Rafrænn áskiftarmiðill
Breska vikuritið The Spectator sem komið hefur út í 193 gekk í endurnýjun lífdaga í faraldrinum. Vönduð rafræn áskriftarútgáfa réð mestu um það.
Fyrir nokkru skrifaði Fraser Nelson, ritstjóri elsta vikurits í heimi, The Spectator, grein um hvernig það hefur þrifist í faraldrinum. Á ritstjórninni hefðu menn búið sig undir hið versta. Annað hefði orðið uppi á teningnum, salan hefði aukist úr 83.000 eintökum árið 2019 í 105.850 fyrri hluta þessa árs, sem sé 27% aukning miðað við fyrri hluta árs 2020. Vinsældir rafrænnar áskriftar séu miklar en flestir vilji einnig fá prentað eintak.
Útgáfa The Spectator er samfelld í 193 ár og útbreiðslan hefur aldrei verið meiri en núna. Ritstjórinn segir skýringuna að nú sé meiri áhugi á því sem vikuritið hafi alltaf boðið: ólíkum skoðunum, sjálfstæðri hugsun en umfram allt góðum texta. Nú gefi dagleg skrif á Spectator-vefsíðuna tækifæri til að kafa dýpra með frásögnum af faraldrinum, erlendum málefnum og viðskiptalífinu. Hvergi sé slegið af gæðakröfum. Mikið rými sé lagt undir umsagnir um bækur og fréttir úr menningarlífinu – áhugi á þessum efnisþáttum sé meiri hjá lesendum en nokkru sinni. Ritstjórnin hafi kynnst því að á tímum hörmunga aukist spurn eftir hágæða frásögnum og skýringum.
Vöxtur The Spectator á COVID-19-tíma vekur mikla athygli – línan sýnir fjölda seldra eintaka í 193 ár.
Samhliða þessu hóf The Spectator að skrá þá áskrifendur sem vildu á póstlista með fréttum af faraldrinum og gangi stjórnmála í ljósi hans. Njóta þessir listar mikilla vinsælda t.d. eru 124.000 áskrifendur á stjórnmála-póstlistanum sem er mest lesinn lista um stjórnmál í Bretlandi. Eru póstlistar vegna fleiri efnisþátta í undirbúningi. Þá hefur hlustun á hlaðvarp The Spectator stóraukist og öðru hverju er áskrifendum boðið að fylgjast með sjónvarpsumræðum á streymisveitu og beina fyrirspurnum til þátttakenda.
Unnt er að fara inn á vefsíðu The Spectator og skoða hana en aðgangur að efni er seldur í áskrift. Áskriftarsala er orðin að almennri reglu með nokkrum undantekningum, eins og t.d. hjá vinstra blaðinu The Guardian, og er áskrifendum að vefsíðum miðla boðin víðtæk þjónusta með skráningu á alls kyns póstlista. Hefur þetta treyst hágæða blaðamennsku í sessi og skotið nýjum og traustum stoðum undir fjárhag blaða eins og t.d. The New York Times sem stóð mjög höllum fæti um tíma.
Föstudaginn 27. ágúst var skýrt frá því að í tengslum við vefsíðuna Vísi, hluta fjölmiðla Stöðvar 2 og Vodafone, ætti að auka þjónustu með nýjum áskriftarmiðli. Hörður Ægisson, núverandi viðskiptaritstjóri Fréttablaðsins, Ólöf Skaftadóttir, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins, og viðskiptablaðamaðurinn Þorsteinn Friðrik Halldórsson hafa verið ráðin til að hleypa miðlinum af stokkunum.
„Leitast verður við að færa umgjörð fréttaflutnings um viðskipti, efnahagsmál og stjórnmál nær því sem þekkist á faglegum viðskiptamiðlum í helstu nágrannaríkjum,“ sagði Hörður Ægisson um markmið nýja miðilsins.
„Okkar nýi miðill mun leggja áherslu á fréttir af viðskiptum, ásamt stjórnmálum innanlands, og auka enn frekar þjónustu við lesendur Vísis og annarra miðla fyrirtækisins,“ sagði Ólöf Skaftadóttir.
Athygli vekur að hvorugt þeirra leggur áherslu á erlendar fréttir en skortur á þeim og skýringar sem tengjast stöðu og þróun hér á landi þekkjast ekki í íslenskum fjölmiðlum um þessar mundir.
Vonandi tekst með vönduðum vinnubrögðum, fréttaöflun og skýringum að skapa þessum nýja miðli fjárhagslegt öryggi og vinsældir á borð við það sem The Spectator hefur kynnst undanfarna mánuði.