13.1.2021 10:00

Ríkisútvarp í kreppu

Umræðurnar vegna kröfu um myndlykil til að horfa á fréttir Stöðvar 2 eru ekki hagstæðar fyrir ríkisútvarpið.

Að halda að einokun ríkisins á opnum sjónvarpsfréttum verði til þess að styrkja og bæta ríkisútvarpið er borin von. Dagskrá þess og metnaður hefur dregist saman stig af stigi ár eftir ár og nú sýnist rás 1 rekin með það í huga að ná hlustun frá rás 2 sem á undir högg að sækja gagnvart Bylgjunni og öðrum einkareknum stöðvum. Rondó ríkisins sem flutti blandaða tónlist er horfin.

Umræður um að ríkisútvarpið hverfi af auglýsingamarkaði hafa staðið í marga áratugi án þess að þingmeirihluti myndaðist fyrir lagabreytingu í þá veru. Núverandi menntamálaráðherra gerir ekki tillögu um slíka gjörbreytingu á innlendum fjölmiðlamarkaði einkareknum miðlum til hagsbóta. Aðgerðin yrði risastökk inn í samtímann fyrir íslenskan fjölmiðlarekstur. Hann býr í raun við skilyrði sem urðu til fyrir 90 árum. Fyrst um miðjan níunda áratuginn, þegar fréttamenn ríkisútvarpsins nýttu sér einokunaraðstöðu sína og lokuðu opinberri fréttamiðlun með verkfalli, myndaðist skarð í varðstöðu stjórnmálamanna um algjöra ríkiseinokun á ljósvakanum.

News-anchor-on-tv-breaking-260nw-442698565Umræðurnar vegna kröfu um myndlykil til að horfa á fréttir Stöðvar 2 eru ekki hagstæðar fyrir ríkisútvarpið. Þær leiða betur í ljós þá gamalkunnu staðreynd að vinstrisinnaðir stjórnmálamenn standa vörð um forskot ríkisútvarpsins og vilja ekki að við því sé hróflað. Þeir telja að þar með misstu þeir spón úr aski sínum. Þetta er áhyggjuefni fyrir ríkisútvarpið og hlustendur þess. Þótt tæknileg skilyrði auðveldi mönnum að hlusta á útvarp hvar sem er þurfa þeir ávallt að muna eftir að kveikja á afruglara til að verja sig gegn bjöguðum boðskap sem borinn er á borð undir merkjum ríkisverndaðrar óhlutdrægni.

Rökin fyrir að ekki megi ýta við ríkisútvarpinu frekar en postulínsdúkku birtust meðal annars í Morgunblaðinu í dag (13. janúar) þar sem rætt var við Kolbein Óttarsson Proppé, þingmann VG, fyrrverandi blaðamann. Hann lætur eins og ekki hafi verið kannað hvað gerðist yrði ríkisútvarpið tekið af auglýsingamarkaði. Auðvitað hefur það verið rannsakað, þetta er hreinn fyrirsláttur hjá þingmanninum. Þá segir í frétt blaðsins:

„Hann segir þó að atburðir heimsins undanfarin misseri undirstriki mikilvægi þess að hafa sameiginlegan skilning á staðreyndum mála og að í því samhengi geti ríkisfjölmiðill gegnt lykilhlutverki. „Ef maður horfir á samfélög sem hafa ekki öfluga ríkisfjölmiðla heldur hefur hvern í sínum bergmálshelli að hlusta á sín viðhorf þá sér maður mikilvægi eins hlutlausrar framsetningar og kostur er,“ segir Kolbeinn.“

Nú grípur þessi talsmaður stöðnunarinnar til COVID-19-faraldursins sér til halds og trausts. Er hann virkilega þeirrar skoðunar að ríkisútvarp með sex til sjö milljarða í tekjur og farlama einkarekna miðla sé nauðsynlegt til að skapa „sameiginlegan skilning [þjóðarinnar] á staðreyndum mála“? Að verja ríkisútvarpið vegna „hlutlausrar framsetningar“ þess sýnir að þingmaðurinn er í bergmálshelli sem verður að opna.

Ríkisútvarpið sópar allri gagnrýni á efnistök sín undir teppið. Samherjamálið sýnir hve miklu afli þeir verða að ráða yfir sem taka sér fyrir hendur að afhjúpa ámælisleg vinnubrögð fréttastofu ríkisútvarpsins. Það er skýrt hnignunarmerki að þeir sem að er sótt fái ekki að svara fyrir sig á vettvangi „hlutlausrar framsetningar“ heldur verði að skapa sinn eigin vettvang. Ríkisútvarp í slíkum stríðsleik skapar aldrei „sameiginlegan skilning á staðreyndum mála“.