6.8.2017 10:36

Ríkisútvarp á útleið

Vissulega er vert að íhuga þessi orð Jóns Viðars. Í þeim birtist ein útgáfa af flökkusögunni um að Sjálfstæðiflokkurinn vilji farga ríkisútvarpinu.

Ný könnun sýnir að tveir af hverjum þremur eru andvígir einkavæðingu ríkisútvarpsins. Af því tilefni segir Jón Viðar Jónsson sem kunnur er fyrir skarpa leiklistargagnrýni á Facebook-síðu sinni:

„Þetta eru merkilegar upplýsingar ef réttar eru. Þrátt fyrir áratuga áróður og undirróður Sjálfstæðisflokksins gegn Ríkisútvarpinu vilja TVEIR ÞRIÐJU þjóðarinnar eiga það áfram. Og ekki nema 32 prósent, takið vel eftir því, af þeim sem segjast kjósa flokk þenna, vilja farga Ríkisútvarpinu og koma því í hendur gróðapunga. Betur hefur HHG [Hannes Hólmsteinn Gissurarson] og hirðinni í kringum hann ekki gengið eftir allt sem þeir hafa reynt til að koma Útvarpinu fyrir kattarnef. Engu að síður megum við ekki sofna á verðinum, því að fólk undir tuttugu og fimm ára aldri virðist ginnkeyptara fyrir þessum undirróðri en hinir eldri. Einhverjir vitkast sjálfsagt með aldrinum, en það er ekki víst að allir geri það. Fleira athyglisvert kemur þarna fram, eins og það að nær helmingur þjóðarinnar áttar sig á því hversu háðir langflestir fjölmiðlanna eru hagsmunaöflum og að kjósendur Viðreisnar hafa af því minni áhyggjur en þeir sem kusu aðra flokka. Mjög íhugunarvert.“

Vissulega er vert að íhuga þessi orð Jóns Viðars. Í þeim birtist ein útgáfa af flökkusögunni um að Sjálfstæðiflokkurinn vilji farga ríkisútvarpinu. Jón Viðar færir ekki fram neina sönnun fyrir því enda hefur flokkurinn ekki ályktað um sölu annars en rásar 2. Þetta var gert á landsfundi fyrir áratugum og varð að sjálfsögðu aðalfréttin af fundinum enda mátti skilja forráða- og talsmenn ríkisútvarpsins á þann veg að tilvist þess stæði og félli með þessari rás.

Aðrir hafa barist harðar fyrir því en Sjálfsæðisflokkurinn að ríkisútvarpið rifaði seglin á auglýsingamarkaði. Síðari ár hefur auglýsingamiðlun stofnunarinnar þó tekið aðra stefnu og aukist, t.d. með því að flytja auglýsingar af rás 2 inn á rás 1 og víkja síðasta lagi fyrir fréttir til hliðar.

Að kenna baráttu gegn ríkisútvarpinu við HHG má líklega rekja 30 ár aftur í tímann þegar Hannes Hólmsteinn og við nokkrir beittum okkur fyrir „frjálsu útvarpi“ þegar ríkísútvarpinu var lokað með verkfalli starfsmanna þess. Í framhaldi af því var einokun ríkisins á útvarpsrekstri afnumin. Fyrir þau þáttaskil og síðan hef ég oft gagnrýnt ríkisútvarpið án þess að vilja það feigt eins og sannaðist árin sjö sem ég var menntamálaráðherra og leyfði meðal annars að starfsemi þess sameinaðist í einu húsi – sætti ég vissulega gagnrýni ýmissa í Sjálfstæðisflokknum fyrir það. Þá var sagt að aðgerðin bjargaði fjárhag stofnunarinnar – annað kom í ljós og ræður miklu um tortryggni mína þegar stjórnendur ríkisútvarpsins segja að hin eða þessi fyrirgreiðslan á kostnað skattgreiðenda verði til að rekstur stofnunarinnar komist á beinu brautina.

Eina leiðin til aðhalds við ríkisútvarpið er að ræða málefni þess á opinberum vettvangi. Með nefskatti er öllum gert skylt að standa undir rekstri þess, hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Að gagnrýndandinn Jón Viðar vilji þagga niður í þeim sem láta skoðun sína í ljós þegar þeim er nóg boðið vegna ríkisútvarpsins tel ég af og frá. Það er fagnaðarefni að gagnrýnin umræða um þessa ríkisstofnun fari fram á vettvangi stjórnmálaflokka en á ekki að vera árásarefni á flokkana.

Jón Viðar segir að fólk undir 25 ára aldri virðist ginnkeyptara en aðrir aldurshópar fyrir „undirróðri“ gegn ríkisútvarpinu og vonar að andstaðan eldist af því. Fyrir skömmu var rætt við Stefán Jón Hafstein í ríkisútvarpinu í þætti um fjölmiðlun. Stefán Jón var á sínum tíma frumkvöðull í ýmsu sem gerði rás 2 að rósinni í hnappagati ríkisútvarpsins. Hann sagði að tæknin gerði ríkisútvarpið að engu eftir 20 til 30 ár. Þetta ræður afstöðu ungs fólks en ekki „undirróður“ HHG og félaga.

Þeir sem hlusta á rás 1 vita að þar er öll metnaðarfull nýsköpun úr sögunni. Leitast er við að halda í horfinu með flutningi á gömlu efni. Kveður svo rammt að slíkum flutningi að þess er ekki lengur getið í dagskrárkynningu frá hvaða ári viðkomandi efni er. Mætti ætla að dagskrárstjórinn skammist sín fyrir allan endurflutninginn. Nýsköpunin felst í yfirborðskenndu lausatali til kynningar á viðburðum í auglýsingaskyni og flutningi á sígildri tónlist í krafti samvinnu erlendra útvarpsstöðva – bera þeir þættir af öðru efni ásamt Hátalaranum.

Hnignun ríkisútvarpsins er augljós. Þar er hvorki við fjárskort né stjórnmálaflokka að sakast. Kjarnastarfseminni hefur einfaldlega verið fórnað fyrir eitthvað annað. Æ erfiðara verður að halda uppi vörnum fyrir að skattgreiðendur standi undir úreltu bákni við miðlun lélegs efnis þegar unnt er að ná betri árangri á hagkvæmari hátt. Einkavæðing á ríkisútvarpinu er óskynsamleg undan starfseminn heldur áfram að fjara. Það á að koma á fót sjóði á borð við kvikmyndasjóð og gera mönnum fært að keppa um styrki til að framleiða metnaðarfullt, íslenskt hljóðvarps-, sjónvarps- og netmiðlaefni.