Pútin skelfingu lostinn
Heima fyrir segja andstæðingar Pútins að Navalníj sé annar áhrifamesti stjórnmálamaður Rússlands á eftir forsetanum.
Alaxei Navalníj, stjórnarandstæðingur í Rússlandi, yfirgaf Berlín sunnudaginn 17. janúar og hélt með flugvél til Moskvu. Þýskir læknar björguðu Navalníj eftir eiturárás í Síberíu í ágúst 2020 og lauk fimm mánaða dvöl hans í Þýskalandi með brottförinni frá Berlín. Beitt var sovésku eitri, novitsjok, gegn Navalníj og stóðu útsendarar rússneskra stjórnvalda að árásinni, þau neita hins vegar allri sök.
Við heimkomu Navalníjs var hann handtekinn fyrir að hafa rofið skilorð. Myndir frá flugvellinum sýna þegar lögregla leiðir Navalníj á brott án þess að lögfræðingur hans fengi leyfi til að fylgja honum. Mál Navalníjs verður tekið fyrir af dómara og er líklegt að hann verði sendur í fangelsi fyrir skilorðsbrot vegna dóms sem hann hlaut í fjársvikamáli. Navalníj segir fjársvikamálið tilbúning stjórnvalda.
Alexei Navalníj og Júlía, kona hans, á leið heim til Moskvu.
Navalníj er 44 ára. Hann komst í sviðsljósið fyrir um það bil áratug vegna uppljóstrana hans um spillingu í rússneska stjórnkerfinu. Á árunum 2011 of 2012 var hann í forystu fjöldamótmæla gegn Vladimir Pútin Rússlandsforseta og stjórn hans. Hann bauð sig fram til forseta og hóf sókndjarfa kosningabaráttu. Honum var síðan bannað að taka þátt í kosningunum árið 2018. Árið 2013 fékk hann þriðjung atkvæða í borgarstjórakosningum í Moskvu. Vegna tveggja skilorðsbundinna dóma sem hann hefur síðan hlotið má hann ekki bjóða sig oftar fram í Rússlandi. Árið 2014 var Navalníj sakfelldur af rússneskum dómara fyrir fjársvik. Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) telur dóminnm ólögmætan.
Í þessari stuttu samantekt birtast ekki aðeins höfuðdrættir þess sem á daga Alexeis Navalníjs hefur drifið undanfarin ár heldur lýsing á ömurlegum og ofsóknarfullum stjórnarháttum í Rússlandi Pútins. Skref fyrir skref herða Pútin og félagar tökin á Rússum.
Við komuna til Moskvu 17. janúar beinist athygli að Navalníj á mun skarpari hátt en áður. Heima fyrir segja andstæðingar Pútins að Navalníj sé annar áhrifamesti stjórnmálamaður Rússlands á eftir forsetanum. Með þessu er ekki lítið sagt um mann sem getur ekki hreyft sig án leyfis stjórnvalda sem vilja ryðja honum endanlega úr vegi.
Pútin glotti á blaðamannafundi fyrir jól og sagði fráleitt að hann eða menn hans hefðu staðið að tilræði við Navalníj, að hann væri enn á lífi sannaði það! Þarna talaði valdamaður, alinn upp í KGB, þar sem þeim var refsað með lífláti sem risu gegn valdinu.
Navalníj minnir á andófshetjurnar sem snerust gegn Sovétstjórninni á sínum tíma. Við þeim brugðust Kremlverjar á álíka klunnalegan hátt og þeir gera enn þann dag í dag. Þá voru vestrænir ráðamenn næsta bjargarlausir vildu þeir veita hetjunum stuðning. Sömu sögu er að segja um þessar mundir.
Núna er þó meira vitað en þá um flutning auðugu ríkisfurstanna á fjármunum sínum út úr Rússlandi. Augljósasta vantrúin á rússneska stjórnarhætti birtist í því að þeir sem eru á toppnum geyma eignir sínar utan Rússlands. Vestrænar refsiaðgerðir bitna því þungt á mörgum Kremlverja. Ótti Pútins við það sem gerist á heimavelli er þó mestur eins og birtist í hræðslunni við Navalníj.