23.8.2020 10:39

RÍM-verkefni í fréttum

Nú hafa borist fréttir af framvindu tveggja RÍM-verkefna fornleifagreftri á Þingeyrum í Húnaþingi og Odda í Rangárþingi.

Í vor var fimm ára rannsóknarverkefni undir heitinu Ritmenning íslenskra miðalda (RÍM) hleypt af stokkunum og nú hafa borist fréttir af framvindu tveggja RÍM-verkefna fornleifagreftri á Þingeyrum í Húnaþingi og Odda í Rangárþingi.

Ágúst Ólafsson, fréttamaður ríkisútvarpsins, ræddi við Steinunni J. Kristjánsdóttir, prófessor í fornleifafræðum í HÍ, sem stjórnar Þingeyrarannsókninni í kvöldfréttum laugardaginn 22. ágúst, hún sagði:

„Það er búið að rýna mjög mikið í þessi rit [fornu handritin], hvað stendur í þeim, en það hefur ekki áður verið leitað sem sagt leifa eftir bókagerðina sjálfa. Þetta voru nú kálfskinn mest, við leitum að dýrabeinum og þess háttar. Og svo náttúrulega ýmiss konar leifum, litunarsteinum og öðru sem að fylgdi þessu.“

Fundist hefur leðurbútur sem Steinunn telur að gæti hafa verið utan um bók, innsiglishringur og nokkrar bænaperlur. Einnig borði með höfðaletri, eða gotnesku letri sem er eldra. „Þetta gæti verið vísun í einhvern biblíutexta,“ sagði hún.

Á Þingeyrum stóð klaustur lengst (1133-1551) á katólskum tíma. Klaustrið var stórt og sagði Steinunn þau aðeins grafa í litlum hluta rústanna í sumar:

„Þannig að þetta gæti orðið áratuga verkefni ef það yrði haldið áfram stöðugt. En við erum að gera okkur vonir um að geta verið hérna í nokkur ár, fimm ár kannski.“ Að þessu sinni hófst fornleifagröftur á Þingeyrum 10. ágúst og stendur í þrjár vikur.

IMG_1110Myndin er tekin á klaustursvæðinu á Þingeyrum þegar rannsóknum þar, Þingeyraverkefninu, var hleypt af stokkunum 5. júlí 2016.

Eigendur Þingeyra, hjónin Valgerður Valsdóttir og Ingimundur Sigfússon, höfðu frumkvæði að rannsóknum á klaustrinu með því að opna land sitt fyrir vísindamönnunum. Þriðjudaginn 5. júlí 2016 buðu þau til opins kynningarfundar um verkefnið. Var Ingimundur heitinn mjög áhugasamur um Þingeyraverkefnið svonefnda var hrundið af stað. Það er nú hluti RÍM-verkefnisins en umsýsla þess er í Snorrastofu í Reykholti í Borgarfirði.

Á Facebook-síðu Oddarannsóknarinnar sagði 14. ágúst:

„Nú fer stuttri en snarpri rannsóknarlotu í Odda að ljúka og munum við [Fornleifastofnun Íslands, Lilja Björk Pálsdóttir og Kristborg Þórsdóttir] nota daginn í dag til þess að loka svæðinu fyrir veturinn. Vettvangsvinnan hefur gengið vel, þrátt fyrir vætutíð, og höfum við notið liðsinnis úr ýmsum áttum til þess að afla umfangsmikilla gagna sem unnið verður úr í vetur. Eitt af markmiðum sumarsins var að láta vinna þrívíddarlíkan af hellinum í Odda. Fengum við Punktaský til verksins og unnu þeir það hratt og örugglega. Við höfum þegar fengið fyrstu afurðina frá þeim sem er meðfylgjandi myndband . Það sýnir inn í hellinn og tóftina framan við hann. Við erum hæstánægð með útkomuna og vonum að sem flestir nýti tæknina til þess að kíkja inn í hellinn.“