Raðað í ESB-valdastöður
Fjórir flokkar með miðjuvald í ESB-þinginu í stað tveggja. Merkel og Macron deila og drottna.
Meginfréttir af úrslitum kosninganna til ESB-þingsins sem lauk sunnudaginn 26. maí voru að flokkarnir tveir sem hafa til þessa ráðið því sem þeir vildu á þinginu gera það ekki lengur. Mið-hægriflokkurinn sem ber skammstöfunina EPP og mið-vinstriflokkurinn S&D töpuðu lykilstöðu sinni á þinginu. EPP er nú með 179 þingmenn af 751 en átti 221 eftir kosningarnar 2014. S&D eru nú með 153 en átti 191.
Þótt þjóðernissinnaðir gagnrýnendur á ESB í Frakklandi og á Ítalíu séu með mesta fylgið í löndum sínum leiddu kosningarnar ekki til þess sigurs skoðanabræðra þeirra sem margir væntu. Þótt ekki sé unnt að setja alla þessa flokka undir sama hatt má benda á að Danski þjóðarflokkurinn fékk verstu útreið sína í kosningunum núna.
Myndin er er tekin fyrir ESB-þingkosningarnar af frambjóðendum til embættis forseta framkvæmdastjórnar ESB. Sé litið á myndina frá hægri ber þar fyrst að nefna Manfred Weber frá EPP, Frans Timmermans frá S&D, Margrethe Vestager frá ALDE og Ska Keller frá Græningjum. Þingflokkar þeirra ráða ferðinni á ESB-þinginu. Til vinstri við Keller eru fulltrúar minni þingflokka. Af þeim sem þarna eru má telja Vestager líklegasta til að hljóta hnossið þótt það sé allsendis óvíst.
Þrátt fyrir að gömlu miðjuflokkarnir hafi tapað tökum sínum á ESB-þinginu vann miðjan samt sigur í kosningunum. Græningjar (69 þingmenn) styrktu stöðu sína verulega. Sömu sögu er að segja um frjálslynda í þingflokknum sem ber skammstöfunina ALDE (105 þingmenn).
Ofangreindir fjórir flokkar verða með miðjuvaldið á ESB-þinginu næstu fimm árin í stað tveggja áður. Þessir flokkar eru síður en svo gagnrýnir á meiri samrunaþróun innan ESB.
Guy Verhofstadt, leiðtogi ALDE, er til dæmis helsti talsmaður þess að til sögunnar komi Bandaríki Evrópu. Hann lítur á Evrópusambandið sem gallað samband þjóðríkja, alltaf of svifaseint þegar eitthvað gerist. Efla þurfi miðstjórnarvald og móta sameiginlega stefnu í utanríkis- og öryggismálum.
Í aðdraganda kosninganna var Verhofstadt ekki frambjóðandi ALDE í embætti forseta framkvæmdastjórnar ESB heldur Margrethe Vestager frá Danmörku, samkeppnisstjóri ESB undanfarin fimm ár.
Á kosninganóttina lét Vestager í ljós þá skoðun að ekki lægi lengur á borðinu að æðstu stöður innan ESB skiptust enn einu sinni mill EPP og S&D.
„Í fimm ár hefur það verið verkefni mitt að brjóta upp einokun og það hafa kjósendur einnig gert í dag,“ sagði hún. Emmanuel Macron Frakklandsforseti sendi sína þingmenn í ALDE-þingflokkinn til að styðja Vestager. Macron sagði í vikunni að hann vildi tvær konur í tvö af fimm æðstu embættum ESB.
Michel Barnier, Brexit-samningamaður ESB, á rætur í EPP-flokknum. Þótt flokksbræður hans í Frakklandi hafi fengið illa útreið í kosningunum kann hann að koma til greina sem forseti framkvæmdastjórnarinnar. Emmanuel Macron vill örugglega að ALDE styðji Frakkann Barnier í embætti forseta framkvæmdastjórnarinnar.
Leiðtogaráð ESB ætlar að raða mönnum í æðstu ESB-embættin á fundi sínum 20. og 21. júní. Fyrir þann tíma þurfa Angela Merkel og Emmanuel Macron að hafa komist að niðurstöðu. Af þeirra vilja ráðast ákvarðanir á þessum bæ.