Raunhæft loftslagsskref
Tímamót með samningi Loftslagsskrár Íslands, rafræns skráningargrunns fyrir kolefniseiningar, við eignarhaldsfélagið Festi hf. um skráningu fyrsta vottaða kolefnisbindingarverkefnisins.
Á dögunum ritaði ég grein í Morgunblaðið um nauðsyn þess að hér yrði unnt að eiga markaðsviðskipti með alþjóðlega vottaðar kolefniseiningar. Hvorki loftslagsverkefnin Votlendissjóður né Kolviður bjóða slíkar einingar. Heimavottað kerfi tryggir ekki verðmæti á þessum markaði frekar en öðrum.
Tímamót urðu hér fyrir nokkrum dögum með samningi Loftslagsskrár Íslands, rafræns skráningargrunns fyrir kolefniseiningar, við eignarhaldsfélagið Festi hf. um skráningu fyrsta vottaða kolefnisbindingarverkefnisins samkvæmt gæðakerfinu Skógarkolefni.
Frá undirritun samningsins við Festi hf. Frá vinstri Guðumundur Sigbergsson Loftslagsskrá, Eggert Þór Kristófersson Festi hf. og Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri (mynd: Pétur Halldórsson).
Skógræktin veitir ráð og hefur eftirlit með kolefnisskógrækt Festi hf. að Fjarðarhorni í Hrútafirði, skammt frá Staðarskála. Þetta er fyrsta verkefni íslensks fyrirtækis af þessum toga.
Skógræktin þróaði gæðakerfið, Skógarkolefni, að erlendri fyrirmynd. Óháð vottunarstofa vottar að farið sé í einu og öllu eftir gæðakerfinu. Í frétt af undirritun samningsins segir Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri að með verkefninu stígi Festi hf. mikilvægt skref til ábyrgrar kolefnisjöfnunar hérlendis. Það sé í samræmi við álit Loftslagsráðs frá síðasta ári um að ábyrg kolefnisjöfnun sé mikilvægur þáttur í heildstæðri loftslagsstefnu og hluti af vegferðinni að kolefnishlutleysi. Þá segir skógræktarstjóri:
„Til að tryggja rekjanleika og gagnsæi mun óháð vottunarstofa sjá um að staðfesta að farið sé í einu og öllu eftir gæðakerfinu. Þegar binding verður raunveruleg og nýta á árangurinn til kolefnisjöfnunar verður það gert með afskráningu kolefniseininga í Loftslagsskrá. Það er afar ánægjulegt að við hjá Skógræktinni höfum fundið fyrir auknum áhuga á vottaðri kolefnisjöfnun meðal íslenskra og erlendra fyrirtækja sem sjá hag sinn í því að kolefnisjafna sinn rekstur með nýskógrækt hér á landi og er Skógarkolefni því okkar svar við því ákalli.“
Á vefsíðu Loftslagsskrár segir að með skránni sé unnt að tryggja ábyrga kolefnisjöfnun. Skráning loftslagsverkefna og útgáfa kolefniseininga sem séu staðfestar af óháðum aðila séu forsenda árangursríkra aðgerða í loftslagsmálum. Markaðir með kolefni hafi þróast á Kyoto-tímabilinu (frá 1997) til að fjármagna aðgerðir til kolefnisjöfnunar í rauntíma. Markaðirnir greiði fyrir fjármögnun loftslagsverkefna með kolefnisjöfnun fyrirtækja og stofnana. Aðgengi að þeim sé hins vegar háð miðlægri skráningu loftlagsverkefna og útgáfu einkvæmra og rekjanlegra kolefniseininga. Loftslagsskrá sé beintengd við alþjóðlega kauphöll með kolefniseiningar þar sem skrá megi einingarnar til sölu. Skráningin auðveldi fjármögnun verkefna og aðgengi að kolefnismörkuðum.
Fyrir þá sem vilja ná raunverulegum, viðurkenndum og árangursríkum markmiðum í loftslagsmálum er mikils virði að markaðstengja verðmætin sem um er að ræða. Hér snýst verkefnið um víðtæka skógrækt sem gagnast Festi hf. Margar aðrar leiðir til að nýta jarðveg til kolefnisbindingar eru á döfinni og ljóst er að bændur geta verulega látið að sér kveða á þessu sviði enda sækir kolefnisbúskapur (e. carbon farming) mjög í sig veðrið í Evrópu og N-Ameríku auk Ástralíu.