Prédikanir á dönsku
Að umræður séu um þetta í Danmörku endurspeglar breytingar á dönsku samfélagi og raunar flestum evrópskum samfélögum undanfarna áratugi.
Í Danmörku hefur verið unnið að stjórnarfrumvarpi til laga um að prédikanir. Þar er mælt fyrir um að allar prédikanir í Danmörku skuli þýddar á dönsku. Biskupar Danmerkur sendu 8. janúar 2021 bréf til fimm ráðherra með forsætisráðherrann, Mette Frederiksen, efst á blaði þar sem lýst er „þungum áhyggjum“ af áhrifum laga um þetta efni á trúfrelsi í landinu og samskipti dönskumælandi safnaða og annarra safnaða landsins þar sem athafnir fara fram á móðurmáli þeirra sem í þeim eru.
Minnt er á að í danska ríkjasambandinu séu töluð þrjú tungumál: grænlenska, færeyska og danska. Í samkomulagi danskra og þýskra stjórnvalda sé þýska viðurkennd sem guðsþjónustumál í Sønderjylland og Sydslesvig. Þá hafi danska ríkið til þessa viðurkennt að í landinu séu söfnuðir, kristnir eða annarrar trúar, sem noti erlend tungumál við trúarathafnir.
Í Frúarkirkjunni í Kaupmannahöfn - Kristmynd Thorvaldsens yfir altarinu.
Segja biskuparnir að verði söfnuðir þar sem ekki er töluð danska og prestar þeirra skyldaðir til þess að þýða allar predikanir á dönsku og birta þær skapi það þunga byrði bæði fjárhagslega og í framkvæmd. Þá benda biskuparnir á að krafa um þýðingarskyldu á dönsku sé ekki gerð á stjórnmálavettvangi eða almennt í félagslegum og menningarlegum samskiptum. Með því að skipa trúarlegu starfi þarna í sérflokk geti það kallað fram grunsemdir í þess garð og grafið undan trausti í garð fólks sem sýnir landi og þjóð hollustu sem traustir ríkisborgarar þótt tungumál þeirra og upprunalegur menningarheimur sé annar.
Það yrði dönskum söfnuðum víða um heim þungt högg ef svipaðar reglur og boðaðar eru í lagafrumvarpinu yrðu settar í öðrum löndum. Nægi þar að nefna vandræðin sem yrðu ef t.d. Grænlendingar og Færeyingar gerðu kröfu um að prédikanir á dönsku yrðu þýddar á móðurmál þeirra. Í lok bréfsins segja biskuparnir að framlagning frumvarpsins mundi skaða álit annarra þjóða á Dönum. Hvetja þeir ríkisstjórnina til að leggja frumvarpið til hliðar í stað þess að leggja það fram á þingi.
Að umræður séu um þetta í Danmörku endurspeglar breytingar á dönsku samfélagi og raunar flestum evrópskum samfélögum undanfarna áratugi. Fyrir þeim sem semja frumvarp um það efni sem þarna er rætt vakir vafalaust að auka traust innan samfélagsins með auknu gagnsæi. Biskuparnir telja hins vegar að reglur um þýðingarskyldu einmitt á þessu sviði sé til þess fallið að grafa undan trausti og ýta undir grunsemdir í garð þeirra sem prédika á erlendum tungumálum.
Ari Páll Kristinsson segir í málfarsdálki Morgunblaðsins í dag (16. janúar):
„Þegar lýðfræðileg samsetning Íslendinga breytist hratt á tiltölulega skömmum tíma er ekki sjálfgefið að þjóðtungan hafi sama sess í daglegu lífi og tíðkaðist fyrir þremur áratugum. En ef nýir Íslendingar skynja það hjá okkur sem erum fyrir á fleti að við meinum í reynd ekkert með þeirri málstefnu að íslenska skuli vera í fyrsta sæti, hver er þá hvati þeirra til að leggja hart að sér við íslenskunámið?“
Þarna er vikið að sama vanda og tekist er á um í skoðanaskiptunum um prédikanir á dönsku: Hvernig höldum við íslenskunni í fyrsta sæti og hvert leiðir sé það ekki gert?