17.4.2019 9:42

Ríkisútvarp engin þjóðarnauðsyn

Þá er ekki síður merkilegt að áhrifamaður á vettvangi Framsóknarflokksins skuli tala á þann veg um ríkisútvarpið og umsvif þess sem Þórólfur gerir.

Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri á Sauðárkróki, veitir fjölmiðlum ekki oft viðtöl. Í ViðskiptaMogganum í dag (17. apríl) birtist þó við hann tveggja opnu samtal þar sem hann lýsir öflugum rekstri Kaupfélags Skagfirðinga (KS) sem tekist hefur að skapa sér sterka sérstöðu og sækir fram á mörgum sviðum. Þórólfur segir að honum hafi tekist að skapa „dulúð“ um félagið og má það til sanns vegar færa. Kaupfélagið er þó virkt á fjölmiðlamarkaði eins og af því sem hér segir má ráða:

„KS á ríflega fimmtungshlut í útgáfufélagi Morgunblaðsins. Af hverju ákvað félagið að taka þátt í fjölmiðarekstri eftir hrun. „Við lítum þannig á að það sé mikilvægt að til staðar séu vandaðir fjölmiðlar sem ekki eru ríkisreknir. Ríkið er fyrirferðarmikið á þessum markaði sem er ekki hollt til lengdar, og í raun mjög umhugsunarvert, enda þörfin ekki eins brýn og áður var. Ríkið rak einu sinni dreifikerfi á kartöflum, en er hætt því sem dæmi. Þessi mikli rekstur ríkisins á fjölmiðlum býður upp á ákveðna hættu. Að fjölmiðillinn verði ríki í ríkiskerfinu og leiði skoðanamyndun. Við þekkjum það í löndum þar sem ekki er virkt lýðræði, að þar eru ríkisfjölmiðlar mjög fyrirferðarmiklir.“

Þórólfur bætir við að sér finnist að það eigi að vera val skattgreiðenda hvort þeir vilji halda þessu úti eða ekki. „Þetta er ekki þjóðarnauðsyn eins og heilbrigðiskerfið. Þetta er ekki lengur einn af grunnþáttunum. Ég held að menn eigi markvisst að draga úr hinum miklu umsvifum Ríkisútvarpsins. Ekki síst til þess að tryggja lýðræðisstöðuna í landinu.““

Fyrir þá sem þekkja keppnina sem var milli Morgunblaðsins og Tímans, málgagns kaupfélaganna, á árum áður er það til marks um gífurlega mikil þáttaskil í fjölmiðlun og stjórnmálum að eignarhaldi á Morgunblaðinu sé háttað á þann veg sem þarna er lýst og markmiðið sé að tryggja úthald vandaðs fjölmiðils án þess að ríkisvaldið standi á bak við hann.

81f13f5d0ebe280683758d9712de9d33Frá höfuðstöðvum Kaupfélags Skagfirðinga á Sauðárkróki.

Þá er ekki síður merkilegt að áhrifamaður á vettvangi Framsóknarflokksins skuli tala á þann veg um ríkisútvarpið og umsvif þess sem Þórólfur gerir. Að sjálfsögðu er engin „þjóðarnauðsyn“ að halda úti ríkisútvarpi eins og nú er gert.

Eitt vinsælasta sjónvarpsefni vetrarins voru framhaldsþættirnir Ófærð 2 sem sýndir voru í ríkissjónvarpinu. Þættirnir voru framleiddir af einkaaðila sem fékk 355 m. kr. af kostnaði við þá endurgreiddar úr ríkissjóði, hæstu endurgreiðslu ársins til stuðnings við sjónvarpsefnisgerð. Ríkið kemur að þessari efnisgerð og dreifingu á henni úr öllum áttum. Eru þetta aðeins útgjöld fyrir skattgreiðendur? Eða fá þeir eitthvað í sinn hlut?

Tímabært er að færa umræðurnar um íslenska fjölmiðlun á nýtt stig. Sé það gert sannast að Þórólfur Gíslason talar af framsýni um nauðsynlegar umbætur á þessu sviði eins og mörgum öðrum.