25.2.2022 10:08

Pútin-heilkennið

Þeir sem eru illa haldnir af Pútin-heilkenninu utan Rússlands bera blak af Rússlandsforseta þótt hann hafi alþjóðalög að engu og traðki á sjálfstæði Úkraínu.

Rétt er að halda því til haga hér á síðunni að í dag hefur öllum hömlum vegna COVID-19-faraldursins verið aflétt hér á landi. Smitin voru þó yfir 3.000 í gær en sögð líkjast flensu. Það var 5. mars 2020 sem ég varð fyrst var við það á mannamótum hér að faraldurinn fældi fólk frá að heilsast með handabandi.

Önnur pest herjar nú á suma, Pútin-heilkennið, það er sú árátta annars frjálshuga manna að leita hvers skyns skýringa til að réttlæta sókn rússneska umsátursliðsins inn í Úkraínu. Nú að morgni annars dags innrásarinnar berast fréttir af árásum á höfuðborgina Kiev. Þar kann að verða barist frá einu húsi til annars.

Volodymyr Zelenskíj forseti segir að fyrst eigi að gera út af við sig og síðan fjölskyldu sína. Hann hefur síður en svo bugast gagnvart óvinum sínum sem vilja taka þjóð hans og land í gíslingu. Hann er tákn þess að nú standa Úkraínumenn einir á meðan Vestrið er áfram á gráa svæðinu og menn talið er að ofbeldissinnaður einræðisherra láti efnahagsþvinganir stöðva sig.

Ukraine-kyiv-independence-square-maidan-protests-emilio-morenatti-ap-photo-1280x720Hér er auðvelt að ná í útvarpsstöðina BBC World Service sem Vodafone sér um að miðla á FM-bylgju hér (94.50). Þar var fimmtudaginn 24. febrúar í þættinum Newshour rætt við Vitalíj Milonov, þingmann úr flokki Pútins, sem lýsti innrásinni í Úkraínu sem „skynsamlegum viðbrögðum“ við „árás“. Með innrásinni tæki Pútin sér fyrir hendur „mjög nauðsynlegt og mikilvægt verkefni“ og hann fullyrti að almenningur á hernumdu svæðunum í austurhluta Úkraínu fagnaði „frelsurum sínum með blómum“.

Strax eftir samtalið við Milonov var rætt við prófessor Michael McFaul, fyrrv. sendiherra Bandaríkjanna í Moskvu (2012-2014) sem spurði: „Ef þetta væri 1. september 1939 munduð þið ræða við félaga í Nasistaflokknum til að skýra [innrásina þá] með þessari fáránlegu algjörri fölsun á sögunni og upplýsingum eins og við heyrðum rétt í þessu frá Milonov?“

McFaul er nú prófessor í alþjóðastjórnmálum við Stanford-háskóla í Kaliforníu sagði að hér væri um að ræða „siðferðilega spurningu“ fyrir BBC. Milonov segði „alfarið tóma vitleysu“. Í því fælist engin þjónusta við heiminn að leyfa rödd hans að heyrast í BBC.

Prófessorinn sagði sér misboðið að vera þátttakandi í fréttaþætti strax á eftir Milonov „algjörri málpípu sem [færi] með tóma vitleysu um atburðina í Úkraínu – enginn kastaði þar blómum fram fyrir skriðdreka“.

Þeir sem eru illa haldnir af Pútin-heilkenninu utan Rússlands bera blak af Rússlandsforseta þótt hann hafi alþjóðalög að engu, traðki á sjálfstæði Úkraínu og sendi her til að gera út af við stjórnendur landsins. Við þetta fallast sumum hendur og vita ekki hvaðan á sig stendur veðrið, sérstaklega sé þetta gert í fjölmiðlum sem taldir eru vandir að virðingu sinni.

Á samfélagsmiðlum má víða lesa boðskap einstaklinga sem nota athugasemda dálka á þráðum gagnrýnenda Pútins til að afhjúpa Pútin-heilkenni sitt. Að eiga orðastað við sumt af þessu fólki þjónar engum tilgangi og vafalaust leynast Rússa-nettröll í hópnum. Ritstjórna- og aðgangsvaldið er þó hjá eiganda þráðarins. Stundum er gott að grípa til þess.