Ráðherra afskrifar kvikmyndaskóla
Verður tilkynningin ekki skilin á annan veg en þann að ráðuneytið hafi einhliða ákveðið að líta á gjaldþrot kvikmyndaskólans sem endalok hans.
Við val á Guðmundi Inga Kristinssyni í embætti mennta- og barnamálaráðherra fyrir hönd Flokks fólksins var róið á áður ókunn mið.
Til varnar nýja ráðherranum birti samfylkingarmaðurinn Jónas Már Torfason, lögmaður og fyrrv. blaðamaður, færslu á Facebook 25. mars og fór hörðum orðum um þá sem hæddust að Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir að tala brotakennda ensku í ávarpi á alþjóðlegu menntaþingi í Hörpu daginn eftir að hann tók við ráðherraembættinu. Jónas Ingi sagði gagnrýni á ráðherrann skýrt dæmi um stéttahroka, ráðherrar þyrftu ekki að vera langskólagengnir.
Það er hárrétt að ekki er gerð nein menntunarkrafa til ráðherra og Guðmundur Ingi hefur lýst sig fullfæran um að gegna kröfuhörðu embætti sínu þrátt fyrir að hann sé öryrki. Sú staðreynd kemur ekki í veg fyrir að honum beri að fara að lögum og reglum sem ráðherra, hann verður einnig að sætta sig við hlutlæga gagnrýni.
Föstudaginn 11. apríl birti mennta- og barnamálaráðuneytið fréttatilkynningu um að ráðuneytið hefði farið þess á leit við Tækniskólann að nemendur Kvikmyndaskóla Íslands fengju boð um að innritast í skólann og ljúka námi sínu frá Tækniskólanum. Nemendur yrðu hluti af Tækniakademíu skólans. Nemendur nytu stuðnings náms- og starfsráðgjafa og stjórnenda skólans við yfirfærsluna og öll stoðþjónusta skólans stæði þeim til boða. Tækniskólinn myndi bjóða „nemendum á upplýsingafund eftir helgi“.
Nám undir nafni Kvikmyndaskóla Íslands hefur verið í boði frá árinu 1992. Haustið 2003 veitti Tómas Ingi Olrich, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, skólanum formlega viðurkenningu ráðuneytisins á tveggja ára námsbraut í kvikmyndagerð á framhaldsskólastigi. Þá varð Kvikmyndaskóli Íslands viðurkenndur skóli í menntakerfinu. Um árabil, en árangurslaust, hefur skólinn óskað eftir að fá viðurkenningu til að bjóða nám á háskólastigi. Yfirvöld hafa samþykkt kvikmyndanám í Listaháskóla Íslands. Kvikmyndaskólinn hefur til þessa útskrifað yfir 600 nemendur.
Í tilkynningu sinni segir ráðuneytið að Kvikmyndaskóli Íslands hafi verið rekinn með halla um árabil og skólinn hafi tilkynnt um gjaldþrotameðferð í lok marsmánaðar. Í stað viðræðna við stjórnendur skólans sneri ráðuneytið sér til Tækniskólans. Nú hefjist þar „vinna við gerð nýrrar námsbrautar í kvikmyndagerð“. Mennta skal þar „fagfólk í ört vaxandi kvikmyndaiðnaði“.
Verður tilkynningin ekki skilin á annan veg en þann að ráðuneytið hafi einhliða ákveðið að líta á gjaldþrot kvikmyndaskólans sem endalok hans.
Ráðuneytið afskrifar kvikmyndaskólann dagana sem kvikmyndahátíðin Stockfish Festival er haldin. Hún vekur jafnan mikinn áhuga erlendra blaðamanna enda talin kjörinn vettvangur fyrir kvikmyndagerðarfólk alls staðar að til að hittast og mynda tengsl. Ef til vill mun mennta- og barnamálaráðherra nota þann vettvang til að kynna rökin að baki þessari ákvörðun sinni.
Í yfirlýsingu til fjölmiðla frá rektor skólans, Hlín Jóhannesdóttur, og öðru starfsfólki skólans að kvöldi 11. apríl segir að ákvörðun ráðherrans endurspegli mikið þekkingarleysi og sé að þeirra mati hrein valdníðsla. Erfitt sé að skilja hvað liggi að baki hennar. Enginn starfsmaður skólans hafi vitað af áformunum áður en ráðuneytið tilkynnti um þau.