Ráðherraskipti vegna regluvörslu
Ráðherraskipti hjá sjálfstæðismönnum á miðju kjörtímabili ber að með öðrum hætti en nokkur gat séð fyrir.
Í dag, 14. október, er dagur breytinga á ríkisstjórninni. Boðað er að tilkynnt verði hver tekur við af Bjarna Benediktssyni sem fjármála- og efnahagsráðherra og búist við að það verði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. Um verði að ræða svokölluð stólaskipti þar sem Bjarni verði utanríkisráðherra. Gerist þetta á miðju kjörtímabili.
Það er engin tilviljun að fjögur ár eru í kjörtímabili. Kraftur lýðræðis og þingræðis er reistur á hreyfi- og breytingaraflinu sem felst í því að reglulega verði að leggja störf ráðamanna undir dóm kjósenda.
Í Svíþjóð var gerð tilraun þegar kjörtímabilið var stytt niður í þrjú ár. Það þótti ekki gefa góða raun, tíminn væri of stuttur til að móta og hrinda stefnu í framkvæmd.
Tveggja ára kjörtímabil í fulltrúadeild Bandaríkjaþings veldur því að þar ríkir stöðug kosningabarátta sem birtist til dæmis núna í því að þar myndast enginn meirihluti meðal repúblíkana um forseta deildarinnar. Endurspeglar það meðal annars spennu vegna framboðsbrölts Donalds Trumps sem lætur öllum illum látum til að verða aftur forseti Bandaríkjanna.
Ráðherraskipti hjá sjálfstæðismönnum á miðju kjörtímabili ber að með öðrum hætti en nokkur gat séð fyrir. Að umboðsmaður alþingis kæmist að þeirri niðurstöðu sem hann gerði fyrir viku kom í opna skjöldu. Sannaði það hve fyrirsjáanleiki er lítill í stjórnmálum.
Eini þingmaðurinn sem telur sig hafa vitað að það yrði niðurstaða umboðsmanns að Bjarna Benediktsson brysti hæfi til að samþykkja sölu eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka er mesti lýðskrumarinn í röðum Pírata, Björn Leví Gunnarsson. Hann hefur hvað eftir annað kynnt furðulegar skoðanir á lögfræðilegum álitaefnum og tekur varla til máls opinberlega án þess að sneiða persónulega að fráfarandi fjármálaráðherra.
Af áliti umboðsmanns má álykta að hann telji sig þjóna hagsmunum almennings með niðurstöðu sinni, hvorki hann sjálfur né almenningur hafi fengið nægar sannanir fyrir hæfi ráðherrans af því að það skorti minnisblöð eða fundargerðir. Þessi krafa um minnisblöð og fundargerðir um stórt og smátt innan stjórnsýslunnar varð mjög hávær eftir að um 2.000 bls. skýrsla rannsóknarnefndar alþingis á bankahruninu birtist árið 2010.
Var sagt að vegna skrásetningarkröfunnar hefði hægt á öllum ákvörðunum innan stjórnarráðsins. Embættismenn hefðu varla þorað að láta sér neitt til hugar koma án þess að velta því fyrst vel fyrir sér hvort þeir yrðu að festa óskráða hugsun sína á blað. Slíkar spurningar hljóta nú að vakna að nýju innan stjórnarráðsins.
Lagadagurinn svonefndi var haldinn í gær, 13. október, og herma fréttir að þar hafi Eyvindur G. Gunnarsson, lagaprófessor við Háskóla Íslands, sagt að löggjöf um fjármálamarkaði væri orðin of flókin og úttekt Englandsbanka benti til þess að menn skorti vitsmunalega getu til að skilja hana til hlítar.
Skorti á regluverki var kennt um hrun fjármálakerfisins haustið 2008. Það hrynur kannski núna af því að enginn skilur regluverkið. Þá kemur að gervigreindinni. Tekur hún við af umboðsmanni og öðrum regluvörðum?