25.5.2018 11:20

Ríkið sjái um kosningaloforðin - sósíalismi leysi húsnæðisvandann

Dagur B. boðar sósíalískar lausnir í húsnæðismálum sem kalla á brask, niðurgreiðslur og framhald húsnæðisskorts vegna lóðaskorts.

Á sínum tíma lágu fyrir drög að samkomulagi ríkis og borgar um Sundabraut, þangþráð úrræði til að minnka umferð um Ártúnsbrekkuna og greiða fyrir för þeirra sem aka um höfuðborgarsvæðið á vestur- og norðurland.

Þetta samkomulag komst aldrei til framkvæmda vegna þess að Reykjavíkurborg hljóp frá því og setti fram nýja tillögu 10 til 12 milljörðum kr. dýrari án þess að vilja taka á sig aukakostnaðinn.

Lagningu Sundabrautar bar hátt fyrir kosningar til borgarstjórnar árið 2002 ­– síðan hefur ekkert gerst. Dagur B. skellir skuldinni auðvitað á ríkið.

Nú á að leika sama leik varðandi helstu loforð Dags B. í samgöngumálum: Miklubraut í stokk og borgarlínu. Í samtali við Morgunblaðið fimmtudaginn 24. maí sagði Dagur B.:

„Miklubraut í stokk og borgarlínan eru samstarfsverkefni við ríkið. Þær viðræður eru ekki formlega hafnar en samtölin eru sannarlega hafin og verða á grundvelli fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar og stjórnarsáttmálans. Þannig að ég bind góðar vonir við að ná góðri og breiðri sátt um að flýta þeim verkefnum.“

Þessi mynd birtist á frettatiminn.is með frétt um að í nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins á vegamálum sé áætlað að 15.000 klukkustundum sé sóað í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu á degi hverjum, sem samsvari um 25 klukkustundum á hvern íbúa á ársgrundvelli.

Þarna segir borgarstjóri beinlínis að stóru loforð sín séu gerð út á stjórnarsáttmála ríkisstjórnar sem hann er andvígur. Hverjum verður kennt um þegar ekkert gerist í þessum málum á næsta kjörtímabili Dags B.? Ríkisstjórninni. Að ráðherrar skuli láta draga sig inn í þessa svikamyllu er stórundarlegt og raunar óskiljanlegt í ljósi reynslu ríkisins af samskiptum við Dag B. í samgöngumálum.

Fyrir liggur að ekki hefur verið meiri lægð í smíði íbúðarhúsa í Reykjavík síðan 1929 og á þessu kjörtímabili. Glærusýningar Dags B. breyta engu um það. Hann hefur hins vegar fundið blóraböggul. Í fyrrnefndu viðtali við Morgunblaðið sagði hann að markaðurinn hefði brugðist – markaðurinn sem hefur ekki fengið lóðir nema undir íbúðir sem markaðsmenn vona að fari á allt að 400 milljónir króna! Slíkt húsnæðisverð ber skýr merki skorts.

„Ég held að markaðurinn leysi minna í húsnæðismálum heldur en oft er talað um. Þess vegna höfum við sett fram [áform um] að borgin stígi inn í þetta [ástand] og leggi lóðir með sérstökum kvöðum undir uppbyggingu íbúða fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur,“ sagði Dagur B. í Morgunblaðinu.

Ásgeir Jónsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, efast um að þetta lækki húsnæðiskostnað. Eftir honum er haft í Morgunblaðinu föstudaginn 25. maí:

„Í fyrsta lagi sé erfitt að stýra eftirspurn. Þegar hópi sé boðið húsnæði á undirverði sé erfitt að koma í veg fyrir að hópurinn selji það áfram. Í öðru lagi þurfi borgin að leggja eitthvað fram, eða gefa eitthvað eftir, svo að húsbyggjendur taki slík verkefni að sér. Það muni fela í sér aukakostnað og niðurgreiðslur. Í þriðja lagi hafi stefnan verið að opna ekki ný svæði fyrir byggingarlóðir. Áherslan hafi verið á þéttingarreiti sem hægt gangi í skipulaginu. Það hafi ýtt undir húsnæðisverðið.“

Dagur B. boðar sósíalískar lausnir í húsnæðismálum sem kalla á brask, niðurgreiðslur og framhald húsnæðisskorts vegna lóðaskorts. Húsnæðismálin eru stundum sögð mál málanna í kosningunum í Reykjavík. Þar hefur valið skýrst: Vegna þess að markaðurinn hefur brugðist boðar Dagur B. stefnu í anda Maduros Venezúelaforseta: Tökum markaðinn úr sambandi og handveljum í nafni fjöldans.