23.2.2023 10:00

Rekum rússneska sendiherrann

Hér heyrist hvorki hósti né stuna frá íslenskum stjórnvöldum þótt Mikhail Noskov, sendiherra Rússa, fari móðgandi orðum um utanríkisráðherra Íslands og rægi Íslendinga og íslenskt samfélag í rússneskum fjölmiðlum.

Í kalda stríðinu hélt sovéska ríkisstjórnin eða áróðursdeild sovéska kommúnistaflokksins úti fréttastofunni Novosti eða APN sem dreifði áróðri á íslensku sem var fjölfaldaður og rataði stundum inn í íslensk blöð. Voru íslenskir ábyrgðarmenn skráðir fyrir þessari starfsemi. Á það reyndi ekki hvort íslenska ríkið hefði fengið leyfi til að halda úti svipaðri áróðursstarfsemi í Sovétríkjunum.

Nú á tímum er Rússland jafnvel lokaðra land en Sovétríkin voru á sínum tíma og í nafni „sérstakra aðgerða“ rússneska hersins í Úkraínu búa íbúar Rússlands við sífellt meiri harðstjórn. Þá hafa opinber samskipti Rússa við önnur ríki breyst, nú síðast þriðjudaginn 21. febrúar.

Þann dag flutti Vladimir Pútin Rússlandsforseti ekki aðeins hörkulega stefnuræðu heldur breytti fyrirmælum um markmið utanríkisstefnu Rússlands. Í eldri fyrirmælum sem Pútin gaf í maí 2012 var sagt að rækta bæri „samvinnutengsl“ við erlend ríki á grundvelli „virðingar fyrir fullveldi nágrannalanda“. Í nýju fyrirmælunum er horfið frá öllum áformum um samstarf við Vesturlönd og ekki er lengur minnst á virðingu fyrir fullveldi nágrannaríkja Rússlands. Nú er höfuðmarkmið utanríkisstefnu Rússa að gæta rússneskra „þjóðarhagsmuna“ eins og þeir eru skilgreindir af stjórnvöldum í Kreml í ljósi „djúpstæðra breytinga í alþjóðasamskiptum“.

830807Rússeska sendiráðið í Reykjavík (mynd: mbl.is)

Nú í vikunni birti utanríkismálanefnd þings Kanada álit þar sem stjórn Kanada er hvött til að reka úr landi rússneska diplómata sem stunda starfsemi sem fellur ekki að hlutverki þeirra. Þetta er almennt orðað og getur náð til margs.

Laugardaginn 18. febrúar ákvað hollenska ríkisstjórnin að reka nokkra rússneska diplómata úr landi vegna ítrekaðra tilrauna Rússa til að koma njósnurum til starfa í Hollandi undir því yfirskini að um venjulega sendiráðsmenn væri að ræða. Þá ákváðu Hollendingar að loka ræðisskrifstofu sinni í St. Pétursborg og viðskiptaskrifstofu Rússa í Amsterdam.

Hér heyrist hvorki hósti né stuna frá íslenskum stjórnvöldum þótt Mikhail Noskov, sendiherra Rússa, fari móðgandi orðum um utanríkisráðherra Íslands og rægi Íslendinga og íslenskt samfélag í rússneskum fjölmiðlum.

Í tilefni af ársafmæli blóðugrar og grimmdarlegrar innrásar Rússa í Úkraínu birti Morgunblaðið miðvikudaginn 22. febrúar ómerkilega áróðursgrein eftir þennan rússneska sendiherra. Greinin brýtur ekki aðeins allar reglur blaðsins um lengd aðsendra greina heldur gengur hún harkalega gegn heilbrigðri skynsemi lesenda blaðsins. Það er í raun móðgun við þá að dreifa slíkum lygum í þúsundum eintaka.

Daginn áður en greinin birtist í Morgunblaðinu flutti Pútin tveggja tíma ræðu um sama efni í Moskvu og til að staðfesta hollustu sína við forsetann fær sendiherrann grein sína birta degi síðar. Er ekki að efa að fyrir þetta fær hann nokkrar stjörnur í kladda sinn í Kreml og hjá njósnurunum þar.

Það væri verðugt að minnast eins árs afmælis stríðs Rússa með því að skipa sendiherranum að yfirgefa Ísland. Hlutverk hans er ekki að virða fullveldi Íslands heldur að grafa undan því og friði í okkar heimshluta.