2.1.2022 10:48

Raunsæi Finna og Dana

Finnar árétta að Kremlverjar ráði ekki hvort þeir gangi í NATO. Danir minna á það sem þá skiptir mestu.

Sauli Niinistö, forseti Finnlands, ræddi spennuna í heimsmálum í áramótaávarpi sínu og vísaði sérstaklega til hættuástandsins í Úkraínu. Hann sagði að alþjóðamál hefðu á sér annan blæ núna en fyrstu áratugina eftir lok kalda stríðsins. Óvissa ríkti í samskiptum stórveldanna.

Forsetinn sagði að í hvert skipti sem geópólitískir straumar breyttust gætti breytinganna einnig og meðal ríkja sem ekki teldust stórveldi. Stundum bitnuðu breytingarnar einkum á þeim.

39-89799961d02780bfbccSauli Niinistö Finnlandsforseti flytur nýársávarp sitt 2022.

Forsetinn sagði að hugmyndir um endurreisn áhrifasvæða hefðu runnið sitt skeið. Nýlegir úrslitakostir Rússa gagnvart Bandaríkjamönnum og NATO um frekari stækkun NATO snertu einnig Evrópu. Þess vegna yrði ESB að láta meira að sér kveða og ekki láta sér hlutverk áheyrandans nægja.

„Fullveldi ýmissa aðildarlanda, einnig Svíþjóðar og Finnlands, hefur verið ögrað af öflum utan sambandsins. Þetta leiðir til þess að ESB verður aðili málsins. ESB verður að láta sér annað lynda en að koma aðeins fram sem tæknilegur stjórnandi refsiaðgerða,“ sagði Finnlandsforseti.

Hann áréttaði að Finnar kynnu að sækja um aðild að NATO og sagði:

„Svigrúm Finna til aðgerða og til að velja á milli kosta felur einnig í sér að stofnað sé til hernaðarlegrar samvinnu og sótt um aðild að NATO, tæki þjóðin sjálf þá ákvörðun.“

Sósíal-demókratinn Sanna Marin,forsætisráðherra Finnlands, sagði í áramótaávarpi sínu að Finnar hefðu þann kost að geta sótt um aðld að NATO. Þeir yrðu að halda í frelsi sitt til að velja þennan kost og sjá til þess að hann hyrfi ekki því að í honum fælist réttur hverrar þjóðar til ákveða sjálf stefnu sína í öryggismálum.

Sósíal-demókratinn Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, sagði í áramótaávarpi sínu að við lifðum á tímum þegar mikil óvissa ríkti að nýju í heimsmálum. Í austri væri ofbeldishneigt Rússland. Afganistan hrunið. Þrýstingur vegna farenda. Réttur kvenna til þungunarrofs takmarkaður. Hryðjuverk. Trakað væri á lýðræðislegum gildum okkar.

Hún gat þess að í ár yrðu 50 ár liðin frá því að Danir samþykktu að ganga í ESB. Danir ættu heima í hjarta eigin álfu. Þeir ættu ekki annan kost. Veik Evrópa jafngilti veiku Vestri. Heimurinn þyrfti á því gagnstæða að halda,

„Við eigum að standa vörð um gildi okkar. Og við eigum að styrkja öryggi okkar. Ásamt mikilvægustu samstarfsþjóð okkar, Bandaríkjamönnum, og bandamönnum okkar í NATO.“

Þegar hér var fundið að því í gær að ekki væri minnst á stöðu Íslands í utanríkis- og öryggismálum í yfirlýsingum ráðamanna um áramót eru það orð eins og þau sem vísað er til hér að ofan sem skipta máli.

Finnar árétta að Kremlverjar ráði ekki hvort þeir gangi í NATO. Danir minna á það sem þá skiptir mestu. Bæði í Finnlandi og Danmörku telja menn að heimsmyndin hafi versnað og aukinnar aðgæslu sé þörf. Það á einnig varðandi Ísland og ber að viðurkenna og árétta. Þögn um neikvæða þróun heimsmála vegna framgöngu Rússa og Kínverjas breytir ekki gangi þeirra.