Rannsóknir auka öryggi
Á sviði EES-mála og öryggis- og varnarmála skortir innlendar rannsóknir og viðmið sem nýtist stjórnvöldum við mótun og framkvæmd ábyrgrar stefnu.
Norska ríkisstjórnin ákvað í byrjun maí 2022 að samin skyldi skýrsla um reynslu Norðmanna af EES-samstarfinu undanfarin 10 ár eða frá því að slík skýrsla um stöðu Noregs var unnin síðast. Var skipuð nefnd til að bera ábyrgð á skýrslunni og efni hennar en í ágúst 2022 birtist frétt um að skýrslugerðin sjálf, það er efnisöflun og annað, yrði á vegum ARENA Senter for europaforsking. Það er að segja þverfaglegs rannsóknaseturs um evrópsk málefni við Oslóarháskóla. Í kynningu á setrinu segir að líta megi á það sem kjarna norskra rannsókna á pólitíska samrunanum í Evrópu auk þess sem það sé í forystu slíkra setra á alþjóðavettvangi, meðal annars með aðild að ýmsum alþjóðlegum rannsóknarverkefnum sem njóti norskra og alþjóðlegra rannsóknarstyrkja.
Í skýrslu sem unnin var fyrir utanríkisráðuneytið og stjórnvöld hér og skilað var fyrir þremur árum segir að stuðla beri að meiri rannsóknarstarfsemi á EES-málum og á fleiri fræðasviðum en lögfræðilegum. Lagt er til að í samvinnu stjórnvalda, hagsmunaaðila og rannsóknarstofnana verði komið á fót hugveitu EES-mála sem verði til ráðuneytis vegna þeirra, beiti sér fyrir opinberum umræðum og málþingum.
Ekkert hefur verið gert með þessa tillögu frekar en ýmsar aðrar sem er að finna í skýrslunni. Má búast við því að íslensk stjórnvöld vakni upp við vondan draum þegar norska skýrslan um EES-samstarfið birtist. Frá árinu 2019 hafa stórtíðindi orðið í Evrópu sem hafa áhrif á EES-samstarfið eins og allt annað og sé ekki náið fylgst með því öllu af hálfu íslenskra aðila er hætta á að hér haldi menn ekki nógu vel á íslenskri hagsmunagæslu. Hvarvetna verða stjórnvöld að njóta fræðilegrar ráðgjafar.
Á þetta er minnt í þingsályktunartillögu með Njáll Trausti Friðbertsson og nokkrir fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa flutt um að alþingi feli „utanríkisráðherra að hafa forgöngu um gerð samnings við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands um sjálfstætt rannsóknasetur um öryggis- og varnarmál“.
Í greinargerð tillögunnar segir meðal annars:
„Til að rannsóknasetrið sé starfhæft þarf að tryggja grunnfjárveitingu af hálfu ríkisins vegna tveggja starfsmanna við setrið. Á setrinu verði stundaðar rannsóknir sem nýtast á hagnýtan og fræðilegan hátt fyrir þá sem undirbúa og taka ákvarðanir um hernaðarlegt og borgaralegt öryggi. Setrið verði fræðilegur og hagnýtur samstarfsvettvangur þeirra sem standa að samhæfingarstöð um almannavarnir auk öryggisdeilda einkarekinna fyrirtækja. Starfsmenn ráðuneyta og stofnana geti nýtt setrið til að dýpka eða víkka þekkingu sína. Þá tengist setrið erlendum rannsóknarstofnunum sjálfstætt og í alþjóðlegu samstarfsneti Alþjóðamálastofnunar HÍ. Rannsóknarstjóri stjórni setrinu og verði starf hans auglýst. Setrið hafi aðstöðu í húsnæði Alþjóðamálastofnunar. Setrið beiti sér fyrir útgáfu efnis á íslensku og ensku, standi að opinberum fyrirlestrum og málþingum, eitt eða í samvinnu við aðra.“
Í ljós kemur hvort þingmenn samþykkja þessa sjálfsögðu tillögu. Á sviði öryggis- og varnarmála skortir innlendar rannsóknir og viðmið sem nýtist stjórnvöldum við mótun og framkvæmd ábyrgrar stefnu.
Í greinargerðinni er ekki aðeins fjallað um hernaðarlegt heldur einnig borgaralegt öryggi. Hlutverk lögreglu til að tryggja það hefur verið til umræðu undanfarið. Það er góðra gjalda vert að ræða við afbrotafræðinga um leiðir til að tryggja borgaralegt öryggi. Þeir nálgast þó málið frá öðru fræðilegu sjónarhorni en leggja verður til grundvallar þegar litið er á það frá sjónarhorni löggæslunnar. Hvort heldur skortur á innlendum fræðimönnum eða fáfræði fréttamanna ræður vali á viðmælendum um nauðsyn hertrar löggæslu við breyttar þjóðfélagsaðstæður kann val á röngum viðmælendum að villa um fyrir almennum lesendum eða hlustendum.