10.4.2021 11:03

Reynsla Styrmis

Styrmir er með jarðbundnari mönnum sem ég þekki þannig að það var gleðilegt að þessi nýja vídd opnaðist honum á sjúkrahúsinu.

Fyrir viku lýsti Styrmir Gunnarsson, fyrrv. ritstjóri, því í föstum laugardagsdálki sínum í Morgunblaðinu að hann hefði um tveimur mánuðum fyrr vaknað og fundið að hann gat hvorki hreyft hægri hönd né fót og ekki talað. „Klukkutíma síðar var ég kominn upp á Landspítala í Fossvogi. Sjúkdómsgreining blóðtappi. Og síðar á Grensás, endurhæfingardeild,“ sagði hann og lýsti góðum kynnum af starfsfólki Landsítalans og bætti við „Vinnuálagið á starfsfólkið er bersýnilega gífurlegt og vanmetið.“

Styrmir bætti við í grein sinni 3. apríl:

„Fyrir rúmri viku fékk ég upplýsingar frá miðli, sem ég þekki ekki persónulega en nokkuð til fjölskyldu hennar, þess efnis að það væri fylgzt reglulega með heilsufari mínu að handan og þar væri á ferð Bjarni heitinn Oddsson læknir sem dó of ungur snemma á sjötta áratug síðustu aldar.

Mér þótti gott að vita af því af ýmsum ástæðum. Bjarni var sonur Odds Bjarnasonar, skósmiðs neðst á Vesturgötunni, en Oddur var bróðir Guðmundar Bjarnasonar, gamla bóndans í minni sveit, Hæl í Flókadal, sem ég mat meir en aðra menn. Tveir bræður Bjarna voru nánir vinir föður míns á unglingsárum og svo fór að við Halldór sonur Bjarna urðum vinir til æviloka hans eftir að við vorum saman snúningastrákar á Hæl fjögur af þeim fimm sumrum sem ég var þar.“

Styrmir er með jarðbundnari mönnum sem ég þekki þannig að það var gleðilegt að þessi nýja vídd opnaðist honum á sjúkrahúsinu. Tel ég víst að frásögnin af því hafi glatt sameiginlegan, háaldraðan vin og starfsbróður, Matthías Johannessen, sem ræddi oft og skrifaði um handanheima.

IMG_3244Þríhyrningur, 9. apríl 2021.

Um leið og því er fagnað að Styrmir hefur náð bata og kröftum til að setjast að nýju við skriftir skal nefnd grein hans í Morgunblaðinu í dag (10. apríl) þar sem hann ræðir um ímyndunarvanda Sjálfstæðisflokksins. Má ætla að þessi vandi hafi einnig skýrst fyrir honum við dvölina á Landspítalanum og samtöl við fólk þar. Styrmir segir:

„Það er mjög útbreidd skoðun að fiskveiðikvótinn hafi leitt til stórvaxandi

ójöfnuðar og Sjálfstæðisflokknum kennt um. Hann er talinn helzta vígi margvíslegra sérhagsmuna. Það er alrangt en því er aldrei mótmælt af talsmönnum Sjálfstæðisflokksins.

Veruleikinn er sá, að framsal kvótans var gefið frjálst af vinstristjórn Framsóknar, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags án þess að taka upp auðlindagjald um leið. Þetta var sennilega mesti tilflutningur eigna á Íslandi frá siðaskiptum. Talsmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ekki séð ástæðu til að leiðrétta þennan misskilning.“

Undir þessa skoðun skal tekið og einnig varnaðarorð Styrmis gegn áróðri þeirra sem prédika nauðsyn aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Áróðurinn um ESB-aðildina er líklega mesta sérhagsmunastefna íslenskra stjórnmála um þessar mundir.

Um umræður um breytingar á kvótakerfinu og breytingar á stjórnarskránni gildir að sparkað er í Sjálfstæðisflokkinn og látið eins og við hann sé að sakast þegar vinstrisinnar sigla eigin stefnumálum í strand. Björgunin felst í því að sjálfstæðismenn slái ekki af stefnu sinni.