkomulags forystumanna flokka um breytingar á stjórnarskránni. Píratar og samfylkingarfólk hlupu frá viðræðunum á lokastigi og hófu kosningasönginn um „nýju stjórnarskrána“. Báðir flokkar löskuðust illa í kosningunum. Þeir hömpuðu ekki „nýju stjórnarskránni“ í umræðunum um stefnu ríkisstjórnarinnar 1. desember 2021. Tveir þingmenn Viðreisnar minntust hins vegar á nauðsyn þess að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrána. Í stjórnarsáttmálanum er sérfræðingum ekki falið að huga sérstaklega að því.

IMG_4292Kápan á bók Kristrúnar:  Ísland á stjórnarskrá. 

Eftir útkomu ritgerðar Kristrúnar Heimisdóttir gjörbreyttust umræður um stjórnarskrármálið. Ritgerðin var aðeins aðgengileg á prenti í Tímariti lögfræðinga. Nú hefur Ugla bókaútgáfa á hinn bóginn sent frá sér ritgerðina í snotri bók í litlu broti, 94 bls. að lengd með heimildaskrá. Er fagnaðarefni að þetta útgáfuskref skuli stigið.

Of lítið er um að málefni líðandi stundar séu brotin til mergjar á þann hátt sem Kristrún gerir í ritgerð sinni. Umræðurnar rista því oft ekki mjög djúpt. Í stað þess að upplýsa skapa þær óreiðu, ýta undir að fiskað sé í gruggugu vatni. Að nokkru leyti er um popúlisma að ræða hjá þeim sem hampa „nýju stjórnarskránni“ í tíma og ótíma.

Kristrún lýsti á sínum tíma hve flókið var að greina framgang „nýju stjórnarskrárinnar“ á þingi og breytingarnar á skjali stjórnlagráðs til þingsins þar til allt sigldi í strand skömmu fyrir kosningar vorið 2013.

Það veit í raun enginn hvað stendur að baki orðunum „nýja stjórnarskráin“.