Reiðikast í Reykjavíkurbréfi
Hafi það verið ætlun höfundar Reykjavíkurbréfs að breyta viðhorfi okkar skýrsluhöfunda með atlögu sinni eða leggja á annan hátt stein í götu okkar með niðrandi ummælum sínum er hann seinheppinn.
Í þremur greinum í Morgunblaðinu í dag (21. september) sleikja þeir sárin sem eiga um sárt og binda eftir að hafa tapað orrustunni um þriðja orkupakkann. Tveir skrifa undir nafni en sá þriðji notar nafnleysi Reykjavíkurbréfsins og er hann svæsnastur þegar hann segir:
„Óframbærileg og niðurlægjandi afstaða íslensku ríkisstjórnarinnar í svokölluðu orkupakkamáli er sama eðlis [og þeirra sem telja alþjóðasamninga meira bindandi en höfundur bréfsins]. Augljóst er að látið hefur verið undan hótunum sem hvergi hefur þó verið upplýst um hvaðan komu. Ríkisstjórnin sjálf viðurkenndi í raun að hún lyppaðist niður fyrir hótunum um að gerði hún það ekki væri EES-samningurinn úr sögunni. Ekkert í samningnum sjálfum ýtti þó undir þá niðurstöðu!
En vandinn er sá að þar sem þessi dusilmennska náði fram að ganga er stjórnskipulegur tilveruréttur EES-samningsins að engu gerður. Þeir sem fyrstir allra misstu fótanna í þessu máli eru augljóslega algjörlega vanhæfir til að leggja trúverðugt mat á stöðu EES-samningsins. Og breytir engu þótt þeir hafi nú verið í heilt ár hjá Guðlaugi Þór við að bera í bætifláka fyrir málatilbúnað hans.“
Hvað eftir annað hefur þeirri skoðun verið lýst
í ritstjórnargreinum Morgunblaðsins að ríkisstjórnin hafi verið beitt hótunum
um framtíð EES-samstarfsins án þess að skýrt hafi verið frá því hverjir hótuðu
þessu. Nú er sökudólgur dreginn fram í dagsljósið. Það er starfshópur sem ég
veitti formennsku og í sátu lögfræðingarnir Kristrún Heimisdóttir og Bergþóra
Halldórsdóttir. Við eigum að hafa misst fótanna í orkupakkamálinu „fyrstir
allra“ og erum þess vegna algjörlega vanhæf til að leggja trúverðugt mat á EES-samninginn.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra skipaði okkur til skýrslugerðar um EES 30. ágúst 2018 vegna beiðni á alþingi m.a. í tilefni af 25 ára afmæli EES-samningsins. Að verkefni okkar hafi verið að bera í bætifláka fyrir málatilbúnað utanríkisráðherra í orkupakkamálinu er af og frá. Það er einnig rangt hjá höfundi Reykjavíkurbréfs að hópurinn hafi flutt utanríkisráðherra eða öðrum einhverjar hótanir um framtíð EES-samningsins vegna þessa máls. Menn verða kynna sér efni skýrslunnar áður en þeir fella dóm um hana, minna verður varla krafist.
Oft hef ég lýst skoðun minni á orkupakkamálinu hér á vefsíðu minni og einu sinni í sjónvarpsviðtali. Með því að taka málið upp í EES-samninginn í maí 2017 tóku íslensk stjórnvöld á sig þjóðréttarlega skuldbindingu um að innleiða það hér á landi. Sú ákvörðun var tekin löngu áður en utanríkisráðherra skipaði starfshópinn.
Hafi það verið ætlun höfundar Reykjavíkurbréfs að breyta viðhorfi okkar skýrsluhöfunda með atlögu sinni eða leggja á annan hátt stein í götu okkar með niðrandi ummælum sínum er hann seinheppinn. Við höfum lokið störfum og bíðum þess eins og aðrir að lokið verði umbroti og prentun skýrslunnar til kynningar af utanríkisráðherra.