22.2.2022 10:55

Pútin skammar Lenín

Pútin lýsti vonbrigðum yfir því að Lenín og Bolsévikar hefðu árið 1917 hvatt þjóðir rússneska keisaradæmisins til að nýta sér tækifæri til sjálfstæðis eftir byltinguna í Rússlandi.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti flutti 40 mínútna sjónvarpsávarp að kvöldi mánudags 21. febrúar til að rökstyðja þá ákvörðun sína að viðurkenna tvö „alþýðulýðveldi“ Donetsk og Luhansk í Úkraínu, sjálfstjórnarhéruð sem aðskilnaðarsinnar, hollir Rússum stofnuðu eftir að Pútin hernam Krímskaga árið 2014. Að ávarpinu loknu ritaði Pútin undir samkomulag við stjórnendur „alþýðulýðveldanna“ sem fól meðal annars í sér að rússneskir hermenn skyldu sinna þar „friðargæslu“ í óþökk stjórnar Úkraínu sem lítur á þetta sem brot gegn fullveldi sínu og friðhelgi landamæra sinna.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kom saman til neyðarfundar skömmu eftir þessar ákvarðanir Pútins og mótmælti meirihluti ríkja þar þessu broti á alþjóðalögum. Í dag hafa verið boðaðar refsiaðgerðir Vesturlanda.

Í upphafi ræðu sinnar fordæmdi Pútin í löngu máli að litið væri á Úkraínu sem sjálfstætt ríki. Hann lýsti vonbrigðum yfir því að Lenín og Bolsévikar hefðu árið 1917 hvatt þjóðir rússneska keisaradæmisins til að nýta sér tækifæri til sjálfstæðis eftir byltinguna í Rússlandi.

Putin-ukraine-lenin-stalinVladimir Pútin flytur 40 mínútna sjónvarpsávarp 21. febrúar 2022 til að réttlæta að Úkraína eigi ekki rétt á sjálfstæði.

Ein þjóðanna sem nýtti þetta tækifæri voru Finnar. Land þeirra var hluti rússneska keisaradæmisins og þeir völdu leið frelsis árið 1917.

Í Finnlandi fylgdust menn því náið með orðum Pútins þegar hann rökstuddi valdatöku sína í austurhluta Úkraínu með vísan til þess að hann liti til keisarans en ekki Leníns þegar hann réttlætti óvild sína í garð fullvalda Úkraínu.

Sanna Marin, forsætisráðherra Finna, fordæmdi einhliða aðgerðir Rússa sem brytu gegn fullveldi og friðhelgi landamæra Úkraínu. Forsætisráðherrann sagði að með því að viðurkenna aðskilnaðarsvæði í austurhluta Úkraínu brytu Rússar alþjóðalög og Minsk-friðarsamkomulagið. Finnar mundu svara aðgerðum Rússa sem aðildarríki ESB.

Sauli Niinistö Finnlandsforseti sagði að skref Pútins nú sneri aðeins að Úkraínu en hvorki að Finnlandi né Eystrasaltslöndunum sem einnig urðu sjálfstæð eftir hrun rússneska keisaradæmisins. Hann sagði diplómatíska lausn ekki óhugsandi en miklu meira væri undir en áður og hætturnar meiri. Enn ætti margt eftir að gerast.

Finnska blaðið Helsingin Sanomat spurði Arkadíj Moshes, sérfræðing í rússneskum málefnum, hvað gerðist næst. Að hans mati er stríð ekki óhjákvæmilegt, líklegra sé að Rússar láti sér nægja að sölsa undir sig Luhansk og Donbas í stað innrásar í Úkraínu. Það sýni veikleika Rússa að viðurkenna sjálfstæði þeirra: Rússar ráði líklega ekki yfir nægum herafla til allsherjar innrásar í Úkraínu.

Í leiðara finnska blaðsins Iltalehti er Pútin líkt við Hitler og Stalín, hann sé hættulegur og hann verði að stöðva.

Þessi viðbrögð Finna lýsa í hnotskurn afleiðingum ákvarðanna Pútins og ofbeldis hans gegn Úkraníumönnum.

Finnar hafa mesta þekkingu norrænna þjóða á því sem gerist í Rússlandi. Sófaspeki þeirra sem bera hér í skjóli varnarsamnings við Bandaríkin og NATO-aðildar og blak af ofbeldi Pútins er forkastanleg og til skammar.