Qr kóði á tónleikum – kolefnisbúskapur
Tónleikagestir skönnuðu kóðann eða strikamerkið með appi í síma sínum og lásu tónleikadagskrána á skjá símans. Á
Arctic Circle 2022, hringborði norðursins í boði Ólafs Ragnars Grímssonar, lýkur í Hörpu í dag (16. október). Að þessu sinni bar hringborðið merki um minnkandi strategískan, viðskiptalegan og pólitískan áhuga á því. Loftslagsmál, samfélagsmál og málefni frumbyggja settu sterkan svip á dagskrá daganna hér, megi marka það sem birtist á netinu. Fræðimenn og sérfræðingar sækja þingið og nota vettvanginn til að bera saman bækur sínar á sérhæfðum fundum.
Hafi tíminn fyrir þinghaldið verið valinn í október til að lengja ferðamannatímann virðist þess ekki lengur þörf. Ferðamannastraumurinn hingað er slíkur að um tvö þúsund manna þing truflar hann frekar en eykur.
Hér hafa einnig verið Norrænir músikdagar undanfarið, þar hittast tónskáld, bera saman bækur sínar og hlusta á tónlist sem flutt er víða um borgina, meðal annars í Húsdýragarðinum.
Það vakti athygli, að minnsta kosti þeirra sem eldri eru, að hvergi var á tónleikum lagt fram neitt blað um efni þeirra, flytjendur eða kynningu á tónskáldum. Þess í stað var bent á Qr kóða sem límdur var á vegg við dyrnar inn í tónleikasalinn. Qr kóði er nokkurskonar strikamerki sem hægt er að geyma gögn á bak við. Með því að nota app úr síma eða öðru snjalltæki er hægt að skanna strikamerkið og skoða efnið sem tengt er kóðanum.
Tónleikagestir skönnuðu kóðann eða strikamerkið með appi í síma sínum og lásu tónleikadagskrána á skjá símans. Á netinu má sjá að í leikskólum er börnum nú kennt að nýta sér Qr kóðann í snjalltækjum á borð við iPad.
Nú vaknar spurning um það hvernig vitneskjan varðveitist um tónleika á Norrænum músikdögum 2022, hvað þar var flutt, af hverjum og undir stjórn hvers. Er þetta hætt að skipta máli? Umsagnir um tónleika birtast ekki lengur reglulega í fjölmiðlum. Myndast gat í tónlistarsöguna? Verða upptökur á öllum tónleikunum ef til vill varðveittar í snjallheiminum og aðgengilegar þar til allrar framtíðar? Getum við notað Qr kóðann til að kalla fram tónleikana og hlusta á þá þegar okkur hentar?
Í dag lýkur landbúnaðarsýningu í Laugardalshöll. Gífurlegt fjölmenni var þar síðdegis laugardaginn 15. október og bílum lagt um allt í dalnum. Voru starfsmenn bílastæðasjóðs önnum kafnir við að afla tekna fyrir hann með því að festa sektarmiða á bíla utan stæða.
Sýningin er til marks um grósku á mörgum
sviðum íslensks landbúnaðar og mörg tækjanna sem þar eru sýnd eru næsta framandi.
Ég staldraði sérstaklega við hjá YGG, Yggdrasill Carbon, fyrirtæki á Egilsstöðum sem einbeitir sér að framleiðslu vottaðra kolefniseininga. Á bæklingi sem fyrirtækið dreifði er Qr kóði sem opnar leið til meiri fræðslu um það. Þar segir að YGG beiti „alþjóðlega viðurkenndri aðferðafræði við mælingu raunávinnings einstakra verkefna sem leiðir til þess að út eru gefnar vottaðar kolefniseiningar“.
Það er mikils virði að hér starfi fyrirtæki (stofnað 2020) til að tryggja að kolefniseiningar í íslenskum landbúnaði njóti viðurkenningar á alþjóðlegum kolefnismarkaði sem verður sífellt stærri.