31.7.2023 11:00

Regluverk gegn sauðfjárbændum

Niðurskurðurinn og regluverkið vegna hans heyrir undir matvælaráðuneytið og MAST, matvælastofnun. Byggðaþróunin og byggðafestan heyrir undir innviðaráðuneytið og undirstofnun þess, Byggðastofnun.

Eitt af 98 stærstu sauðfjárbúum landsins hvarf úr sögunni í ár, Syðri-Urriðaá í Miðfirði. Þar var bændum gert skylt að fella fé sitt vegna þess að ein kind hafði smitast af riðu. Hafnað var ósk bændanna að fá að halda í þann hluta hjarðarinnar sem var með verndandi erfðaefni.

Screenshot-2023-07-31-at-10.57.28

Hér á síðunni var 5. júlí sagt frá heimsókn okkar Hlédísar Sveinsdóttur á Urriðaá eins og lesa má hér.

Heimsóknin og samtal okkar við eldhúsborð hjónanna á Urriðaá, Dagbjartar Diljár Einþórsdóttur, búfræðings frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri 2014, og Ólafs Rúnars Ólafssonar vélvirkja, kemur í hugann núna vegna frétta í Morgunblaðinu í dag (31. júlí) og undanfarið um viðhorf stjórnvalda vegna bóta fyrir það tjón sem þau urðu fyrir.

Ólafur Rúnar sagði við mbl.is föstudaginn 28. júlí að sér þætti „galið“ að ekki hefðu fengist neinar bætur. Komið hefði í ljós að stofn hans var ósýktur þegar hann fékk fyrirmæli um að skera hann og síðan að sjálfur um urðunina.

Opinberar bótareglur styðjast við reglugerð sem sett var 2001 til að auðvelda sauðfjárbændum að bregða búi þar sem fækka skyldi sauðfé. Dagbjört Dilja og Ólafur Rúnar hafa hins vegar í huga að hefja sauðfjárrækt á búi sínu að nýju þegar reglur leyfa.

Trausti Hjálmarsson, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, segir við Morgunblaðið 31. júlí að reglugerðir um bætur vegna niðurskurðar fjár séu orðnar úreltar. Ríkið þurfi að axla ábyrgð á því tjóni sem bændur verði fyrir við ákvörðun stjórnvalda um að skera niður bústofn þeirra. Enginn annar geti breytt úreltum reglugerðum en ríkið en þar sjái enginn sóma sinn, setjist niður og horfist í augu við að reglugerðin frá 2001 sé úrelt.

Þegar lesið er um þessar raunir sauðfjárbænda í samskiptum við eftirlitsmenn ríkisvaldsins og varðmenn regluverksins annars vegar og hins vegar litið á skýrslur og athuganir sem ríkið kostar til að tryggja byggðafestu á lögbýlum í sauðfjárræktarhéruðum vakna spurningar um hvort alla samhæfingu skortir innan ríkiskerfisins sjálfs í þessum efnum.

Niðurskurðurinn og regluverkið vegna hans heyrir undir matvælaráðuneytið og MAST, matvælastofnun. Byggðaþróunin og byggðafestan heyrir undir innviðaráðuneytið og undirstofnun þess, Byggðastofnun.

Nú birtast fréttir um að afurðastöðvar bjóði sauðfjárbændum hærra verð fyrir afurðir þeirra vegna meiri eftirspurnar og fækkunar sauðfjár undanfarin ár. Þá hefur markaður fyrir ull gjörbreyst til batnaðar fyrir bændur. Í fyrra birtist svartsýn samantekt á vegum Byggðastofnunar um stöðu sauðfjárræktar þar sem því var spáð að margir sauðfjárbændur hættu búskap haustið 2023. Það hefði veruleg „byggðaleg áhrif á viðkvæmum svæðum“ meðal annars í Húnaþingi vestra. Var mælt með fjárhagslegum mótvægisaðgerðum af hálfu ríkisins til að sporna gegn þessu. Það er undarlegt ef þeir sem bera ábyrgð á reglugerðinni frá 2001 hafi ekki lesið þessa samantekt.