22.4.2017 14:26

Ríkisstjórn í 100 daga

Í dag ganga vísindamenn um allan heim um götur og torg til að lýsa áhyggjum af síauknum árásum stjórnmálamanna á staðreyndir og rök og ótta um að vísindarannsóknum verði vikið til hliðar í stefnu stjórnvalda.

Þess er minnst um þessar mundir að 100 dagar eru liðnir frá því að Bjarni Benediktsson myndaði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar farmtíðar. Aðeins átta vikum eftir að stjórnin var mynduð hafði hún aflétt fjármagnashöftunum sem sett voru haustið 2008. Þau höfðu þá gilt í rúm átta ár og reyndist ríkisstjórnum undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um megn að aflétta höftunum.

Jóhanna og Steingrímur J. Sigfússon vildu ekki höftin á brott. Jóhanna ætlaði að nota þau til að troða Íslendingum inn í ESB og Steingrímur J. til að hlutast til um rekstur fyrirtækja. Aðferðir Seðlabanka Íslands við framkvæmd haftanna mótuðust í stjórnartíð Steingríms J. og einkenndust af ofríkisáráttu þeirra sem líta á ríkisvaldið sem upphaf og enda alls.

Lög um opinber fjármál tóku gildi 1. janúar 2016. Þegar nýju lögin voru kynnt var það meðal annars gert með þessum orðum:

„Mikilvægur þáttur í nýju lögunum er fjármálastefna til fimm ára, sem lögð er fram í upphafi kjörtímabils. Stefnan er háð samþykkt Alþingis. Í henni eru sett markmið um afkomu og fjárhag ríkis og sveitarfélaga. Fjármálastefnu er ætlað að fela í sér markmið sem leiða eiga til stöðugleika og sjálfbærni opinberra fjármála. 

Á grunni fjármálastefnu skal ráðherra fjármála leggja fram fjármálaáætlun til fimm ára hvert vor. Fjármálaáætlun felur í sér útlistun á því hvernig markmiðum fjármálastefnu verði náð ár hvert. Fjármálaáætlun inniheldur því nánari sundurliðun markmiða fyrir ríki og sveitarfélög, þ.m.t. markmið um útgjaldaþak fyrir hvert málefnasvið er varðar ríkissjóð og þær leiðir sem ætlað er að fylgja svo markmið náist.“

Fjármálaáætlun fyrir árin 2018 til 2022 er nú til umræðu og sýnist sitt hverjum. Þeir sem sinna ferðaþjónustu eru einkum reiðir vegna boðaðra áforma um hækkun á virðisaukaskatti á greinina. Alls er skýrslan sem hefur að geyma fjármálaáætlunina 363 blaðsíður að lengd og þar er að finna greiningu á öllu sem snertir fjármál ríkis og sveitarfélaga.

Í skýrslunni segir (bls. 220) að árið 2016 hafi 1,7 milljón erlendra ferðamanna komið til landsins um Keflavíkurflugvöll, sem er um 40% aukning frá árinu áður og aukning um 218% frá árinu 2011. Til samanburðar er árlegur alþjóðlegur vöxtur í ferðaþjónustu um 3,5-4,5%. Ferðamálastofnun Sameinuðu þjóðanna gerir ráð fyrir að um 1,2 milljarðar manna ferðist yfir landamæri á árinu 2017. Um 27.000 manns starfa í ferðaþjónustu hjá rúmlega 2.900 fyrirtækjum. Þetta þýðir að um 11% starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði starfa við ferðaþjónustu. Með vaxandi fjölda ferðamanna hafa tekjur þjóðarbúsins aukist umtalsvert og frá 2010 hafa orðið til um 13.000 ný störf í greininni, sem er um 40% þeirra starfa, sem hafa skapast á tímabilinu. Gangi spár eftir verða erlendir ferðamenn nálægt 2,4 milljónum á árinu 2017, sem er fjölgun sem nemur 33% frá árinu 2016, rúmlega 3,4 milljónir árið 2022 og um 4,3 milljónir árið 2030.

Það þarf engan að undra að miklar umræður verði um þennan þátt vegna fjármálaáætlunarinnar en þær beinast einkum að því um þessar mundir að vá sé fyrir dyrum verði virðisaukaskattur sami í ferðaþjónustu og almennt í landinu. Þá heyrast einnig raddir um að lækka verði gengið vegna þessarar atvinnugreinar. Þingmenn hafa skipað sér í fylkingar vegna skattheimtu vegna ferðaþjónustunnar. Landsbyggðarþingmenn óttast að jaðarsvæði verði verst úti vegna hærri skatts.

Allt er þetta gamalkunn viðhorf og viðfangsefni á vettvangi stjórnmálanna og ástæðulaust að láta eins og þessari ríkisstjórn sé meiri vandi á höndum vegna þeirra en öðrum á undan henni þegar tekist hefur verið á um skattamál. Fundin er sátt að lokum. Sama á við í kjaramálum og öðrum málaflokkum.

Til að tryggja að umræður um fjármálaáætlunina falli í málefnalegan farveg er í lögunum um opinber fjármál að finna ákvæði um fjármálaráð. Ráðið var skipað í fyrsta 1. júní 2016 og sitja í því: Gunnar Har­alds­son, ráð­gjafi og fyrr­ver­andi for­stöðu­maður Hag­fræði­stofn­unar Háskóla Íslands, sem er for­mað­ur, Arna Olafs­son, lektor í fjár­mála­hag­fræði við Við­skipta­há­skól­ann í Kaup­manna­höfn, Axel Hall, lektor við við­skipta­deild Háskól­ans í Reykja­vík, Ásgeir Brynjar Torfa­son, lektor í við­skipta­fræði við Háskóla Íslands, Hjör­dís Dröfn Vil­hjálms­dóttir hag­fræð­ingur og Þóra Helga­dóttir Frost, ráð­gjafi og fyrr­ver­andi hag­fræð­ingur hjá breska fjár­mála­ráð­inu. Formaður og varaformaður voru tilnefndir af Sigurði Inga Jóhannssyni þáv. forsætisráðherra, alþingi velur aðra í ráðið.

Í áliti sínu nú telur fjármálaráð að meira aðhalds mætti gæta í ríkisfjármálum samkvæmt áætluninni.

Þetta verður álitsgjafanum og fyrrv. ritstjóranum Jónasi Kristjánssyni til að segja á vefsíðu sinni:

„Nefnd Bjarna Benediktssonar um fjárlög kallast í fjölmiðlum „Óháðir sérfræðingar á vegum stjórnvalda“. Heitið er dæmigert um hlýðni óháðra fjölmiðla við orðaval úr tilkynningum óháðra blaðurfulltrúa á vegum stjórnvalda. Þarna hefur BB safnað hópi nýfrjálshyggjufólks til að skýra, hvernig og hvers vegna þurfi að skera á velferðina. Þörfin meinta stafar af óbærilegum niðurskurði gjalda á 1% ofurríkra, sem stjórna þrælabúðunum Íslandi. Flóknara er það ekki. Nýfrjálshyggja tók völdin í pólitískum trúarbrögðum á vesturlöndum nokkru fyrir aldamót. Hefur síðan ungað út dæmum um „græðgi er góð“ og skrapað upp limið í samfélögum vestrænna þjóða.“

Í dag ganga vísindamenn um allan heim um götur og torg til að lýsa áhyggjum af síauknum árásum stjórnmálamanna á staðreyndir og rök og ótta um að vísindarannsóknum verði vikið til hliðar í stefnu stjórnvalda. Segir í fréttum að þetta sé ekki síst gert af ótta við Donald Trump Bandaríkjaforseta og vantrú hans á gildi loftslagsvísinda.

Tilvitnun í Jónas Kristjánsson hér að ofan sýnir að ekki þarf að leita út fyrir landsteinana til að finna þá sem hafna staðreyndum. Þá hefur einn helsti vísindamaður landsins, Kári Stefánsson, helgað sig gróusögum í opinberum skrifum.

Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Matthew Bishop, einn af yfirritstjórum breska tímaritsins The Economist. Hann hefur verulegar áhyggjur af að útbreiðsla falsfrétta (e. fake news) komi í veg fyrir að almenningur fái réttar upplýsingar um þær lausnir sem raunverulega bæta samfélagið. „Útsmognir aðilar geta síðan nýtt sér lögmál þessa nýja fjölmiðlaumhverfis til að breiða út villandi eða rangar upplýsingar. Nýi fjölmiðlaheimurinn virkar líka þannig að efni sem æsir, hneykslar eða reitir til reiði breiðist út hratt og víða, óháð sannleiksgildi,“ segir yfirritstjórinn.

Þetta er nýmæli í stjórnmálaumræðunum sem blasir við ríkisstjórn Íslands á 100 daga afmæli hennar eins og við ríkisstjórnum um heim allan. Að takast á við þennan vanda krefst nýrra aðferða hér og annars staðar.