15.9.2017 18:03

Ríkisstjórnin fallin (2)

Fyrir ári var boðað til kosninga í erfiðu samsæris-andrúmslofti eins og nú. Það er vandi fyrir stjórnmálamenn að takast á við þessar aðstæður en þeir móta þær sjálfir og geta þess vegna einnig breytt þeim.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, efndi til blaðamannafundar í Valhöll kl. 16.30 í dag og gerði það sem rétt var í stöðunni eftir að Björt framtíð hafði rofið stjórnarsamstarfið rúmum hálfum sólarhring áður að mæla með þingrofi og kosningum í nóvember. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins verður settur föstudaginn 3. nóvember og af orðum Bjarna verður ekki dregin önnur ályktun en hann ætli að sækja áfram eftir umboði flokksmanna og leiða Sjálfstæðismenn í komandi kosningum.

Bjarni lýsti gangi mála undanfarið og uppnáminu sem orðið hefur vegna umræðnanna um uppreist æru á greinargóðan hátt. Hann hefur full rök fyrir því að hafa farið með það sem trúnaðarmál síðan undir lok júlí sem dómsmálaráðherra sagði honum þá varðandi aðild föður hans að umsókn um uppreist æru fyrir dæmdan barnaníðing. Hann sagðist hins vegar hafa skynjað að fréttamenn hefðu haft nasasjón af efni málsins og þess vegna hefði hann skýrt formönnum samstarfsflokka sinna í ríkisstjórn, Benedikt Jóhannessyni og Óttari Proppé, frá því í byrjun vikunnar.

Bjarni sagði í ávarpi sínu: „Við þurfum að endurheimta sterka ríkisstjórn fyrir Ísland, sem ekki leggst flöt í vindi eins og strá. Slík stjórn gæti gefið fólkinu í landinu þá tilfinningu að verið væri að sjá um málin. Ég sé ekki líkur á að við náum slíkri stjórn með stjórn margra smáflokka, ég held að dæmin séu til að læra af því efni.“

Bergur Þór Ingólfsson leikari á dóttur sem Robert Downey misnotaði og varð Bergi Þór svo misboðið þegar hæstiréttur úrskurðaði að Robert gæti fengið lögmannsréttindi sín að nýju, enda hefði hann fengið uppreist æru, að hann hóf baráttu gegn gildandi lögum í þessu efni. Hann segir á ruv.is í dag:

„Það er bjartur punktur í þessu. Bjarti punkturinn er sá að fólk lætur ekki bjóða sér svona vinnubrögð og tekur undir það með okkur. Við látum ekki bjóða okkur svona leyndarhyggju. Fólk vill fá að sjá sannleikann. Og okkur er treystandi fyrir honum.

Ég er staddur í miðju einhverrar atburðarásar sem ég hefði aldrei getað látið mér detta í hug þegar við lásum fyrst fréttir um að Robert Downey hefði hlotið lögmannsréttindin sín aftur. [...]

Mér finnst eðlilegt að ríkisstjórnin hafi sprungið á þessu máli. Allar þær tálmanir sem hafa orðið á okkar vegi í þessu máli. Okkur var bara sagt strax að það yrðu engar upplýsingar birtar um þetta mál. Við bara spurðum: Af hverju? Við skildum það ekki. Þá var bara svarað: Af því bara. Við skildum það heldur ekki. Aftur og aftur var okkur sagt að við fengjum ekki upplýsingar því það væri ólöglegt að veita þær. Svo kom í ljós að það var ekki rétt. Svo kom í ljós að það var verið að hylma yfir einhverju sem okkur hefði ekki órað fyrir.“

Svörin sem Bergur Þór fékk um leyndina hafa verið reist á kerfissjónarmiðum. Ég hef lýst áður þeirri skoðun hér á síðunni að allar upplýsingar um umsagnaraðila ætti að birta. Ráðuneytið hefur viljað hafa vaðið fyrir neðan sig og þess vegna beindi það beiðni um upplýsingar til sérstöku úrskurðarnefndarinnar sem heimilaði birtingu með skilyrðum. Rök fyrir því að ætlunin hafi verið að „hylma yfir einhverju“ skortir – samsærishliðin á málinu er ósannfærandi en hana ber hátt á pólitískum vettvangi. Á henni er óvildin í garð Bjarna Benediktssonar og Sjálfstæðisflokksins reist.

Fyrir ári var boðað til kosninga í erfiðu samsæris-andrúmslofti eins og nú. Það er vandi fyrir stjórnmálamenn að takast á við þessar aðstæður en þeir móta þær sjálfir og geta þess vegna einnig breytt þeim.