3.3.2022 10:21

Pútin beitir flóttamannavopni

Pútin vonaði að flóttamannastraumur frá Úkraínu vestur á bóginn mundi setja allt á annan endann innan ESB, minnugur uppnámsins þar árin 2015-2016 vegna flótta- og farandfólksins.

Fyrr í vetur notaði Alexander Lukasjenko, einræðisherra Hvíta-Rússlands, flótta- og farandfólk frá Mið-Austurlöndum til að skapa illindi gagnvart nágrönnum sínum í Póllandi og Litháen. Með saklausu fólki í miklum vanda ætlaði hann að hefna sín á nágrönnum sínum vegna aðildar þeirra að ESB.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti hreifst af þessu herbragði vinar síns þegar hann skipulagði innrásina í Úkraínu. Pútin vonaði að flóttamannastraumur frá Úkraínu vestur á bóginn mundi setja allt á annan endann innan ESB, minnugur uppnámsins þar árin 2015-2016 vegna flótta- og farandfólksins.

_123414633_gettyimages-1238750607Strax fyrsta dag stríðsaðgerða Pútins mynduðust langar bílalestir að vestur landamærum Úkraínu. Þá bauð Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, alla flóttamenn frá Úkraínu velkomna í nafni ESB-landanna. Nágrannaþjóðir Úkraínu: Pólverjar, Ungverjar, Slóvakar og Rúmenar, auk Moldóvum sem eru utan ESB, fylgdust með vígvæðingu Pútins mánuðum saman og bjuggu sig undir afleiðingar hernaðar hans. Af 44 milljónum íbúum í Úkraínu er talið að allt að sjö milljónir flýi til annarra landa. Svo háar tölur um landflótta fólk hafa ekki sést í Evrópu frá því í síðari heimsstyrjöldinni.

í Morgunblaðinu í dag (3. mars) segir að alls hafi 30 flóttamenn frá Úkraínu sótt um alþjóðlega vernd hér á landi vegna innrásar Rússa. Meirihluti umsækjenda eru konur og börn. Að fáir karlmenn komi hingað frá Úkraínu er eðlilegt í ljósi þess að á aldrinum 18 til 60 ára er þeim skylt að dveljast í ættlandi sínu því til varnar.

Meirihluti þeirra sem nú kemur hingað er sagður hafa tengsl við Ísland. Tiltölulega auðvelt er að komast flugleiðis hingað frá austur- og miðhluta Evrópu vegna ferða Wizzair. Þá er í gildi samingur Úkraínu og Schengen-ríkja um vegabréfsáritanir sem auðvelda komu flóttafólksins inn á Schengen-svæðið.

Hafi Pútin veðjað að á að nú yrði spennan í Evrópu vegna flóttamannastraum jafnmikil og 2015-2016 verður hann fyrir vonbrigðum. Viðhorfið í Vestur-Evrópu minnir á það sem var árið 1956 þegar Ungverjar risu gegn Sovétvaldinu sem sendi skriðdreka inn í Búdapest og fólkið streymdi vestur á bóginn. Margir minnast framgöngu Gunnlaugs Þórðarsonar lögmanns til bjargar ungversku flóttafólki hingað til lands og var því tekið opnum örmum.

Svipaður andi ríkir nú og árið 1956 gagnvart landflótta Úkraínumönnum. Allir frjálshuga karlar og konur gera sér grein fyrir að í Úkraínu traðkar her Pútins nú á lýðræðislegum gildum, brýtur alþjóðalög og gerist sekur glæpsamlegt athæfi.

Heather Hurlburt, stjórnandi hugveitunnar New Amercia, sagði við Washington Post:

„Árið 2015 sá Pútin að deilurnar um flóttafólk sköpuðu ólgu í vesturhluta Evrópu. Þegar Vestrið sýnir nú að þar er vilji til að takast á við flóttamannavanda án þess að allt fari úr skorðum og án óvildar missir Pútin tæki sem hann taldi sig geta notað til að grafa undan stöðugleika í vestrænum samfélögum.“

Við Íslendingar leggjum okkar af mörkum til að innrás Pútins missi marks með því að taka vel á móti flóttafólki frá Úkraínu.