9.3.2021 9:45

„Reginvitleysa“ um Schengen

Í tilvitnuðu orðunum birtist misskilningurinn um réttarstöðu þeirra sem hingað koma ljóslifandi. Öllu er skellt undir Schengen-samstarfið.

Algeng villa í umræðum um þátttöku okkar Íslendinga í Evrópusamstarfi er að rugla saman EES-reglunum um frjálsa för og Schengen-reglunum um að unnt sé að ferðast á milli Evrópulanda án þess að framvísa vegabréfi. Þetta er tvennt ólíkt.

Þúsundir Íslendinga nýta sér reglurnar um frjálsa för, þær hafa getið af sér nýjan lífsstíl Íslendinga undanfarin aldarfjórðung eins og flest sem rekja má til EES-aðildarinnar. Íslenskt þjóðlíf hefur tekið stakkaskiptum á þessum tíma.

Það var meiri ágreiningur um aðildina að EES í upphafi tíunda áratugarins en aðildina að Schengen í lok hans. Rökin fyrir aðild að Schengen-samstarfinu voru einkum þau að utan þess yrðum við ekki lengur hluti af vegabréfalausum samskiptum Norðurlandabúa. Norrænu rökin dugðu þeim vel sem kynntu Schengen-aðildina á vettvangi ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar á sínum tíma, Halldóri Ásgrímssyni utanríkisráðherra og Þorsteini Pálssyni dómsmálaráðherra.

Visa-circulation-schengen

Til marks um að menn átti sig ekki á muninum á reglum EES-samstarfsins annars vegar og Schengen-samstarfsins hins vegar má vitna í grein eftir Hauk Ágústsson, fyrrv. kennara, í Morgunblaðinu í dag (9. mars).

Haukur nefnir að samkvæmt tölum Hagstofu Íslands hafi mannfjöldi á Íslandi 1. janúar 2020 verið 364.134 og séu innflytjendur um það bil 16% þeirra sem búa í landinu, það er um 61 þúsund. Þá segir Haukur:

„Hvers vegna? Vegna þess að við gerðum þá reginvitleysu að gangast undir ákvæði Schengen-sáttmálans um frjálsa för fólks. Ýmsir komu í leit að vinnu eða voru þegar komnir með hana, en aðrir leita betri kjara til dæmis í velferðarþjónustu. Á meðal hinna síðarnefndu eru til að mynda þeir sem fá hér hæli til langs eða skamms tíma og hafa sumir fengið það vegna linku eftirgefanlegra stjórnvalda sem missa móðinn þegar fámennir hópar taka til háværra mótmæla gegn löglegum brottvísunum.“

Í tilvitnuðu orðunum birtist misskilningurinn um réttarstöðu þeirra sem hingað koma ljóslifandi. Öllu er skellt undir Schengen-samstarfið og sagt að það snúist um „frjálsa för“. Sé eitthvað „reginvitleysa“ í þessu samhengi er það röksemdafærsla Hauks gegn Schengen-samstarfinu og er þetta ekki í fyrsta skipti sem hann dettur í þennan pytt í skrifum sínum um útlendingamál í Morgunblaðið. Er mál að þessum rangfærslum linni.

Eftir að straumur flótta- og farandfólks til Evrópu stórjókst um miðjan síðasta áratug hefur gagnrýni á Schengen-samstarfið magnast og enn frekar vegna heimsfaraldursins. Það hefur hins vegar reynst þrautin þyngri að loka ytri landamærum Schengen-svæðisins og enn er óljóst til hvaða breytinga reynslan af faraldrinum leiðir.

Vandinn hér á landi vegna Schengen-samstarfsins snýr að linum útlendingalögum og þar með landamæravörslu. Úr þessu öllu er unnt að bæta með strangari útlendingalöggjöf. Sé minnst á nauðsyn þess fer margt á annan endann. Ekki verður gripið skynsamlegra gagnaðgerða nema menn geri sér grein fyrir hvar vandinn liggur en fimbulfambi ekki um hluti af þekkingarleysi.