Raunsæi forsætisráðherra
Ræða forsætisráðherra var í algjörri andstöðu við kenninguna sem lögð var til grundvallar við upphaf Hringborðs norðurslóða fyrir 11 árum.
Það kvað við annan tón en áður í setningarræðunni sem Bjarni Benediktsson forsætisráðherra flutti á Hringborði norðurslóða, Arctic Circle 2024, í Hörpu fimmtudaginn 17. október. Forveri hans, Katrín Jakobsdóttir, hefði aldrei lýst stöðunni á norðurslóðum á eins raunsæjan hátt og Bjarni gerði.
Myndin er fengin af vefsíðu Arctic Circle - Harpa iðar öll af lífi daga Hringborðs norðurslóða.
Bjarni sagðist ekki ætla að tala neina tæpitungu. Við stæðum á krossgötum, líklega þeim mikilvægustu í tíð hans kynslóðar. Það ríkti bráð geópólitísk spenna og óvissa magnaðist í alþjóðasamskiptum.
Það væri rangt sem margir teldu að norðurslóðir væru einangraðar frá öðrum heimshlutum. Efnahagslega og stjórnmálalega hefðu norðurslóðir ávallt tengst stærri geópólitískum straumum.
Undir forystu Pútins reyndu Rússar að grafa undan alþjóðasamvinnu með því að vega að alþjóðalögum og skipan heimsmála á grundvelli þeirra. Þetta birtist best í innrásinni í Úkraínu.
Ólíklegt væri að Rússar breyttu um stefnu á næstunni. Þetta leiddi til þess að hernaðarlegt mikilvægi Norður-Atlantshafs og norðurslóða ykist – nægði þar að benda á hervæðingu Rússa í norðri. Samhliða þessu opnaðist Norður-Íshaf til siglinga og auðlindanýtingar vegna hlýnunar jarðar.
Við öllu þessu yrði að bregðast. Hann nefndi þrjú meginatriði:
- 1. Gæslu og stuðning við alþjóðalög og virðingu fyrir fullveldi. Þetta setti samvinnu við Rússa ákveðin mörk.
- 2. Norðurskautsríkin sjö yrðu að halda áfram að móta öryggisstefnu fyrir norðurslóðir.
- 3. Traust á samstarfsaðilum og bandamönnum. Þar nytu Íslendingar samstarfs við norrænu ríkin og Norðurskautsríkin sjö. Aðildin að NATO og varnarsamningurinn við Bandaríkin yrðu áfram lykilstoðir öryggis okkar og varna.
Íslendingar yrðu að auka eigið viðnámsþol og leggja meira af mörkum til NATO vegna ástands heimsmála. Í því fælist meðal annars að skapa NATO-þjóðum betri aðstöðu hér til eftirlits, einkum með ferðum kafbáta.
Þegar gengið verður til kosninga 30. nóvember ættu kjósendur að hafa þessar staðreyndir í huga og velta fyrir sér hverjum þeir treysta best til að leggja raunhæft mat á þróun öryggis- og varnarmála og skynsamleg viðbrögð við henni.
Ræða forsætisráðherra var í algjörri andstöðu við kenninguna sem lögð var til grundvallar við upphaf Hringborðs norðurslóða fyrir 11 árum um að í hánorðri væri unnt að skapa eitthvert sérstakt alþjóðlegt ástand sem tæki ekki mið af því sem gerðist annars staðar í heiminum.
Málum er alls ekki þannig háttað og hafa Rússar, nú í náinni samvinnu við Kínverja, lagt sig mest fram um að grafa undan þessari kenningu. Eða eins og Bjarni Benediktsson sagði:
„Hvort sem okkur líkar það betur eða verr breytast norðurslóðir hratt í vettvang hnattrænnar samkeppni og hervæðingar og það er í okkar höndum að ákvarða hvernig þróunin verður á þessu svæði.“