14.6.2023 9:14

Raunsæi Þórdísar Kolbrúnar

Þetta er í raun kjarni þeirrar ákvörðunar að loka sendiráði Íslands í Moskvu tímabundið og vísa jafnframt Rússum á brott héðan án þess að krafist sé lokunar sendiráðs þeirra eða stjórnmálasambandi slitið.

Norrænu utanríkisráðherrarnir komu saman á fundi á Ísafirði þriðjudaginn 13. júní og ræddu það sem efst er á baugi í utanríkis- og öryggismálum þjóðanna. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra stjórnaði fundinum og sagði við Ólaf Einar Jóhannsson, blaðamann mbl.is, að ráðherrarnir hefðu verið sammála um öll helstu áherslumálin.

Blaðamaðurinn sagði að ekki væri á döfinni hjá stjórnvöldum annarra norrænna ríkja að loka sendiráðum sínum í Moskvu eins og utanríkisráðherra Íslands hefði gert. Spurði hann ráðherrann um skoðun hennar á því.

Þórdís Kolbrún sagðist ekki hafa gert ráð fyrir lokun annarra norrænna sendiráða í Moskvu. Starfsemi þeirra hefði hins vegar minnkað og af gildum ástæðum hefði Rússum verið vísað á brott frá Norðurlöndunum. Það mætti spyrja hvers vegna íslensk stjórnvöld hefðu ekki einnig brottvísað rússneskum sendiráðsmönnum úr því að það hefði verið gert í nágrannalöndunum. Þórdís Kolbrún svaraði spurningu sinni á þennan hátt:

„Ef við hefðum sent nokkra Rússa heim og rússnesk stjórnvöld svarað í sömu mynt, eins og venjan er, þá hefði það haft aðrar afleiðingar fyrir sendiráð okkar í Moskvu en sendiráð hinna Norðurlandanna vegna þess að við erum svo fá, erum aðeins með tvo diplómata og örfáa starfsmenn.“

Þetta er í raun kjarni þeirrar ákvörðunar að loka sendiráði Íslands í Moskvu tímabundið og vísa jafnframt Rússum á brott héðan án þess að krafist sé lokunar sendiráðs þeirra eða stjórnmálasambandi slitið.

Bolafjalln5-1-Þátttakendur í norræna utanríkisráðherrafundinum fóru upp á Bolafjall við Bolungarvík (mynd: utanríkisráðuneytið).

Í pistlum hér hefur þessu verið lýst á þann hátt að í skjóli þess að Rússar hefðu í raun íslenska sendiráðið í Moskvu í gíslingu gætu þeir farið sínu fram hér á landi með fjölgun mannafla þar sem að minnsta kosti þriðjungur er á vegum njósnastofnana. Frumkvæði utanríkisráðherra með tímabundinni lokun sendiráðsins í Moskvu bindur enda á þetta ástand og svigrúm íslenskra stjórnvalda til töku ákvarðana í þágu öryggis þjóðarinnar og bandamanna eykst.

Utanríkisráðherra segir í viðtalinu að ákvörðun hennar kalli á gagnkvæmni um leið og nágrannaríkin séu „í mun betri færum en við til að átta sig á því hvað kann að vera í gangi í sínum löndum hvað þetta varðar“. Það er nauðsyn þess að fækka í sendiráðum Rússa vegna njósna eða annarrar ólögmætrar starfsemi.

Blaðamaðurinn veltir fyrir sér hvort tengsl séu á milli þess að frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á lögreglulögunum um auknar rannsóknarheimildir lögreglu og ákvarðana utanríkisráðherra um sendiráðið í Moskvu.

Utanríkisráðherra segir ekki um „bein tengsl“ að ræða á hinn bóginn sé „mikilvægt að lögreglan hafi þau verkfæri sem hún þarf til þess að geta unnið sína vinnu“.

Þeir sem gagnrýna utanríkisráðherra fyrir að stíga skrefið sem hún steig til að setja umsvifum rússneska sendiráðsins skorður hrópa gjarnan að þar birtist eitthvert stórmennskubrjálæði. Þar er hins vegar um allt annað að ræða. Ákvörðunin endurspeglar stöðu íslenska stjórnkerfisins vegna fámennis þjóðarinnar og andstöðu við að treysta öryggisgæslu gegn innri ógn og ytri.