19.3.2019 10:32

Rekin af Austurvelli með tjaldið

Það er í samræmi við annað í málflutningi þeirra sem beittu sér fyrir mótmælunum á Austurvelli að hvorki er sagt rétt frá hvers vegna þeim var vísað á brott né því sem sagði hér á þessari síðu í gær.

Á vefsíðunni Kvennablaðinu mátti að kvöldi mánudags 18. mars lesa að félagar í samtökunum No Borders sem staðið hafa að mótmælum á Austurvelli frá mánudeginum 11. mars hafi ákveðið að taka niður tjald sitt og „hafa sig burt af vellinum“ eins og það er orðað. Tíðindamaður Kvennablaðsins ræddi við Elínborgu Hörpu Önundardóttur, málsvara mótmælenda, um klukkan 18 á mánudag. Þá segir:

„Elínborg segir að verulegt álag hafi stafað af áreiti og rasisma sem mótmælendur hafi orðið fyrir á vettvangi. Þá nefnir hún til sögunnar skrif Björns Bjarnasonar, fyrrverandi dómsmálaráðherra, sem birtust víða í fjölmiðlum í dag, en þar talar hann um flóttafólkið í sömu mund og innflutt kjöt og setur í samhengi við sjúkdóma og smithættu. Þannig berist opinská útlendingaandúð og islamófóbía að hópnum úr mörgum áttum.

Þá hafi borgaryfirvöld á mánudag ákveðið að afturkalla leyfi fyrir tjaldinu sem hópurinn hafði slegið upp. Hópurinn geti því ekki sem stendur reitt sig á að yfirvöld verji rétt þeirra til mótmæla í þessari mynd. Sama dag hafi einn úr hópnum verið handtekinn og umsóknum tveggja synjað. Loks spili veður inn í, og stormurinn sem sagður er í vændum. Að öllu samanlögðu hafi óvissuþættirnir orðið of margir og hópnum ekki þótt stætt á því að halda aðgerðinni áfram með óbreyttu sniði.“

Í samtalinu við Kvennablaðið segir Elínborg „það til marks um „ógeðslega meðvirkni borgarinnar með Íslensku þjóðfylkingunni“ og tengdum hópum að borgaryfirvöld hafi afturkallað leyfið fyrir tjaldið á Austurvelli og boðið þeim að tjalda ókeypis í Laugardal „eða í margra kílómetra fjarlægð frá þeim stjórnvöldum sem hópurinn krefur um áheyrn“. Boðar Elínborg að mótmælin taki á sig aðra mynd.

54415253_382723932562145_4108922902013804544_nHalldór Blöndal, fyrrv. forseti alþingis og ráðherra, fór á Austurvöll til að mótmæla óvirðingunni sem minningu Jóns Sigurðssonar var sýnd. Myndin er af vefsíðunni eyjan.,is

Í Morgunblaðinu segir í dag (19. mars) að tjaldleyfishafar á Austurvelli hefðu haft leyfið með því skilyrði frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar að tjaldið yrði fjarlægt fyrir 20.00 á kvöldin. Ekki var farið að þessu skilyrði.

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingar, segir borgina hafa gert hópnum það ljóst að hann væri ekki að uppfylla sett skilyrði. „Það er mjög óheppilegt að þeir fylgdu ekki þeim reglum sem þeim voru settar,“ segir Heiða Björg við Morgunblaðið.

Það er í samræmi við annað í málflutningi þeirra sem beittu sér fyrir mótmælunum á Austurvelli að hvorki er sagt rétt frá hvers vegna þeim var vísað á brott né því sem sagði hér á þessari síðu í gær. Allar tilraunir til að kenna það við rasisma, útlendingaandúð eða íslamófóbíu eru dæmdar til að mistakast, enda reistar á lygi.

55744608_561699177674063_2096789917077078016_nÞessi mynd frá Austurvelli birtist á vefsíðunni eyjan.is

Í sal Alþingishússins er mynd af einum manni, Jóni Sigurðssyni. Á það að vera stolt og skylda þingmanna að standa vörð um minningu hans. Fyrir framan þinghúsið er Austurvöllur, umgjörð um styttuna af Jóni Sigurðssyni.

Morgunblaðið ber atburði liðinna daga undir Steingrím J. Sigfússon, forseta alþingis. Hann segir fólk hafa fullan rétt til mótmæla á Íslandi í þeirri von að reyna að vekja athygli á sínum málstað. Mikilvægt sé þó að mótmæli fari friðsamlega fram og valdi sem minnstum núningi. Þingforsetinn segir að auki:

„Þetta snýr fyrst og fremst að borginni og í einhverjum tilfellum lögreglunni fremur en Alþingi. Við erum ekki aðilar að því að veita leyfi fyrir fundum eða öðru slíku. En sem stjórnmálamenn þá hlustum við auðvitað á svona lagað og það er þá í okkar höndum að bregðast við.“

Aumari geta viðbrögðin varla orðið hjá þeim sem gæta ber reisnar alþingis og minningar Jóns Sigurðssonar.