Prófessor Stefán og vofa Friedmans í Eflingu
Til að gefa baráttu sinni fræðilegt yfirbragð réðu sósíalistar í Eflingu Stefán Ólafsson prófessor í hlutastarf hjá sér.
Kreddustjórnmál samtímans á Íslandi er nú einkum að finna innan Sósíalistaflokks Íslands sem náði tökum á Eflingu stéttarfélagi þegar Sólveig Anna Jónsdóttir var kjörin formaður félagsins með stuðningi 8% félagsmanna. Hún réð samstarfsmann sinn úr Sósíalistaflokknum, Viðar Þorsteinsson, sem framkvæmdastjóra Eflingar. Saman hafa þau gripið til hreinsana á skrifstofu Eflingar. Áróðursstjóri flokksins og Eflingar er Gunnar Smári Egilsson sem nýtur stuðnings bróður síns en hann heldur úti vefsíðunni Miðjunni. Þar er vegið skipulega að þeim sem eru í sigti sósíalistanna hverju sinni, nú beinast spjótin sérstaklega að Degi B. Eggertssyni borgarstjóra. Efling ætlar að sprengja lífskjarasamninginn með því að taka leikskóla Reykjavíkurborgar í gíslingu.
Til að gefa baráttu sinni fræðilegt yfirbragð réðu sósíalistar í Eflingu Stefán Ólafsson prófessor í hlutastarf hjá sér. Stefán hefur lengi látið að sér kveða í netheimum, hann studdi málstað Jóhönnustjórnarinnar 2009 til 2013, hreinu vinstristjórnarinnar sem stefndi inn í Evrópusambandið, ætlaði að kollvarpa fiskveiðistjórninni og stjórnarskránni fyrir utan að vilja gangast undir Icesave-samningana. Allt fór þetta sem betur fer í handaskolum.
Stefán Ólafssson. prófessor og ráðgjafi í hlutastarfi, Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.(Mbl.is Eggert)
Nú skrifar Stefán öðru hverju á vefsíðuna Kjarnann og í dag (25. janúar) um að nýfrjálshyggju Miltons Friedmans hafi verið hafnað í Bandaríkjunum og svissneska fjallabænum Davos, það er á árlegri ráðstefnu áhrifamanna í stjórnmálum og fjármálum.
Stefán segir að nú sé ekki lengur talað um að fyrirtæki eigi einungis að skila eigendum sínum (hluthöfum) sem mestum gróða heldur hafi þau skyldur „gagnvart starfsmönnum sínum, viðskiptavinum, birgjum, neytendum eða samfélaginu almennt“.
Í grein sinni gefur Stefán Ólafsson. til kynna að frá því að Friedman lýsti skoðunum sínum árið 1970 hafi Sjálfstæðisflokkurinn verið andvígur því að „samfélagið skaffaði fyrirtækjum vegi, hafnir, flugvelli, menntað starfslið, heilbrigðisþjónustu, löggæslu og veitti þeim aðgang að sameiginlegum auðlindum“.
Hálf öld er liðin frá því að grein Friedmans birtist. Rangfærslur Stefáns Ólafssonar um Sjálfstæðisflokkinn eru í anda blekkingarmyndarinnar af íslensku þjóðfélagi sem Stefán hefur kynnt til sögunnar á undanförnum árum. Tal hans um mikinn ójöfnuð á Íslandi er ekki í samræmi við alþjóðlega staðla sem notaðir eru til að mæla jöfnuð innan ríkja.
Breytingin sem Stefán
Ólafsson ræðir í grein sinni um að hagsmunir eigenda ráði ekki í ferðinni í rekstri
fyrirtækja er ekki bundin við fjárhagslega þætti heldur allt viðmót fyrirtækjanna,
það sé „audience driven“, taki mið af þörfum viðskiptavina og annarra sem skapa
fyrirtækjunum tilgang og tilverurétt. Sérstakt athugunarefni er hvort
stefnubreytingin ræðst af samfélagslegu tilliti eða nýjum aðferðum til að ná
betri árangri og hagnast meira.
Stefán Ólafsson ætti að benda samstarfsmönnum sínum í ráðandi stétt Eflingar á að framkoma þeirra í garð fólksins sem þau ráku af skrifstofu Eflingar sé að hans mati í anda nýfrjálshyggjunnar en ekki sósíalismans. Hefur vofa Friedmans búið um sig innan Eflingar?