21.11.2019 9:06

Ríkisútvarp í skjóli lögbrota

Aðfinnslur ríkisendurskoðunar að rekstri og rekstrarþáttum ríkisútvarpsins eru alvarlegar. Þær vekja minni almenna athygli en ella fyrir þá sök að fréttastofa ríkisútvarpsins fer ekki í krossferð vegna þeirra í fréttum, Kastljósi og Kveik.

Ríkisendurskoðun birti miðvikudaginn 20. nóvember skýrslu um Ríkisútvarpið ohf. – rekstur og aðgreiningu rekstrarþátta. Í upphafi skýrslunnar segir að rekja megi til afskipta ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, sem sér til þess að EES/EFTA-ríkin farið að ákvæðum EES-samningsins, að ríkísútvarpið sé rekið sem opinbert hlutafélag.

„Stofnunin taldi m.a. að ótakmörkuð ábyrgð ríkisins á skuldbindingum RÚV fæli í sér ólögmæta ríkisaðstoð og að fjármögnun Ríkisútvarpsins, fyrir breytingu, veitti því efnahagslegt forskot á samkeppnisaðila,“ segir í skýrslunni. Þegar efni hennar er lesið sést að skrefið til að minnka forskot ríkisútvarpsins var aldrei stigið til fulls. RÚV var tryggð ákveðin sérstaða að því er varðar stjórn þess sem að leiðir til þess að eftirlit með fjárhagslegri stöðu félagsins er minna en yrði ef sömu reglur giltu um þetta opinbera hlutafélag og önnur.

„Fjármála-og efnahagsráðuneyti fer ekki með eignarhlut ríkisins í félaginu og kemur ekki að skipan stjórnar þess. Fyrir vikið verður aðkoma ráðuneytisins að fjárhagslegu eftirliti og aðhaldi með rekstri félagsins minni en almennt gerist. Að mati Ríkisendurskoðunar ætti fjármála-og efnahagsráðuneyti að fara með hlut ríkisins í RÚV og skilja þannig á milli eigenda ábyrgðar og faglegrar ábyrgðar,“ segir í skýrslunni og einnig:

„Stjórnin er skipuð eftir hlutbundna kosningu á Alþingi en í lögum um félagið er ekki kveðið á um að tilnefnt sé í hana á grundvelli hæfni, menntunar eða reynslu líkt og gert er í lögum um opinber fjármál og á við um önnur opinber hlutafélög. Að mati ríkisendurskoðanda þarf að efla fjárhagslegt eftirlit stjórnar Ríkisútvarpsins.“

Oft hefur vakið undrun hvernig stjórnarmenn í RÚV bregðast við gagnrýni á félagið og hvaða augum þeir líta á rekstrarlegan vanda þess sem er mikill eins og þessi nýja skýrsla sýnir.

Skyrsla-RUVFyrir utan þessa gagnrýni á stjórnarhætti RÚV er það meginniðurstaða ríkisendurskoðunar að RÚV brjóti lög. Í skýrslunni segir:

„Íslensk lög kveða á um stofnun dótturfélags Ríkisútvarpið ohf. hefur ekki stofnað dótturfélög um annan rekstur en fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu þrátt fyrir lagalega skyldu þar um. Gildistöku umrædds lagaákvæðis hefur í tvígang verið frestað af löggjafanum, síðast til ársbyrjunar 2018. Samtöl Ríkisendurskoðunar við fulltrúa RÚV ohf. og mennta-og menningarmálaráðuneytis benda til þess að talið sé óþarft að stíga þetta skref þar sem aðskilnaður í bókhaldi félagsins eigi að nægja til að halda þessum þáttum starfseminnar aðgreindum. Lagaákvæðið gangi lengra en Evrópureglur mæla fyrir um og óvíst sé hvort einhver ávinningur fylgi því að stíga þetta skref. Það kunni jafnvel að leiða til óhagræðis fyrir félagið.“

Ríkisendurskoðun fer með eftirlitið og niðurstaða hennar er skýr. Opinbera hlutafélagið og ráðuneyti þess malda í móinn, rökin fyrir lögbrotinu eru meðal annars þau að ráðuneytið og alþingi hafi gengið lengra en EES-löggjöfin krefjist með því að setja lögin á þann veg sem gert var. Það gerðist ekki af sjálfu sér heldur vegna ákvörðunar alþingis og ráðuneytisins. Líklegt er að fréttastofa ríkisútvarpsins léti í sér heyra ef annar aðili en hún sjálf ætti hlut að slíku virðingarleysi fyrir lögum og tilraunum til að hafa ábendingar eftirlitsaðila að engu.

Aðfinnslur ríkisendurskoðunar að rekstri og rekstrarþáttum ríkisútvarpsins eru alvarlegar. Þær vekja minni almenna athygli en ella fyrir þá sök að fréttastofa ríkisútvarpsins fer ekki í krossferð vegna þeirra í fréttum, Kastljósi og Kveik. Innan ríkishlutafélagsins er gerður munur á því hver á í hlut þegar lög eru brotin og reglum ekki framfylgt sem skyldi.

Skýrslan endurspeglar andrúmsloft í kringum ríkisútvarpið sem sýnir að heilbrigður fjölmiðlamarkaður verður ekki til á Íslandi nema skilið sé á milli ríkis og útvarps og stofnaður opinber sjóður til að styrkja fréttamiðlun og dagskrárgerð.