20.8.2022 11:26

Reynir Trausta styður Kristrúnu

Ritstjóri pönk-blaðamennskunnar boðar hér nýja túlkun þegar hann segir „niðurlægjandi“ að nota orðið „krýning“ um einhvern sem stefnir að háu embætti.

Sé einn íslenskur blaðamaður kunnur fyrir að vilja „pönkast á“ fólki er það Reynir Traustason sem nú heldur úti Mannlífi.

Í Kastljósi sjónvarpsins 5. september 2010 var spiluð upptaka af samtali þáv. ritstjóra DV, Reynis Traustasonar, og blaðamanns, Jóns Bjarka Magnússonar. Ritstjórinn, Reynir Traustason, segir í þessu samtali að Björgólfur Guðmundsson sé „djöfull“ og að „við munum taka hann niður“. Ritstjórinn segir jafnframt: „En við höfum pönkast á honum [Björgólfi Guðmundssyni] í hið óendanlega.“ (Uppfært: Þessi tilvitnun er úr Viðskiptablaðinu 6. september 2008 sjá hér , 15. desember 2008 birti Kastljós segulbandsupptöku með samtali Reynis og Jóns Bjarka og sama kvöld birtist útskrift af því á mbl.is sem lesa má hér. )

Með þessa vitneskju í huga er þessi fyrirsögn: Andrés pönkast á Kristrúnu á Orðrómi Reynis Traustasonar á vefsíðu Mannlífs í dag (20. ágúst) ónotaleg.

Í stuttum pistli endurtekur Reynir þann spuna sem stuðningsmönnum Kristrúnar í Samfylkingunni er kær að sjálfstæðismenn séu „skelfingu“ lostnir vegna framgangs Kristrúnar enda þykir Reyni og félögum hún „búa yfir fjölmörgum kostum sem stjórnmálamaður“.

Reynir lýsir skelfingarviðbrögðunum með þessum orðum:

„Þetta má sjá í Mogganum í dag þar sem yfirmaður minningagreina blaðsins, Andrés Magnússon, skrifar fréttagrein um framboð Kristrúnar. Fyrirsögnin er „Krýning fremur en kosning hjá Kristrúnu“. Þar er sett fram með niðurlægjandi hætti að hún er ein í framboði.“

Það þarf sérstakt hugarfar til að skilja þessi orð Andrésar á þann veg að hann sé að „pönkast á“ Kristrúnu. Ritstjóri pönk-blaðamennskunnar boðar hér nýja túlkun þegar hann segir „niðurlægjandi“ að nota orðið „krýning“ um einhvern sem stefnir að háu embætti.

1360363Kristrún Frostadóttir tilkynnir formannsframboð sitt í Samfylkingunni föstudaginn 19. ágúst 2022 í Iðnó (mynd: mbl.is/Eggert Jóhannesson).

Raunar verður ekki ljóst fyrr en viku fyrir landsfund Samfylkingarinnar hvort Kristrún verður þar ein í kjöri eða ekki. Fyrirsögn Andrésar er svo sterk til stuðnings henni að varla eygir nokkur sigurvon með framboði gegn Kristrúnu.

Reynir býsnast yfir því að í Morgunblaðinu sé ekki talað um formannsframboð Bjarna Benediktssonar og varaformannsframboð Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur í Sjálfstæðisflokknum „sem krýningu eða annað í þeim dúr“. Hann lætur þess ógetið að í Sjálfstæðisflokknum er ekki um neinn formlegan framboðsfrest að ræða við formannskjör. – Þar ræðst allt á landsfundinum sjálfum en ekki á fundi í Iðnó mörgum vikum fyrir hann eins og virðist hafa gerst í Samfylkingunni í gær (19. ágúst) þegar Kristrún Frostadóttir og stuðningsmenn töldu fullvíst að hún yrði næsti formaður Samfylkingarinnar af því að Dagur B. Eggertsson gæfi ekki kost á sér.

Sé eitthvað „niðurlægjandi“ unnt að tengja við framboð Kristrúnar og framgöngu eru það orð hennar um að Katrín Jakobsdóttir ráði engu um stefnu stjórnar sinnar heldur hafi Bjarni Benediktsson þar tögl og hagldir. Hefði karlmaður talað til forsætisráðherra á þennan veg þætti það móðgun og illvilji. Þá eyðir Kristrún ekki orðum á Framsóknarflokkinn haldreipi Samfylkingarinnar í borgarstjórn. Segir það mikla sögu um virðingu forystusveitar Samfylkingarinnar í garð þeirra sem tryggja henni þó einhver völd þrátt fyrir eyðimerkurgöngu undanfarinna ára.