Rislítil borg án skjalasafns
Héraðsskjalasöfn á borð við Borgarskjalasafnið eru tengiliður við byggð sína og bera henni söguna, metnaðarfull héraðsskjalasöfn efla virðingu byggðarinnar.
Orri Vésteinsson, prófessor í fornleifafræði við Hí, færir þrjár sterkar röksemdir gegn lokun borgarbókasafnsins.
Niðurlagning Borgarskjalasafns er óskiljanlegt pólitískt óhæfuverk meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur án þess að baki ákvörðuninni búi nokkur málefnaleg rök. Því betur sem málið er skoðað og reifað þeim mun betur skýrist hve fráleitt er að brjóta upp safnið á þann hátt sem ætlunin er.
Orri Vésteinsson, prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands, birtir grein í Morgunblaðinu í morgun (28. mars) undir fyrirsögninni: Þrjár ástæður fyrir því að það er vond hugmynd að leggja niður Borgarskjalasafn.
Fyrsta ástæðan er: „Það er ekki hægt að reka fyrirtæki eða stofnanir án þess að búa til og reiða sig á skjöl,“ segir Orri. Þetta skipti miklu fyrir stóra stjórnsýslueiningu eins og Reykjavíkurborg. Borgarstjórn skjóti augljóslega sína eigin stjórnsýslu í fótinn með því að leggja niður skjalasafn borgarinnar og þá sérfræðiþekkingu á vistun og meðferð skjala sem þar er.
Önnur ástæðan er: „Lögum samkvæmt er skylt að varðveita á skjalasöfnum þau skjöl sem varða hagsmuni fólks og réttindi,“ segir Orri. Fyrir borgara í opnu lýðræðissamfélagi skipti öllu máli að hafa greiðan aðgang að upplýsingum sem snerta einkahagsmuni, til dæmis lóðamörk, og almannaheill, til dæmis ráðstöfun opinbers fjár. Vitneskjan skapi meðal annars skilyrði til að veita stjórnmálamönnum aðhald. „Þegar stjórnmálamenn leggja niður skjalasöfn án þess að gera skýra grein fyrir hvernig tryggja á jafngóðan eða betri aðgang almennings að skjölunum liggja þeir sjálfkrafa undir grun um að vilja leggja stein í götu rannsóknarblaðamanna og annarra sem veita valdhöfum aðhald. Ef stjórnmálamenn vilja veikja fremur en styrkja slíkar stofnanir er ástæða til að hafa áhyggjur,“ segir prófessorinn.
Þriðja ástæðan er: „Skjalasöfn eru menningarstofnanir,“ segir Orri. Borgarskjalasafn hafi rækt menningar- og rannsóknarhlutverk sitt af miklum metnaði um árabil. Hvernig sem um kunni að semjast sé augljóst að rannsóknir á sögu Reykjavíkur fái aldrei þann sess á Þjóðskjalasafninu sem þær hafi nú á Borgarskjalasafni.
Niðurstaða greinar Orra Vésteinssonar er að niðurlagning Borgarskjalasafns: (1) veiki skjalastjórnun og þar með stjórnsýslu Reykjavíkurborgar; (2) torveldi borgarbúum að veita borgarstjórn og borgarkerfinu nauðsynlegt aðhald og (3) vængstýfi rannsóknir á sögu borgarinnar.
Dagur B. Eggertsson fór með rangt mál þegar hann sagði að borgin mundi spara sex til sjö milljarða með því að leggja niður Borgarskjalasafnið. Hann vildi með þeim ósannindum réttlæta eyðilegginguna á safninu. Af hálfu borgaryfirvalda hafa aðeins verið færð léttvæg yfirborðsrök fyrir aðförinni að Borgarskjalasafninu. Starfsmenn safnsins eru sniðgengnir við töku ákvarðana og málið fært í hendur sviðsstjóra sem hefur horn í síðu safnsins og engan skilning á gildi varðveislu skjala svo að veita megi opinberum stjórnendum aðhald.
Héraðsskjalasöfn á borð við Borgarskjalasafnið eru tengiliður við byggð sína og bera henni söguna, metnaðarfull héraðsskjalasöfn efla virðingu byggðarinnar. Í Reykjavík er allur slíkur metnaður afmáður með lokun Borgarskjalasafns. Metnaðarlaus höfuðborg um eigin skjöl og íbúa sinna verður aldrei rismikil.