8.10.2021 10:04

Ríkisstjórninni „parkerað“

Að flokksformennirnir vinni að „stjórnarmyndun“ gefur alls ekki rétta mynd af því sem gerist á fundum þeirra.

Formenn flokkanna þriggja sem sátu í ríkisstjórn fyrir kosningar, boðuðu í kosningabaráttunni að þeir væru ekki afhuga samstarfi að kosningum loknum. Samstarf þeirra fékk gott brautargengi hjá kjósendum. Að flokksformennirnir vinni að „stjórnarmyndun“ gefur alls ekki rétta mynd af því sem gerist á fundum þeirra.

Þingflokkarnir þrír sem að stjórninni standa leggjast ekki gegn frekara samstarfi. Klúður við talningu í NV-kjördæmi truflar röðun manna í jöfnunarsæti. Ríkisstjórnin nýtur meira þingræðislegs umboðs en fyrir kjördag.

Hefði stjórnin misst meirihluta sinn í kosningunum, hefði forsætisráðherra beðist lausnar að þeim loknum og stjórnin setið sem starfsstjórn þar til ný stjórn hefði verið mynduð. Við þær aðstæður hefði orðið „stjórnarmyndun“ átt við um viðræður flokksformanna.

1302186P-merkið í Tjarnargötunni fyrir aftan formenn stjórnarflokkanna lýsir best í hvaða stöðu ríkisstjórnin er nú. Henni hefur verið lagt á meðan rætt er hvert skuli stefnt næstu fjögur ár, síðan verður ekið aftur af stað (mynd: mbl.is).

Nú leitast þau Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson við að kortleggja framtíðina og ná samkomulagi um hvernig þau ætla að glíma sameiginlega við hana næstu fjögur árin. Á liðnu kjörtímabili voru þau þó rækilega minnt á að atburðir en ekki væntingar ráða ferðinni. Þegar upp er staðið skiptir traust og trúnaður milli samstarfsmanna þó mestu um sameiginlegan árangur. Forsenda fyrir gagnkvæmu trausti er hins vegar að menn viti hvar þeir standa og í því samhengi skiptir ígrundaður stjórnarsáttmáli miklu. Að efnisathugunum vegna hans er unnið núna.

Það gefur síðan hugmynd um stöðu innan einstakra þingflokka hvaða aðferð verður notuð við að skrifa stjórnarsáttmálann. Stundum eru margir kallaðir opinberlega til verksins, hin aðferðin reynist þó vel að styðjast við stuttan markvissan texta sem segir meira en mörg orð.

Stjórnarráðslögunum var breytt eftir hrun og horfið til þess að samhliða samningum um stefnu ríkisstjórnar yrði einnig samið um skipulag stjórnarráðsins við upphaf stjórnarsamstarfs. Þetta er lokaliður viðræðna flokksformannanna auk skiptingar á ráðherraembættum milli flokka.

Um gerð mikilvægara samninga er oft sagt að í þeim sé ekkert öruggt fyrr en öllum þráðum hafi verið náð saman og punktur settur aftan við allar vafasetningar. Þetta á einnig við um gerð stjórnarsáttmála og samkomulag um ríkisstjórnarsamstarf. Álitsgjafar og stjórnmálamenn geta endalaust velt vöngum um hvort hægt miði eða hratt, hvort samkomulag náist um þetta eða hitt eða hvar þetta eða hitt ráðuneytið lendi svo að ekki sé minnst á mannval í ráðherraembætti.

Ekkert af þessu liggur fyrir fyrr enn allt liggur á borðinu og hlýtur að lokum samþykki þingflokka. Við núverandi aðstæður er þetta ekki „stjórnarmyndun“ í venjulegum skilningi þess orðs heldur er rætt um samstarfsgrundvöll til fjögurra ára, innra skipulag stjórnarráðsins og skiptingu málaflokka milli stjórnarflokkanna. Þegar þetta liggur fyrir ákveður hver þingflokkur fyrir sig hverjir sitja í ríkisstjórninni.