2.1.2025 10:29

Ríkisstjórnin boðar hagsýni

Eigi að ná árangri við að minnka umsvif ríkisins verður samhent ríkisstjórn að móta slíkar tillögur. Það var ekki gert við stjórnarmyndunina og nú er ætlunin að setja málið í samráðsgátt,

Í vikuritinu The Spectator sem kom út í dag (2. janúar) segir að í upphafi ársins 2025 virðist veröldin vera að snúast á öxli sínum í áttina til hægri. Javier Milei forseti noti keðjusög á opinbera báknið. Donald Trump búi sig undir að afregluvæða bandarískt efnahagslíf. Í Evrópu birtist Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, sem áhrifamesti leiðtoginn. Talið sé að Friedrich Merz, leiðtogi Kristilegra demókrata í Þýskalandi, verði kanslari að loknum kosningum í febrúar en hann sé íhaldssamari en Angela Merkel, flokkssystir hans og fyrrverandi kanslari.

Úrslit þingkosninganna hér 30. nóvember voru í samræmi við þessa breytingu til hægri þótt Viðreisn hafi kosið að þeim loknum að snúa sér til vinstri. Von flokksforystu Viðreisnar er að þar með fái hún stuðning á alþingi til að sækja að nýju um aðild að ESB og leggja tillöguna um umsókn undir þjóðaratkvæði ekki síðar en árið 2027.

AvarpForsaetisradherra2024_40Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra flytur áramótaávarp sinn 31. desember 2024 (mynd: stjornarráðið.is).

Þessi áform eru svo stór að þau ýta í raun öllum öðrum stefnumálum ríkisstjórnarinnar til hliðar. Forsætisráðherra Kristrún Frostadóttir nálgast þetta stórmál sem feimnismál því að hún minntist ekki á það í áramótaávarpi sínu á gamlársdag. Hún lét ESB-aðildarmálið einnig liggja á milli hluta í kosningabaráttunni af ótta við að málið fældi kjósendur frá Samfylkingunni.

Efnahagsmál settu mestan svip á fyrsta áramótaávarp Kristrúnar og fréttastofa ríkisútvarpsins vakti sérstaka athygli á efnisgreininni þar sem forsætisráðherra sagði að heimili og fyrirtæki hefðu þegar gripið til aðgerða til að hagræða. Ríkisstjórnin myndi gera það sama og á fyrsta vinnudegi nýs árs myndi stjórnin efna „til víðtæks samráðs við almenning um hagsýni í ríkisrekstri“.

Í fréttum sagði að til þessa „víðtæka samráðs“ yrði samráðsgátt stjórnarráðsins notuð. Þegar þetta er skráð að morgni 2. janúar er engin orðsending um þetta efni komin inn á gáttina.

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur gefið til kynna að með hagræðingu og lokun á glufum í skattkerfinu megi ná marktækum árangri til að minnka halla á ríkissjóði. Allt slíkt tal er marklaust.

Bjarni Benediktsson boðaði sem fjármála- og efnahagsráðherra aðgerðir gegn „sóun“ í ríkisfjármálum. Hann vildi finna nýjar leiðir til að endurskoða verkefni ríkisins og kynnti hugmynd um að setja á fót sjálfstætt embætti sem hefði sérstakt umboð til að hafa eftirlit með framúrkeyrslum ríkisstofnanna.

Þá sagði Bjarni sem forsætisráðherra í október 2024: „Villur í opinberum gögnum eru hið versta mál.“ Þegar sérvinnsla sem hann bað hagstofuna um sýndi að fimm þúsund manns í fæðingarorlofi voru ranglega talin starfsmenn ríkisstofnana í opinberum gögnum hennar. Ríkisstarfsmenn voru ofmetnir um 5.000 manns.

Eigi að ná árangri við að minnka umsvif ríkisins verður samhent ríkisstjórn að móta slíkar tillögur. Það var ekki gert við stjórnarmyndunina og nú er ætlunin að setja málið í samráðsgátt, fá hugmyndir frá almenningi sem ráðherrar geti notað sem skjöld í óhjákvæmilegum átökum verði gripið til raunverulegrar hagræðingar í þeim hægri anda sem nú ræður til dæmis í Argentínu.