26.4.2019 7:11

Ragnar Þór fimbulfambar um O3

Það eru umræðurnar sem vekja formanni VR ugg í brjósti. Miðað við framlag hans eru slíkar áhyggjur ekki ástæðulausar.

Andstæðingum þriðja orkupakkans hefur nú bæst nýr liðsmaður,

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. Því miður ber það sem formaðurinn segir um málið merki þess að hann hafi ekki frekar en svo margir aðrir sem kveða sér hljóðs um O3 kynnt sér efni málsins. Það eru umræðurnar sem vekja formanni VR ugg í brjósti. Miðað við framlag hans eru slíkar áhyggjur ekki ástæðulausar.

986782Formaður VR gerir óraunhæfa kröfu til forseta Íslands með því að krefja hann um að vísa afgreiðslu þingsályktunartillögu til þjóðarinnar.

Ragnar Þór spyr hvort Íslendingar geti treyst kjörnum fulltrúum til að taka svo stórar ákvarðanir sem snúa að orkumálum þjóðarinnar. „Svona miðað við allt sem á undan er gengið?“

Án nánari skýringa talar hann um ofsafengin „viðbrögð þekktra hagsmunaafla við réttmætum spurningum og gagnrýni“. Hver eru þessi þekktu hagsmunaöfl?

Það sem einkennir þriðja orkupakkann er einmitt að engin svonefnd „hagsmunaöfl“ berjast fyrir innleiðingu hans. Væri svo hefði hann verið innleiddur fyrir löngu eða skömmu eftir að þingmenn samþykktu hluta hans 28. maí 2015. Það sem eftir stóð lenti í undandrætti vegna uppnáms á stjórnmálavettvangi og það var ekki fyrr en 2017 sem ákvörðunin var tekin um að gera pakkann að EES-máli.

„Getum við gert þá kröfu að tekin verði afstaða í svo umdeildu máli í þjóðaratkvæðagreiðslu og þjóðin tekið upplýsta ákvörðun út frá þeim upplýsingum sem liggja fyrir og þeirri reynslu sem við höfum á markaðsvæðingu innviða?“ spyr Ragnar Þór á FB-síðu sinni.

Hann beinir orðum sínum til forseta Íslands og segir:

„Ég treysti því að forsetinn okkar standi undir nafni og vísi þessari ákvörðun til þjóðarinnar verði málið rekið áfram í gegnum þingið í óbreyttri mynd.“

Þetta kórónar skort Ragnars Þórs á vitneskju um eðli málsins. Fyrir þinginu liggur tillaga til þingsályktunar um 3O. Verði hún samþykkt liggur fyrir ályktun alþingis um að heimilt sé að lögfesta það sem fylgir innleiðingu 3O. Um það liggja tvö frumvörp fyrir alþingi: 1. um að ekki megi veita heimild til að leggja sæstreng nema alþingi samþykki; 2. um að auka sjálfstæði Orkustofnunar innan stjórnkerfisins. Forseti Íslands hefur ekkert um þingsályktunartillögur að segja. Hann undirritar hins vegar lög. Vill formaður VR að forsetinn neiti að undirrita þessi lög svo að þjóðin geti greitt atkvæði um þau?